18.11.1933
Efri deild: 13. fundur, 47. löggjafarþing.
Sjá dálk 182 í C-deild Alþingistíðinda. (1353)

38. mál, undanþága frá áfengislöggjöfinni

lngvar Pálmason [óyfirl.]:

Hv. fyrri flm. hefir nú gert nokkra grein fyrir þessu fóstri þeirra hv. 3. þm. Reykv. og hv. 2. þm. Rang., og mætti því ætla, að afkvæmið væri sæmilega í heiminn borið, þar sem að því standa bæði lögfræðingur og prestur.

Ég ætla ekki að fara út í einstök atriði þessa máls nú, en víkja að því atriði, sem hv. flm. dvaldi lengst við, sem sé þjóðaratkvgr., sem fram fór 21. okt. síðastl., og úr því að hann gaf tækifærið, þá er bezt að minnast dálítið á þær ályktanir, sem af henni má draga. Annars var hv. flm. svo brátt, að hann gat ekki beðið eftir því, að búið væri að vinna úr þeim gögnum, sem hún annars leggur manni upp í hendur. Það er víst, að töluvert má af atkvgr. þessari læra, enda var alltaf til þess á ætlazt. Að sjálfsögðu er það rétt, að við atkvgr. þessa fékkst örlítill meiri hl. með því að afnema þann það, sem nú gildir um innflutning áfengra drykkja. Það skal játað, að þar sem það liggur beint fyrir, að meiri hl. kjósenda í einhverju máli óskar einhvers, þá á hann að ráða. En við þessa þjóðaratkvgr. er margt að athuga. Fyrst og fremst það, að atkvæðamunurinn var mjög lítill, töluvert minni en sá meiri hl., sem fékkst 1908, þegar mál þetta var borið undir þjóðina; þó var það svo, að skoðanabræður hv. flm. frv. þessa töldu mismuninn svo óverulegan þá, að þeir vildu láta þjóðina greiða atkv. aftur, og það jafnvel helzt þrisvar sinnum. Að svo mæltu vil ég drepa á örfá atriði, sem atkvgr. 21. okt. síðastl. bendir ótvírætt á. Það er þá fyrst, að það er sýnilegt, að þar, sem gæzla bannlaganna hefir lukkazt sæmilega, vill fólkið ekki afnema bannið. En þar, sem miður hefir tekizt gæzla þeirra, verður það ofan á að meiri hl. vill losna við það. Þetta gefur ástæðu til að halda, að það séu ekki ákvæði bannlaganna, sem fólkið er á móti, heldur mistökin á framkvæmd þeirra. Þá vil ég benda á, að brot á bannlögunum hafa verið tíðust hér í Rvík og nágrenni Rvíkur, og í því sambandi jafnframt, að einmitt í Rvík er langmestur meiri hl., sem vill afnám bannsins, og svo út frá Rvík. En þegar dregur lengra út frá Rvík, þangað, sem lögin hafa verið meira í heiðri höfð og gæzla þeirra tekizt betur, vill fólkið ekki missa þau. Þetta sýnir atkvgr. 21. okt. meðal annars. Þá vil ég og benda a, að ennþá liggja ekki fyrir nægilega skýr gögn um það, hvernig þátttakan hefir verið í þessari atkvgr. Það verður ekki séð ennþá, hversu margar konur og hversu margir karlar haf. t. d. greitt atkv. Þetta er dálítið bagalegt, því að það er nefnilega staðreynd, að konur, úti á landi a. m. k., vilja ekki að neinu leyti gefa tilefni til þess, að drykkjuskapur aukist í landinu. Verði því sú raunin á, að atkvgr. sýni, að þátttakan í henni hafi verið lítil meðal kvenfólksins úti á landsbyggðinni, þá er hún alls ekki sú rétta spegilmynd af vilja þjóðarinnar. Út frá þessu vil ég segja, að ég tel það ekki eins mikla goðgá eins og hv. flm. vildi vera láta, þó að aukaþing þetta hlaupi ekki til þess að opna allar gáttir fyrir víninu, á þess að setja nokkrar skorður við, því að ég tel það engar skorður, þó að lofað sé að hlutast til um, að frv. verði lagt fyrir næsta þing um þetta efni.

Þá vil ég benda á eitt enn, sem atkvgr. sýnir, og það er, að í 14 kjördæmum á það að heita svo, að fengizt hafi meiri hl. með afnámi bannlaganna. Ég segi bannlaganna, þó að ég líti svo á, að um bannlög sé hér engin að ræða. Í 13 kjördæmum hefir aftur meiri hl. orðið á móti því. Þegar þetta er því borið saman og þátttakan í kjördæmunum, þá á ég von á því, að dálítið veikist sú fullyrðing, að þetta sé hreinn þjóðarvilji. Það er því víst, að hvernig sem á þetta er litið, þá er ekki nema að nokkru leyti hægt að halda því fram, að með atkvgr. 21. okt. síðastl. hafi fengizt hinn sanni þjóðarvilji í þessu máli.

Ég ætla nú að vera svo frjálslyndur að afsaka hv. flm., þó að þeir hafi þá trú, að öll höft beri að afnema og að lítilfjörlegur meiri hl. eigi jafnan að ráða í hvaða máli sem er. En þess vil ég þá biðja þá, að líta eitthvað til andstæðinganna, sem í þessu tilfelli eru þó 42% af öllum, sem atkv. greiddu fyrsta vetrardag síðastl. Annars held ég, að það hefði farið betur á því, að sá maðurinn, sem á að sjá um uppeldi prestastéttarinnar á Íslandi, sá þar fræum guðsótta og góðra siða, hefði farið dálítið öðruvísi að, ekki sýnt það bráðlæti, sem hann hefir sýnt í þessu máli, þar sem hann virðist ekki hafa haft neitt annað fyrir augum en aðeins það, að fá hin sterku vín inn í landið, alveg á tillits til þess, hverjar afleiðingar það getur haft fyrir þjóðina í heild sinni. Það hefði horft óneitanlega öðruvísi við, hefði hann tekið það ráð að leggja um leið fram frv. um viturlega meðferð áfengisins. Hv. flm. eru báðir menn vitrir, og hefðu án efa getað lagt margt gott til þess máls.

Hvað snertir það atriði, að við þm. séum skyldugir að haga atkv. okkar eftir þeim þjóðarvilja, sem fram kom 21. okt. síðastl., þá mótmæli ég því. Fyrst og fremst af því, að ég tel alls ekki, að við þá atkvgr. hafi komið fram skýr og ótvíræður þjóðarvilji, og í öðru lagi sökum þess, að það er skylda hvers þm. að láta sannfæringu sína ráða atkvæðinu, og ekkert annað. Hitt er rétt, að komi sannfæring þingmannsins í bága við vilja kjósendanna, þá er hans að taka afleiðingum þess við þá. Það er því alveg fjarstæða ein að ætla að binda atkv. mitt eða annara þm. með þál., sem samþ. var í Sþ. í fyrravor.

Hv. flm. sögðust hafa bakhjarl í sínum kjósendum í þessu máli. Það má vel vera rétt. En ég hefi líka bakhjarl í mínum kjósendum í því, en það bakhjarl verkar bara öfugt. Á ég, ef meiri hl. kjósenda vill ekki bindindi, að greiða atkv. eins og meiri hl. vill? Má ég ekki á Alþingi greiða atkv. eftir sannfæringu minni, greiða atkv. með bindindi? Jú, það er enginn vafi á því. (PM: auðvitað, ef sannfæringin hefir breytzt). Ég neita því algerlega, að ég hafi í sambandi við þál. á síðasta þingi bundið mitt atkv. með þessu frv., þar sem ég þá ekki einu sinni greiddi þál. atkv. Svigurmæli hv. 2. þm. Rang. um, að ég hafi skipt skoðun, eru því með öllu ástæðulaus. En þó svo hefði verið, að ég hefði greitt atkv. með þál. á síðasta þingi, þá væri það nokkuð langt gengið að halda því fram, að þar með ætti mitt atkv. að falla til fylgis þessu frv. Það er nú svo, að frv. það, sem hér liggur fyrir, er annar flötur á málinu en sá, sem vissi að þjóðinni, er hún var látin greiða atkv. fyrsta vetrardag. Þjóðin var þá aðeins spurð að því, hvort hún vildi heimila innflutning á sterkum drykkjum, og hún svaraði spurningunni eins og kunnugt er, en það er stórt vafamál, hverju þjóðin mundi svara nú, ef hún væri spurð um þetta frv., spurð um það, hvort hún vilji afnema bannlögin að óbreyttri áfengislöggjöf. Það er m. ö. o., eins og spurningin var borin upp fyrir þjóðinni, hefir þjóðin ekki gefið nema hálft svar í þessu máli. Það vita allir, að það er ekki sama, eftir hvaða lagafyrirmælum áfengi er flutt inn í landið og selt. Hv. flm. hefir sjálfur kannazt við það, að frv. hans falli ekki vel við gildandi áfengislöggjöf. En þá vil ég spyrja hann, hvers vegna hann vill ekki, jafnframt því, sem hann leggur til að leyfa innflutning sterkra vína, láta setja viturlega löggjöf um sölu og veitingu þessara vína. Hv. flm. veit, hann hlýtur að vita, að sú afgreiðsla, sem hann vill hafa nú á þessu máli, hún er áreiðanlega ekki í samræmi við þjóðaratkvæðið. Ég vildi í þessu sambandi aðeins benda á það, á þess ég ætli mér að fara að rekja sögu bannmálsins, hvernig afstaða skoðana bræðra hv. flm. hefir verið frá því fyrsta gagnvart bannlögunum. Hún hefir í fám orðum verið sú, að þeir hafa alltaf frá því fyrsta fetað sig áfram stig af stigi í þá átt að gera bannlögin sem áhrifaminnst og sem óhæfust til þess að ná þeim tilgangi, sem þeim var ætlað í fyrstu að ná. Þannig hefir þetta verið frá því fyrsta, er lögin voru sett 1909, og allt fram á þennan dag. Skrefin, sem þeim hefir tekizt að stíga í þessu máli, hafa verið misjafnlega löng, sum hafa verið stutt, önnur aftur lengri, eins og þegar Spánarvínaundanþágan kom þeim upp í hendurnar, og svo nú þetta síðasta og stærsta skref, er þeir vilja stíga, með algerðu afnámi laganna. Ég vil þó þrátt fyrir alla þeirra baráttu gegn bannlögunum mega vona það, að þetta skref þýði ekki það, að þeir vilji láta áfengislögin, sem þeir viðurkenna, að séu mjög ófullkomin, sýna enn betur vanmátt sinn, en þeir verða þó að gá að því, að slíkt yrði óhjákvæmilega afleiðing þessa frv., ef það verður að lögum, því ef leyfðir verða sterkir drykkir inn í landið að óbreyttri áfengislöggjöf, þá er enginn vafi á því, að ástandið hér mundi stórversna. Mér skildist það á hv. flm., að hann teldi gildandi áfengislöggjöf svo gallaða, að hún gæti ekki óbreytt staðið til langframa. Aftur á móti var að heyra á honum, að þetta frv. mundi fremur bæta úr göllum laganna. Frá mínu sjónarmiði er það óskiljanlegt, hvernig hægt er að lækna einn sjúkling með því að láta hann fá verri sjúkdóm til viðbótar við þann, sem hann hefir fyrir. Hv. flm. vildi halda því fram, að engar líkur séu til, að samþykkt þessa frv. leiði af sér aukinn drykkjuskap. Ég er nú á öfugri skoðun. Þetta eru auðvitað spádómar hjá okkur báðum. Ég er nú dálítið eldri maður heldur en hv. flm. Þar að auki hefi ég nú í 43 ár unnið að bindindismálum og látið mig þau nokkru skipta. Ég held því, að ég hafi ekki minni reynslu en hann, og mín reynsla hnígur öll í þá átt, að álykta má, að drykkjuskapurinn aukist stórlega, ef sterku drykkirnir verða leyfðir inn í landið, og það merkilega er, að hv. flm. hefir einmitt sjálfur kannazt óbeinlínis við þetta, því ein af röksemdum hans með frv. var sú, að frv. mundi orsaka auknar tekjur í ríkissjóð. En það hlýtur að verða fyrir meiri innflutning vína og þar af leiðandi meiri drykkjuskap. (PM: Hv. þm. hefir ekki tekið eftir ræðu minni). Jú, ég tók vel eftir því, að hann sagði, að meira mundi verða flutt inn en áður á leyfilegan hátt; en það verða menn þó að taka með í reikninginn, að hvötin til þess að smygla inn víni og brugga vín er engu minni en áður. Sú hvöt er og hefir alltaf verið fjárhagslegs eðlis; hún á ekki rót sína að rekja til löngunarinnar í vínið, eins og hv. flm. heldur, að sé. Ég veit, að hv. flm. sjálfur er ekki lögbrjótur á þessu sviði, enda skilur hann ekki þær hvatir, sem standa að baki slíkum lögbrotum, en hann má trúa því, að það er eingöngu gróðavonin, en ekki löngunin í vínið, sem veldur því, að menn fara að brugga eða smygla inn vinum. Hv. flm. viðurkennir það líka, að hvorttveggja, brugg og smygl, muni vera gróðafyrirtæki. Þess vegna er það alveg áreiðanlegt, að bruggið vex við innflutning sterkra vina. Þegar allt flýtur í sterkum vínum, verður eftirlitið með bruggi og smyglun alveg ómögulegt.

Þá kom hv. flm. með aðra ástæðu fyrir því, að drykkjuskapur mundi ekki aukast þrátt fyrir afnám bannsins, sem sé þá, að bindindisstarfsemin í landinu mundi jafnframt aukast. Ég veit ekki, hvort heldur ég á að gleðjast eða hryggjast yfir þessari yfirlýsingu. Ef hún á að þýða það, að hv. flm. ætli sér, þegar bannlögin eru afnumin, að ganga í lið með bindindismönnum og berjast við þeirra hlið fyrir auknu bindindi, þá er ástæða til að gleðjast yfir slíku loforði um liðveizlu, en ef orð hans eru aðeins ávísun á okkur bindindismenn, þá er sú ávísun aðeins orð; ef hún þýðir það, að hv. flm. vilji hér með gefa okkur leyfi til að vinna að bindindismálum með meira krafti en áður, þá er þetta aðeins fagurgali, sem hv. flm. ætlar enga ábyrgð að bera á. Nei, ef hann gefur ávísun í þessu máli, þá skal hann gefa hana á sjálfan sig, en ekki á aðra. Til þess hefir hann enga heimild. Það fer nú svo í þessu máli, þó hv. flm. sé skýr maður, þá skýzt honum með rökin, af því málstaðurinn er ekki góður.

Þá sagði hv. flm., að ein ástæðan, sem mælti með því að samþ. frv., væri sú, að gæzla áfengislaganna mundi verða miklu erfiðari hér eftir en hingað til. Ég verð nú að játa það, þó að hv. flm. sé skýr maður, þá skil ég nú ekki, að það geti verið ástæða fyrir afnámi bannsins, að eftirlitið verði fyrir það erfiðara. (PM: Hv. þm. hefir misskilið mig. Ég sagði, að gæzla áfengislaganna yrði erfiðari hér eftir en verið hefir, ef aðflutningsbannið yrði nú ekki afnumið). Hv. flm. segir, að gæzlan verði erfiðari hér eftir en verið hefir, ef bannið verður ekki afnumið. Mér flýgur í hug, hvort hér liggi það á bak við, að minnka eigi eftirlitið, ef bannið verður ekki afnumið. Ef það er svo, þá er þetta rökfræðilega hárrétt, að eftirlitið verði erfiðara. Þess vegna er ég á móti því, að sterkir drykkir verði fluttir inn í landið, að ég veit, að eftirlitið verður erfiðara, og þess vegna tel ég nauðsynlegt, að samtímis því, að stigið væri þetta stóra spor, ætti þó a. m. k. að semja viturlega áfengislöggjöf.

Ég skal taka það fram, að þó ég sé algerlega mótfallinn þessu frv., þá er það ekki ætlun mín að beita hér neinu málþófi. Ég játa það, að ég hefði gjarnan óskað að vera sá skörungur að geta talað fyrir mínum málstað eins og hann á skilið, en um það er nú ekki að ræða, og verður hver að koma til dyranna eins og hann er klæddur. Ég hefi reynt af veikum mætti að færa fram þau rök, sem mér finnst mæla á móti því, að veitt sé leyfi til þess að flytja inn sterka drykki án þess um leið að hrófla nokkuð við hinni ófullkomnu löggjöf, sem gildir um veitingu og neyzlu vína. Ég mun því greiða atkv. á móti frv. eins og það liggur fyrir, og þykist ekki með því vera í neinu ósamræmi við þál. frá síðasta þingi um atkvæðagreiðsluna, þó svo hefði verið, að ég hefði greitt henni atkvæði, sem ekki var. Ef mál þetta heldur áfram hér í deildinni, þá mun ég við 2. umr. gera tilraun til að beina því inn á heillavænlegri braut en það er nú á. Ég læt það bíða til 2. umr., því ég vil vona, að það séu fleiri hv. þm. sama sinnis og ég, að þeir vilji gjarnan koma þessu máli frá við þessa umr., og vitanlega fara hv. þdm. hér eftir sinni sannfæringu.

Ég held, að það hefði verið drengilegra af hv. flm., sem báðir eru mætir menn, að þeir hefðu notað sína góðu aðstöðu í þjóðfélaginu til þess að koma góðu til leiðar. Þeir viðurkenna báðir, að áfengið sé böl, en ég vildi, að þeir hefðu borið gæfu til að beita sínum miklu kröftum til annara verka og betri en þeirra að rífa niður og leggja af velli síðustu leifarnar af því litla starfi, sem við bindindismenn höfum fengið áorkað síðasta mannsaldur, og hafa svo ráð eitt fram að bera til uppbótar á sínum óhappaverkum að gefa ávísun á þá menn, er þeir hafa unnið á móti.