06.12.1933
Efri deild: 27. fundur, 47. löggjafarþing.
Sjá dálk 132 í D-deild Alþingistíðinda. (1314)

88. mál, greiðslufrestur á skuldum báta útvegsmanna

Flm. (Jónas Jónsson):

Ég vænti þess, að umr. um þessa till., sem við þrír þdm. flytjum hér á þskj. 218, þurfi ekki lengi að tef ja hv. þd. Till. lýtur að því að skora á ríkisstj. að hlutast til um, að bankarnir gangi ekki hart að skuldugum bátaútvegsmönnum með innheimtu á skuldum á þessu ári, meðan verið er að athuga fjárhag bátaútvegsmanna og finna út, hvað hægt er að gera atvinnuveginum til hjálpar. Ég vænti þess að þurfa ekki að flytja langa ræðu til að skýra það, hversu smábataútgerðin er þarfur atvinnuvegur, því það er öllum hv. þdm. kunnugt, þar sem líka allar horfur eru á því, að smáútgerð komi smátt og smátt í stað hinna stærri skipa. Nú er það vitanlegt, að fjölda margir smábataeigendur um land allt verða alveg að stöðva sína útgerð, ef bankarnir heimta af þeim auga fyrir auga og tönn fyrir tönn. Nú má segja, að þar sem ekki eru enn skýrslur fyrir hendi um hag smábátaeigenda, sé ekki hægt að vita, hvað þurfi að gera, en þar til er því að svara, að till. fer aðeins fram á það, að stj. reyni að hafa mildandi áhrif í þessum efnum á þessu tímabili, meðan nefndin er að vinna sín störf, og þar til næsta þing kemur saman í sumar eða í haust og getur tekið afstöðu til málsins.

Það þarf nú kannske ekki við því að búast, að næsta þing hjálpi bátaútvegsmönnum með samskonar löggjöf og sett var fyrir landbúnaðinn, en þess er að vænta, að hið ýtrasta verði gert til þess að hjálpa bátaútveginum með því að lengja afborgunartíma lána og skjóta þannig erfiðleikunum á frest um fleiri ar. Mundi það verða mikil hjálp, því vitað er, að fjöldi mótorbátaeigenda á við mjög erfið lánskjör að búa og mun verri en eigendur stærri skipa.

Án þess að fjölyrða frekar um málið vænti ég, að hv. þd. sjái, að það er þörf og full ástæða til þess að miðla hér málum, og þar hefir enginn betri aðstöðu en ríkisstjórnin.