07.12.1933
Efri deild: 28. fundur, 47. löggjafarþing.
Sjá dálk 148 í D-deild Alþingistíðinda. (1345)

77. mál, dýrtíðaruppbót

Ingvar Pálmason [óyfirl.]:

Ég hefi leyft mér að flytja brtt. á þskj. 341, sem felur það í sér, að heimildin til greiðslu dýrtíðaruppbótar árið 1934 nái aðeins til þeirra embættis- og starfsmanna ríkisins, sem ekki hafa yfir 3500 kr. föst laun. Ég sé ekki ástæðu til að fara mörgum orðum um till. Hún er í fullu samræmi við þær till., sem ég hefi áður flutt í þessu máli, þing eftir þing. Ég hefi ekki skipt um skoðun, þó ég viðurkenni fyllilega, að þeir af starfsmönnum þess opinbera, sem hafa lægri laun, eigi rétt á launajafnaði í samanburði við hin hærri laun. En ég tel með öllu óþarft að veita uppbót á hærri launin. Annars hefir þetta mál verið svo þaulrætt þing eftir þing, að ég hygg, að ekki verði um villzt, hvað við er átt, enda eru ákvæði brtt. nægilega skýr.