04.12.1933
Neðri deild: 25. fundur, 47. löggjafarþing.
Sjá dálk 143 í D-deild Alþingistíðinda. (1335)

77. mál, dýrtíðaruppbót

Fors.- og fjmrh. (Ásgeir Ásgeirsson):

Ég skal ekki fara langt út í þetta mal. Það var ýmislegt í ræðu hv. þm. A.-Húnv., sem getur verið til leiðbeiningar fyrir þá, sem eiga að undirbúa launamálið fyrir næsta þing. Hv. þm. minntist á það, að ákvæðin um dýrtíðaruppbót til embættismanna og starfsmanna ríkisins hefðu verið sett 1919. Þau eru þá búin að gilda í 14 ár. En hvers vegna hafa þessi ákvæði staðið svona lengi óbreytt? Vitanlega fyrir það, að sanngjarnt hefir þótt að framlengja þau ar frá ári. Þegar nú er að því komið, að endurskoðuð verði launalög og launasamningar og nýjar tillögur um skipun þeirra mála verða lagðar fyrir nýkosið Alþingi á næsta ári, þá er það hrein fjárstæða að breyta nú nokkrum launagreiðslum fyrir fáa mánuði. Hv. þm. segist ekki vera með launahækkun á neinu sviði. Þess þarf hann heldur ekki til að geta greitt atkv. með þessari till. Till. ræðir ekki um launahækkun, heldur það eitt, að dýrtíðaruppbótin verði hin sama á næsta ári eins og yfirstandandi ár. Þessi dýrtíðaruppbót er ekkert há, hún er ekki nema 14% á laun þeirra, sem hafa yfir 3 þús. kr. stofnlaun, en það var sú tíðin, að hún komst upp í 140%. Á þessu sest bezt, að launin hafa lækkað, — og hvers vegna hafa þau lækkað? Vegna þess, að vöruverð hefir lækkað vegna þess að bændur og aðrir framleiðendur hafa fengið minna og minna fyrir afurðir sínar og starf. Þegar því hv. þm. heldur því fram, að það eigi að vera fast samband á milli launa þeirra manna, sem starfa í þágu hins opinhera, og afkomu framleiðenda, þá er hann að krefjast hins sama fyrirkomulags, sem einmitt fyrirmælin um dýrtíðaruppbótina tryggja. Það er vart hægt að fárast um 14% dýrtíðaruppbót, þegar lítið er til þess, að framfærslukostnaður er nú a. m. k. 100% hærri en árið 1914.

Þetta er svo lítil uppbót, að það er ekki hægt að telja hana eftir, og raunar eru engin laun samkv. launalögunum svo há, að hægt sé að segja, að dýrtíðaruppbót á þau sé óþörf. Ég get fallizt á ýmislegt, sem hv. þm. A.-Húnv. sagði um þetta mál, en aðeins sem leiðbeiningu fyrir væntanlega launanefnd. Og það er einmitt dýrtíðaruppbótin, sem felur í sér samræmingu á kjörum starfsmanna ríkisins og framleiðenda. Því getur hann sízt amazt við henni.

Í öðru lagi get ég verið hv. þm. sammála um, að æskilegt væri að hafa launagreiðslur mismunandi háar, eftir því, hvort í hlut ættu einhleypir menn eða fjölskyldumenn. En það er sá galli á, að erfitt er fyrir ríkið eitt að gera slíkan mun á starfsmönnum sínum. Ég hygg, að réttast muni vera að koma slíku fyrir með allsherjarreglum, sem giltu fyrir alla starfsmenn í landinu, og ekki einasta þá, sem eru beinir starfsmenn ríkisins. Til þessa eru opnar leiðir, ef menn vilja fara þær, og verður það viðfangsefni næsta kjörtímabils. En um þá till., sem hér liggur fyrir, veit ég, að hv. Alþingi gerir sig ekki sekt í því að lækka laun þess fólks, sem háð er launalögum, um nokkra mánuði, þar sem launalagaendurskoðun stendur fyrir dyrum. Það er óhrekjanlegt, sem ég hefi sagt, að slíkt getur orðið óbærilegt ýmsum láglaunamönnum ríkisins.

Þá vil ég benda hv. þm. A.-Húnv. á hað, þegar hann ræðir um lágt verð á landbúnaðarafurðum innanlands, að öruggatsta ráðið til þess, að það geti hækkað almennt svo um munar, er einmitt að auka kaupgetu neytendanna. Landbúnaðinum vegnar ekki vel, nema það fólk, sem tekur laun í peningum, svo sem kennarar, póstmenn, símaþjónar og almennir verkamenn, geti stundum keypt smjör og kjöt til að borða, og það er vitanlega komið undir launum þessa fólks, hvort það getur veitt sér þessi gæði. Það er nú orðið viðurkennt meðal allra þjóða, að fyrir því þurfi að sjá í framtíðinni, að kaupgetan svari til framleiðslunnar. Höfuðatriðið um verndun innlends markaðar fyrir innlendar vörur er að auka kaupgetu almennings, svo að hann geti keypt þær nauðsynjar, sem framleiddar eru í landinu sjálfu. Þetta sýnir, að við höfum ekki bezt af því að koma launagreiðslum sem allra lægst og eyðileggja með því hinn innlenda markað, svo hann fari sömu leið og hinn erlendi markaður, sem mikil hætta er nú búin. Till. þessi verður og hlýtur að hafa fylgi hv. þdm.