04.12.1933
Neðri deild: 25. fundur, 47. löggjafarþing.
Sjá dálk 140 í D-deild Alþingistíðinda. (1333)

77. mál, dýrtíðaruppbót

Jakob Möller:

Eins og tekið er fram í grg. till. þessarar, er hún flutt af meiri hl. fjhn. samkv. tilmælum hæstv. fjmrh., og hefir nefndarhlutinn ekki kosið neinn sérstakan frsm. af sinni hálfu. Það, sem sérstaklega kom mér til þess að standa upp, var ræða hv. þm. A.-Húnv. Mér þótti kenna þar svo mikils misskilnings, að ekki mætti ómótmælt standa. Hann sagði, hv. hm., að það væri um tvennt að ræða, sem lægi til grundvallar fyrir þessari þáltill.; fyrst og fremst það, hversu há laun menn hefðu fengið við ýmsa starfa, sem stofnaðir hefðu verið á síðari árum utan launalaga, og í öðru lagi, hversu lág laun sumra starfsmanna ríkissjóðs væru. Undirstöðuna undir launum manna kvað hann eiga að vera kjör þeirra, sem framleiddu. Hér ber það fyrst að athuga, að atvinnurekstur manna er mjög misjafn. Stundum gefur hann góðan arð, en stundum lítinn. Aftur á móti þurfa laun manna að vera sem jöfnust. Væri miðað við kjör framleiðendanna. yrðu að vera sveiflur á launakjörunum, þannig, að þau hækkuðu í góðu árferði, en lækkuðu í illu. En þetta hefir nú engum komið til hugar að framkvæma. Annars er það svo, að þáltill. þessi er ekki borin fram í því skyni að samræma laun embættismanna við launakjör starfsmanna hinna nýju ríkisstofnana, heldur er hún í beinu áframhaldi af því, að launalögin, sem sett voru 1919, voru ekki talin byggð á normölu verðlagi, og því samhliða ákveðin dýrtíðaruppbót til þess að samræma þau við þáverandi verðlag á nauðsynjum manna. Uppbót þessi var reiknuð eftir verðlagi á ýmsum innlendum og útlendum nauðsynjavörum, til þess einmitt, að hún væri í sem mestu samræmi við verð framleiðslunnar á hverjum tíma. Að uppbót þessi er ekki komin lengra niður en í 151/3%, eins og hún er í ár, eða jafnvel eins og hún er talin verða næsta ár, 142/3%, stafar af því, að svo mjög hefir verið haldið uppi verðlagi hinna innlendu framleiðsluvara, til hagsbóta framleiðendunum. Það er því harla ósanngjarnt að vilja lækka dýrtíðaruppbót þessa nú, þar sem vænlegt er, á innlendum vörum hér er haldið í hærra verði en eðlilegur markaður heimilar.