29.11.1933
Sameinað þing: 6. fundur, 47. löggjafarþing.
Sjá dálk 401 í D-deild Alþingistíðinda. (1390)

57. mál, varalögregla

Jónas Jónsson:

Ég vil bæta nokkrum orðum við þessar umr. viðvíkjandi tilorðningu laganna um lögreglumenn í fyrra. Ég sé á grg. þáltill., að kostnaður við varalögregluna er talinn um 400 þús. kr. Ég held, að óhætt sé að segja, að helmingur þess kostnaðar sé áfallinn síðan heimilt var að leysa upp varalögregluna. Ég óska, að hæstv. dómsmrh. og hæstv. fjmrh. svari því, hvers vegna þeir hafa ekki séð sér fært að leggja hana niður fyrr.

Alþingi í fyrra voru tvær andstæður, íhaldsmenn, sem vildu ótakmarkaðan liðssafnað og ótakmarkaðan kostnað, og sósíalistar, sem enga lögregluaukningu vildn. Framsóknarmenn voru mitt á milli og höfðu aðstöðu til að ráða miklu um úrslit málsins.

Stjórnin bar fram frv. um ótakmarkaðan hér. Þetta frv. kom fyrir nefnd í Ed., þar sem ég átti sæti ásamt hv. 2. þm. S.-M. og hv. 1. landsk. Hv. 1. landsk. vildi halda sér við frv. og jafnvel ganga enn lengra. Þá bárum við framsóknarmenn fram frv., þar sem bæði var takmarkaður mannafli og fé. Við gengum inn á það með íhaldinu, að nauðsynlegt væri að auka lögregluna eitthvað. Tvær stefnur voru þá að koma hér upp, sem báðar vildu steypa þjóðfélaginu með ofbeldi. Þetta réð afstöðu okkar, en við vildum þó ekki ganga lengra en svo, að verja þjóðfélagið gegn þessum vaxandi óaldarfaraldri. Varð svo að samkomulagi, það lögreglan skyldi aukin innan vissra takmarka. Meginhluti kostnaðarins legðist á bæina, þar sem væri sú tegund af fólki og stjórnarfari, að slíkrar lögregluaukningar þyrfti við, en ríkið styrkir bæjarlögregluna að litlu leyti og varalið, ef með þarf. En það var alls ekki gert ráð fyrir fastri varalögreglu, heldur ígripaliði, eins og núv. lögreglustjóri hefir aflað sér á gamlaárskvöld til að vernda fólk og klæði þess fyrir óknyttastrákum.

Ég vil enn spyrja hæstv. dómsmrh., hvort hann er enn sama sinnis og í vor, er allmargir samherjar mínir hétu stjórninni stuðningi til að kaupa vatnsbíl, sem er betri en tugir manna með barefli. Hæstv. ráðh. neitaði og taldi bílinn of dýran. Hann kostar um 40 þús. kr. Þetta er eitt hið áhrifamesta lögreglutæki, bleytir í fólki og kælir í því blóðið, getur lagt menn flata með vatnsaflinu á 30 m. færi, en orsakar engin meiðsl. Þessháttar bíll myndi fyllilega hafa dugað 9. nóv. í fyrra, án þess að nokkur meiðsl eða blóðsúthellingar hefðu orðið. Hefði stj. fengið sér þvílíkt tæki, hefði hún aflað sér meiri samúðar en með því að hafa á launum tugi manna, sem ekki geta annað en barizt með kylfjum við þá, sem óspektum valda.

þegar lögin um lögreglumenn voru staðfest, hefði dómsmrh. getað lagt varalögregluna niður þegar í stað. En þetta var ekki gert. Ég vil nú spyrja hæstv. fjmrh., hvers vegna hann hafi ekki neitað að greiða fé til þessarar varalögreglu, sem engin þörf var á, nema þá til þess að létta Rvík lögreglukostnaðinn. Vera má, að hæstv. fjmrh. hafi sína skýringu á þessu.