20.11.1933
Efri deild: 14. fundur, 47. löggjafarþing.
Sjá dálk 211 í C-deild Alþingistíðinda. (1362)

38. mál, undanþága frá áfengislöggjöfinni

Ingvar Pálmason [óyfirl.]:

Ég á hér ekki kost á nema aths., en vænti þess, að hæstv. forseti leyfi mér að teygja ofurlítið úr henni, ef ég skyldi þurfa á að halda. Það eru býsna mörg atriði í seinustu ræðu hv. frsm., sem ég tel ástæðu til að taka til athugunar. Ég mun þó ekki komast yfir þau öll. Hann beindi orðum sínum sérstaklega til hv. 3. landsk., því að hv. 3. landsk. mun hafa látið einna skarpast í ljós, að þessi atkvgr. væri svo vafasöm, að tæplega væri hægt á henni að byggja, að þetta væri þjóðarvilji. Ég skal til áréttingar segja, að ég hefi alveg sömu skoðun og hv. 3. landsk., og ég byggi það á sömu forsendum og hv. 3. landsk., að þátttakan var svo lítil. Þetta vill hv. frsm. gera að engu, því að hann segir, að allir atkvæðisbærir menn hafi átt kost á að greiða atkv., en hann tekur það ekki með í reikninginn, að kosningin fór fram á þeim tíma árs, sem a. m. k. annar stærsti stjórnmálaflokkurinn hefir talið óheppilegasta tímann, sem hægt væri að fá til atkvgr. yfirleitt, og á stórum svæðum á landinu hamlaði óveður kjörfundarsókn þennan dag. (PM: Það hamlaði nú jafnt fyrir báða). Ef allir landsmenn hefðu átt svo hæga aðstöðu sem Reykvíkingar, þá skyldi ég viðurkenna, að hv. þm. hefði nokkuð til síns máls. En það má ekki ganga framhjá þeim örðugleikum, sem fólkið í landinu á við að stríða, og við verðum að aðgæta, út yfir hverja þessi aðstöðumunur gengur. Þetta gengur aðallega út yfir kvenþjóðina í landinu. Það er vitanlegt, að á mörgum sveitaheimilum er enginn kvenmaður nema húsmóðirin, og þar sem þetta er um mesta annatímann — í sláturtíðinni —, jafnvel meiri en um hásláttinn, þá sjá allir, hve hægt konum veitist að nota atkv.rétt sinn. En meðal kvenþjóðarinnar er það mikill meiri hl., sem vill halda í leifar bannlaganna, þrátt fyrir alla þeirra galla. Ég get vel búizt við, að menn segi, að þetta séu ekki rök; en ef það eru ekki rök, að miklum hluta kjósenda er fyrirmunað að neyta atkv.réttar síns, þá sér hver maður, að hinn sanni þjóðarvilji kemur ekki fram. Ef það er bara vegna áhugaleysis, hve sóknin hefir verið slæm, þá er miklu meiri ástæða til að álykta eins og hv. frsm. En þegar þetta er tekið með, þá mun ganga erfiðlega að sanna, sem það gengur og fyrir hv. þm., þótt glöggur sé, að allir, sem heima sátu, hafi annaðhvort verið menn, sem ekki höfðu áhuga eða voru með afnámi. En nú er ein röksemd enn, og hún er sú, að ef gengið er út frá því, að þeim, sem heima sátu, sem eru milli 50–60% af öllum kjósendum landsins, sé skipt í líkum hlutföllum og atkvgr. synir milli bannmanna og andbanninga, þá kemur það merkilega upp, að miklar líkur eru til, að þá hefðu bannmenn orðið í meiri hl. Ég býst við, að flm. þyki þetta dálítið undarlegt, en hygg samt. að ef hann athugar, hvernig kjördæmaatkvgr. hefir fallið, þá sjái hann, hve miklar líkur eru til, að niðurstaðan hefði orðið önnur. En þrátt fyrir það, að svona sé og að á þessa leið megi benda, þá hefir það ekki verið aðalröksemdin, þótt stór sé. Aðalröksemdin hjá mér er og verður sá, að það sé fyrst og fremst ástæðulaust að bera þessar lagabreyt. fram, á þess að taka tillit til þess mikla minni hl. í landinu, með því þá að bera fram um leið breytingar á áfengislöggjöfinni. Hv. frsm. sagðist ekki geta skilið, hvað meint væri með rétti minni hl. Mér þykir þetta hálfeinkennilegt, því a. m. k. er það svo, að minni hl. hefir einhvern rétt, nema það skyldi vera einhver áhrif frá útlendri stefnu, sem hér kemur fram, að meiri hl. einn eigi að ráða og minni hl. komi þar hvergi til greina. Þó á ég bágt með að trúa, að það sé meining flm. Ég held, að hann vilji bara ekki kannast við það fyrr en honum þykir tímabært, að taka eigi tillit til minni hl. Ég vil því skýra þetta nánar og benda á eitt atriði, sem ég geri að skilyrði fyrir því, að það sé líðandi, að sterkum drykkjum sé hleypt inn í landið, vegna minni hl., og það er, að héruðin fái ótvíræðan rétt til þess að ákveða, hvort útsölustaðir séu innan þeirra vébanda eða ekki, á tillits til þeirrar skipunar, sem verið hefir á þeim málum hingað til, og ég er viss um, að hv. flm. kannast við, að þetta sé sanngirniskrafa. Þetta atriði liggur svo ljóst, að þingið getur tekið tillit til minni hl. á þennan hátt, ef litið er á málið frá staðháttahliðinni. Það er mestur hluti landsins, sem ekkert vill með útsölustaði hafa að gera, svo sem allir Vestfirðir og stór hluti af Norður- og Austurlandi. (Forseti: Aths. fer að verða nokkuð löng). Ég skal taka það til greina. Ég get látið mörgu ósvarað, sem fram hefir komið, og ég kom þarna að einu atriði, sem ég legg mikla áherzlu á. Það er ekki það, sem fyrir mér vakir um að fá breytingu á áfengislöggjöfinni, að fá hækkaðar sektir eða þessháttar, en þar sem nú kemur nýtt viðhorf, vil ég, að hún sé sniðin eftir því. Flutningsmenn og stuðningsmenn málsins segja, að ef ekki verði veitt þessi undanþága, þá verði ástandið í landinu svo vont, að enginn hlýði áfengislögunum. Það getur vel verið, að þetta sé rétt um Reykjavík, en það er alrangt úti um land, og í raun og veru hafa öll þau ummæli, sem um þetta mál hafa fallið, verið miðuð við Reykjavík, og það er eðlilegt. Það er Reykjavík, sem ræður í þessu máli. Það er hún, sem leggur til meiri hl., og flutningsmennirnir eru Reykvíkingar og þekkja langbezt, hvernig þar er ástatt. Úti um land þekkja þeir minna til, og vilja enda lítið tillit taka til þess. Í sambandi við ummæli hv. flm. um, að hann skildi ekki, hvernig ætti að taka tillit til minni hl., á ég enn margt ósagt, en get fengið tækifæri til að segja það síðar, ef svo ólíklega færi, að frv. kæmi aftur til umr.