04.12.1933
Neðri deild: 25. fundur, 47. löggjafarþing.
Sjá dálk 146 í D-deild Alþingistíðinda. (1337)

77. mál, dýrtíðaruppbót

Jón Pálmason [óyfirl.]:

Það eru nokkur atriði í ræðum tveggja síðustu ræðumanna, sem ég vildi gera stuttar aths. við, og vænti ég, að hæstv. forseti sýni mér nokkra þolinmæði. Hæstv. forsrh. hélt því fram, að það væri alls ekki verið að fara fram á hækkun launa með þessari þáltill. Það er rétt út frá því sjónarmiði, að aðeins sé litið til launanna eins og þau hafa verið. En ég vil ekki, að Alþingi afgr. till. um hækkun eða uppbót á neinum launum, sem nú eru lög til um, og í lok þessa árs eru lögin um dýrtíðaruppbótina fallin úr gildi. Till. er um dýrtíðaruppbót á laun embættis- og starfsmanna ríkisins á næsta ári; það er því um að ræða till. um hækkun á launum. Hæstv. ráðh. gekk inn á það, sem ég hélt fram, að framleiðendurnir í landinu hefðu of lítið fyrir sína framleiðslu, en hann hélt jafnframt fram þeirri kenningu, sem ég tel, að sé nokkuð hæpin, að launin þyrftu að vera há, til þess að þeir, sem þau fá, gætu keypt landbúnaðarvörur. Það er að vísu gott, að fjárhagur þessara manna sé góður, en ef það á að byggjast á því, að ríkissjóður eigi með almannafé að hækka laun í þessum tilgangi, þá er það stefna, sem ég get ekki samþ. Hv. þm. Ísaf. lýsti því yfir sem fulltrúi verkalýðsins, að hann vildi samþ. till. Það er vitanlegt, að verkamenn vilja spenna allt kaupgjald sem hæst. Ég get ekki fallizt á, að það sé rétt stefna. Það er því aðeins heillavænleg stefna, að framleiðslan þoli þetta háa kaup. En þolir framleiðslan hátt kaupgjald nú? Og ef hún þolir það ekki, þá hrynur byggingin, framleiðslan sligast. Og það er einmitt það, sem jafnaðarmenn grunar að verði, og í þá átt hnígur öll þeirra stefna í þjóðfélagsmálum, að hin sjálfstæða framleiðsla hrynji. Það er það, sem þeir óska eftir. Hv. þm. talaði um, að laun sumra starfsmanna ríkisins væru svo lág, að þeir þyrftu að lifa á lofti. Hann sagði, að ýmsir þeirra hefðu svo lág laun, að þau væru ekki 200 kr. á mánuði, en ég vil spyrja: Hvaða laun hafa þeir, sem sjálfstæða framleiðslu stunda? Þeir hafa ekki 200 kr., ekki einu sinni 100 kr. á mánuði, heldur miklu lægra. En þegar svo þessi stétt manna á þar á ofan að fara að greiða uppbót á óeðlilega há laun opinberra starfsmanna, samanborið við afkomu almennings, þá er málum þessum stefnt út í öfgar.

Hv. þm. var að spyrja um það, hvað ætti að gera við opinbera starfsmenn, sem ekki gætu lifað á launum sínum, en ég vil spyrja hann aftur 3 móti: Hvernig stendur á því, að slíkur fjöldi manna sækir um hvert einasta opinbert starf, sem losnar í bæjum eða sveitum, og hvað verður um alla þá, sem ekki fá þessi störf ? Ég þekki ekkert einasta launað starf í landinu, sem ekki er þetta kapphlaup um, og það mun vera almenningsálit, að sá, sem slíkt starf hreppir, sé kominn á þá hina grænu grein. Ég álít, að þetta sýni ljóslega gæðahlutfallið milli hinna launuðu starfa og kjara framleiðenda. — Hæstv. forseti gefur mér nú merki um að hætta, en ég vænti þess, að það komi fram við þessa atkvgr., hverjir vilja samþ. þessa till. og hverjir ekki, og þess vegna vil ég leyfa mér að óska nafnakalls um hana.