18.11.1933
Efri deild: 13. fundur, 47. löggjafarþing.
Sjá dálk 175 í C-deild Alþingistíðinda. (1352)

38. mál, undanþága frá áfengislöggjöfinni

Flm. (Pétur Magnússon):

Eftir að menn sáu fram á það, hver úrslit atkvgr. um bannlögin mundu verða, bjuggust víst flestir við því, að hæstv. ríkisstjórn mundi bera fram frv. um nýja áfengilöggjöf, eða þá a. m. k. fara hina leiðina, sem hér er farin, að gera nauðsynlegar till. um breytingar, sem miðuðu að því að samræma áfengislöggjöfina við þjóðarviljann. Það flaug og fyrir, að stj. mundi gera þetta, en úr því hefir þó ekki orðið, sem ég tel miður farið, enda bar stj. samkv. rökstuðningi þáltill. um þjóðaratkvgr. skylda til að hefjast handa strax eftir að úrslit atkvgr. voru kunn. En það má vel vera, að það hafi haft sín áhrif í þessu efni, hve hæstv. ríkisstj. hefir setið í völtum stólum það sem af er þinginu.

Aðgerðarleysi stj. í málinu hefir orðið til þess, að við nokkrir þm. úr stærri flokkunum höfum talað okkur saman um málið og orðið ásáttir um að láta koma fram frv. um þetta efni. Það varð að samkomulagi, að frv. væri borið fram hér í Ed., og við hv. 3. þm. Reykv. urðum til þess að gerast flm. málsins hér í d. Má líka segja, að ekki sé óeðlilegt, að þetta lenti á okkur, því að engir þm. hafa sterkara bakhjarl í kjósendum sínum um þessa afstöðu en einmitt við.

Ég skal ekki þreyta hv. þd. með því að fara nú að rekja hér feril áfengislaganna, enda gerist þess ekki þörf. Ég vil þó rétt drepa á helztu atriðin. Aðflutningsbannlög á áfengi voru í gildi hér á landi frá 1912–1922, og var sölubann full 7 ár af þeim tíma. Bannið var síðan afnumið á þinginu 1922 með Spánarundanþágunni, sem staðfest var af þinginu á eftir, 1923, með l. nr. 3 frá 4. apríl.

Það er alkunnugt, að lengi hefir verið mjög mikil óánægja meðal þjóðarinnar út af áfengislöggjöfinni, sem m. a. hefir og komið fram í því, að á tveim síðustu þingum hafa verið borin fram frv. um nýja áfengislöggjöf. Á síðasta þingi báru 11 þm. í Nd. fram slíkt frv., og var það að mestu óbreytt frv. Það, sem borið hafði verið fram um málið á þinginu 1932, en enda þótt hetta frv. væri vafalaust allvel undirbúið, sætti það þó mikilli mótspyrnu í d. Aðalbreyt. á áfengislöggjöfinni, sem í þessu frv. fólst, er sú sama og farið er fram á með þessu frv., að hætt verði að greina milli, hverjar tegundir af áfengi megi flytja inn í landið. Og það var einmitt þessi aðalbreyting, sem mestri mótstöðu sætti í Nd. Þótt nú í meira en 11 ár hafi staðið opnar vínsölubúðir í öllum kaupstöðum landsins, lítur samt út fyrir, að fjöldi manna í landinu telji sér trú um, að hér sé aðflutningsbann á áfengi, og megi því ekki heyra það nefnt, að „bannlögin“ séu afnumin. Þrátt fyrir þennan ágreining fellst nálega allur þingheimur þó að lokum í faðma um þá lausn í áfengismálinu, að láta þjóðina skera úr sjálfa með þjóðaratkvæði. Þáltill. þessa efnis var borin fram af 5 þm. í Sþ., og var 1. flm. till. þáv. 1. þm. Skagf. Till, var á þessa leið, eins og hún endanlega var samþ.:

„Alþingi ályktar að fela ríkisstj. að láta fara fram þjóðaratkvæði á þessu ári meðal kjósenda í málefnum sveitar- og bæjarfélaga um það, hvort afnema skuli bann það gegn innflutningi áfengra drykkja, sem felst í gildandi áfengislöggjöf“.

Þjóðin er þannig spurð að því, hvort afnema skuli innflutningsbannið að fullu og öllu og hætta að greina á milli, hverjar áfengistegundir megi flytja inn í landið. Og þessu einu hefir þjóðin svarað með atkvgr. fyrsta vetrardag síðastl. Þjóðin hefir ekki gefið svar við því, hvort hún að öðru leyti sætti sig við gildandi áfengislöggjöf. Það er verkefni fyrir Alþingi að leysa úr því máli, hvort gera eigi að öðru leyti breyt. á áfengislöggjöfinni.

Svar þjóðarinnar í áfengismálunum er nú kunnugt að fullu og öllu. Það var á þá leið sem í grg. segir, að 15.884 atkv. voru greidd með afnámi, en 11.624 á móti, og er þannig 4.260 atkv. meiri hl. með afnáminu. Get ég ekki betur séð en að svar þjóðarinnar sé skýrt og ótvírætt. Verður það ekki dregið í efa, að sterkur meiri hl. meðal þjóðarinnar er því fylgjandi, að hætt verði að greina á milli, hverjar áfengistegundir megi flytja inn í landið. Því hefir verið hreyft, að lítill hluti þjóðarinnar hafi tekið þátt í atkvgr., og það er satt, að sumstaðar var atkvgr. illa sótt, en þó nægilega mikil þátttaka í atkvæðagreiðslunni til þess, að hægt sé að ganga út frá því, að þeir séu í meiri hl. meðal þjóðarinnar, sem fylgjandi eru afnámi.

Því hefir einnig verið hreyft, að þeir, sem sátu heima við atkvgr., hafi með því sýnt, að þeir vildu una við ríkjandi ástand. Ef einhverjum getum á að leiða að þessu, er þó þvert á móti líklegra, að þeir, sem halda vilja í ríkjandi ástand, hafi sótt atkvgr. betur, því að þess er að gæta í þessu sambandi, að skipulagður félagsskapur beitti sér á móti afnáminu, en engum slíkum félagsskap var til að dreifa, sem beitti sér fyrir afnámi, a. m. k. ekki utan Rvíkur. Atkvgr. sjálf styður líka að þessu. Yfirleitt má segja, að þar, sem atkvgr. var bezt sótt, hafi þeir einmitt verið í miklum meiri hl., sem afnema vilja bannið. Er aðeins ein undantekning frá þessu, að ég held, Vestur-Ísafjarðarsýsla. Allir, sem orðnir voru 21 árs, höfðu rétt til að greiða atkv., og meiri hl. þeirra, sem atkvæðisréttinn hafa notað, hafa greitt atkv. með því, að innflutningsbannið væri afnumið. Það er þungamiðjan í málinu, og verður því fyrir að athuga, hverjar afleiðingar þessi úrslit atkvgr. hljóta að hafa. Til þess að gera sér grein fyrir því, er nauðsynlegt að gera sér fyrst ljóst, hver tilgangurinn var með því að leggja málið undir þjóðaratkvæði. Það kemur ekki til mála, að það hafi vakað fyrir Alþingi með því að láta fara fram þjóðaratkvgr. að svala forvitni þm. um það, hvernig þjóðin líti á áfengislöggjöfina eins og hún er. Þjóðaratkvæðagr. hefir svo mikinn kostnað, erfiðleika og fyrirhöfn í för með sér, að hún er ekki látin fara fram til þess eins að skemmta alþm. Þegar Alþingi samþ. slíkt, verður ekki lagður í það nema einn skilningur, að málið sé svo vaxið, að eðlilegra se, að þjóðin taki sjálf ákvörðun í því heldur en hinir kjörnu fulltrúar hennar hér á Alþingi. Og þegar þm. greiðir atkv. með því að leggja eitthvert mál í dóm þjóðarinnar með almennri atkvgr., gerir hann það af því, að hann álítur það skynsamlegustu lausnina á málinu, að meiri hl. þjóðarinnar ráði fram úr því, þótt einhver þm. geti haft þá sannfæringu, að bezt sé að banna með öllu innflutning áfengis í landið, og þótt hann hafi álitið, að betra væri að halda í leifarnar af hinu upprunalega banni en afnema þær algerlega, sé ég ekki, að það sé nein rökvilla, þótt hann líti svo á, að þetta sé þó því aðeins til gagns, að meiri hl. þjóðarinnar sé því fylgjandi. Þetta er rétt hugsun að mínu áliti, að þm. beygi sig fyrir þjóðarviljanum í þessu máli, en láti sínar eigin skoðanir víkja, ef þær geta ekki samrýmzt. Að þetta hafi og verið tilgangurinn, kom greinilega fram í umr. um þáltill. um að láta fara fram atkvgr. um málið, einmitt hjá þm., sem eru á móti afnáminu. Hv. þm. Borgf., sem var í harðastri andstöðu við afnám innflutningsbannsins, vítti þá þm., sem borið höfðu fram frv. um fullkomið afnám, fyrir það, að þeir hefðu gengið í berhögg við rétt þjóðarinnar. Og hver var þessi réttur þjóðarinnar, sem hv. þm. Borgf. vildi ekki láta ganga í berhögg við? Það var sá réttur, að þjóðin fengi sjálf að segja til um, hvort hún vildi afnema leifarnar af áfengisbanninu eða halda í þær áfram. Hv. 5. landsk. sagðist einnig vera ein í hópi þeirra, sem vildu, að þjóðin skæri sjálf úr um þetta mál. Skil ég ekki, hvernig þessi hv. þm. fer að greiða atkv. á móti þessu frv. eftir slík ummæli. Þótt hv. þm. kunni persónulega að álíta heppilegast að halda í ástandið, sem er, hefir hún tekið svo skýra afstöðu í málinu, að eigin skoðanir verða að víkja. Hv. þm. Seyðf. hélt því einnig fram, að nauðsynlegt væri að fá þjóðarúrskurð í málinu, sem allir beygðu sig fyrir. Ekki einn af þeim þm., sem til máls tóku um till., hreyfði þeim möguleika, að þjóðaratkvæðið yrði að vettugi virt. Hinir, sem ekki tóku til máls um till., gátu hinsvegar sýnt vilja sinn um þetta með því að greiða atkv. á móti till., en aðeins 2 þm. af þeim 42, sem sæti eiga hér á Alþingi, greiddu atkv. á móti því, að málið yrði lagt í dóm þjóðarinnar með allsherjaratkvgr. — Afstaða Alþingis í þessu máli er því eins skýr og hún frekast gat verið. Hefir eindreginn meiri hl. Alþingis gefið þá yfirlýsingu í málinu, ýmist beinlínis í ræðu eða óbeint með atkv. sínu, að þjóðin verði sjálf látin ráða úrslitum þessa máls milliliðalaust, nema hvað þingið auðvitað leggur síðustu hönd á verkið formlega séð.

Við flm. þessa frv. höfum gætt þess grandvarlega að hnitmiða efni frv. við það eitt, sem þjóðin var spurð um og hefir gefið svar við. Þjóðin var eingöngu spurð um það, eins og ég tók fram áður , hvort hún vildi halda í ástandið, sem er, eða ekki, og þær breyt., sem þessu frv. er ætlað að gera á núgildandi áfengislöggjöf, eru þær einar að afnema innflutningsbannið og að hætt sé að greina á milli, hverjar áfengistegundir megi flytja inn í landið. Það er því engin hending, að við höfum miðað frv. við þetta eitt.

Ýmsir hafa undrazt, að við flm. frv. skyldum ekki taka upp í það ákvæði, er heimiluðu, að áfengt öl yrði bruggað innanlands. Nú orkar það vafalaust ekki tvímæis, að skynsamlegra væri að gera ölbruggunina að innlendum iðnaði en að hefja innflutning á því, enda vel hugsanlegt, að öl yrði bruggað til útflutnings með góðum hagnaði. En um þetta atriði var þjóðin ekki spurð og hefir því heldur ekkert svar gefið um það. Þess vegna létum við það að svo stöddu liggja milli hluta. Við vildum ekki gefa þm. tækifæri til að hvarfla frá fyrri afstöðu með því að blanda öðru inn í málið, en aðeins gefa Alþingi tækifæri til að standa við gefin loforð um, að þjóðin fái sjálf að ráða fram úr þessu máli milliliðalaust. Ég endurtek það, að ég skil ekki, hvernig þeir þm. ætla að verja atkv. sitt nú, sem greiða atkv. á móti þessu frv., en áður vildu vísa málinu í dóm þjóðarinnar með allsherjaratkvgr.

Ég hefi nú leitt rök að því, að óhjákvæmileg afleiðing þess, sem gerðist í Sþ. í fyrra hvað mál þetta snertir, hljóti að vera sú, að áfengislöggjöfinni verði breytt í það horf, sem þjóðin ætlast til með atkvgr. sinni. Þetta verða að teljast nægileg rök fyrir frv. okkar. Ég ætla því ekki að fara að rekja hin almennu rök fyrir afnámi bannlaganna. Þau eru svo margendurtekin, að þau þekkja jafnt andbanningar sem bannmenn. Eins og kunnugt er, snúast þau allmjög um hina siðferðislegu hlið bannlaga almennt, og er það svo, að þar sannfæra hvorugir aðra. En því mega þeir menn ekki gleyma, sem hafa trú á áfengisbanni sem siðferðislegri lyftistöng fyrir þjóðina, að hér hefir ekkert aðflutningsbann verið á áfengi síðan 1922. Það hefir verið leyft að flytja inn áfenga drykki og verzla með þá, — drykki, sem hægt hefir verið að drekka sig ölvaða af, engu síður en hinum sterkari drykkjum. Þeir kunna nú einhverjir að vera til, sem telja mesta hættuna af brennivíni. Þeir góðu menn mega ekki gleyma því, að í flestum héruðum landsins er hægt að fá heimabruggað brennivín eftir þörfum, og líka er það alkunnugt, að hægt er að fái smyglaða drykki bæði í stórum og smáum stíl.

Það eru engar líkur fyrir því, að þessi breyt., sem hér er lagt til, að gerð verði á áfengislögunum, hafi áhrif á vínnautn þjóðarinnar, a. m. k. ekki til þess að auka hana. Hinu mætti frekar færa rök fyrir, að hún yrði til þess að minnka hana. Þeir, sem áfengis vilja neyta, eiga nú nægan kost þess, bæði löglegs og ólöglegs. En óeðlilegar hömlur eggja til mótspyrnu og öfga, og forboðna eplið verður jafnan eftirsóknarvert. Það er því engan veginn óhugsanlegt, að einhverjir þeir menn, sem nú sækjast eftir að hafa ólöglega innflutt vín um hönd, létu sér fátt um finnast, þegar enginn hörgull væri lengur á því. Þá mætti og gera ráð fyrir, að heilbrigð bindindisstarfsemi myndi aukast og smygl hverfa að miklu leyti. Menn myndu fyrirverða sig fyrir að láta sjá sig með ólöglegt áfengi, þegar hægt væri að fá það á löglegan hátt, alveg eins og menn nú fyrirverða sig fyrir að láta sjá sig með smyglað tóbak.

Þá er og sennilegt, verði breyt. þessi gerð, að brugg minnkaði töluvert. Ég treysti mér alls ekki til þess að halda því fram, að heimabruggið íslenzka myndi með öllu hverfa úr sögunni, þó aðflutningsbannið yrði að fullu afnumið. Til þess er það orðið of útbreitt. Ég geri frekar ráð fyrir, að það verði hér eftir að einhverju leyti landlægt, eða a. m. k. að það taki langan tíma að uppræta það. En að því ber að vinna, og ég tel, að hið opinbera verði að gera allt, sem hægt er, til þess að vinna á móti því þjóðarböli, sem heimabruggið er, því að það er hættulegast af öllu til þess að auka vínnautn í landinu.

Áður en ég lýk máli mínu vil ég drepa í tvær ástæður, sem ég tel auk þjóðaratkvæðisins vera fyrir því, að nauðsyn beri til þess að gera þessa breyt. á áfengislögunum nú þegar á þessu þingi. Önnur ástæðan er hin fjárhagslega hlið málsins, sem snýr að ríkissjóði. Nái breytingin fram að ganga, mun hún verða drjúg tekjulind fyrir ríkissjóðinn. Ég býst nú við, að sú mótbára verði færð fram gegn þessu, að sala Spánarvína myndi minnka. Það má vel vera, að sala Spánarvínanna minnkaði, en þá ber þess að gæta, að af hinum sterkari drykkjum er hærri tollur, sem myndi meira en vega á móti því, sem hagnaður ríkissjóðs af Spánarvínunum rýrnaði. Auk þess myndi mikið af þeim vínum, sem inn eru flutt ólöglega nú, falla í hinn löglega farveg og gefa miklar tekjur í ríkissjóðinn, sem sízt væri vanþörf á, eins og öllum hv. þm. mun ljóst.

Hin ástæðan er lagavarzlan. Það er alkunna, hve erfitt hefir verið frá öndverðu að gæta bannlaganna. Það hafa verið gerðar ýmsar tilraunir til þess að koma í veg fyrir bannlagabrot, en allar mislukkazt. En svo erfið sem varzlan hefir verið hingað til, því mun hún þó verða miklum mun erfiðari hér eftir, ef lögin eiga að standa óbreytt eftir að meiri hl. þjóðarinnar hefir óskað, að aðflutningsbannið væri upphafið.

Ég skal svo að endingu drepa lítilsháttar á form frv. Ég get hugsað mér, að einhverjir kunni að setja það út á frv., að það komi illa heim við 1. gr. áfengislaganna, sem mælir svo fyrir, að engan áfengan drykk megi flytja til landsins. Það má með miklum rétti segja, að ákvæði þetta verði lokleysa, þegar önnur ákvæði koma, sem heimila að flytja alla áfenga drykki til landsins. Með velvilja má þá skýra 1. gr. áfengislaganna á þann hátt, að hún leggi aðeins bann við, að einstaklingar flytji inn áfenga drykki. það sé aðeins ríkið sjálft, er rá heimild hafi. En hverjum augum sem menn líta á það, þá er þar ekki um verulega breyt. að ræða frá því, sem nú er. 45. gr. áfengislaganna gerir að litlu ákvæði 1. gr. Að vísu heimilar hún ekki innflutning allra tegunda áfengra drykkja, en þó alls þorra þeirra, þ. e. allra, sem innihalda minna en 21% af vínanda. Auk þess er ætlazt til þess, að hér sé aðeins um bráðabirgðafyrirkomulag að ræða. Annars höfum við flm. ákveðið að koma fram með þáltill. um að skora á stj. að undirbúa fyrir næsta þing meiri breytingar á áfengislöggjöfinni. Það munu nú vafalaust margir þeirrar skoðunar, að áfengislöggjöfin sé svo stórgölluð, að beinlínis sé þörf á nýrri löggjöf. Ég get að sjálfsögðu tekið undir það, að löggjöf þessi sé stórgölluð, en ég fæ ekki séð, að þessi breyt. spilli henni á nokkurn hatt, heldur verði hún frekar til þess að draga úr sumum stærstu ágöllum hennar, smygli og bruggi. Það er því engin ástæða fyrir þá, sem eru á móti áfengislöggjöfinni, að beita sér á móti frv. — Að endingu óska ég frv. vísað til allshn.umr. lokinni.