29.11.1933
Sameinað þing: 6. fundur, 47. löggjafarþing.
Sjá dálk 410 í D-deild Alþingistíðinda. (1397)

57. mál, varalögregla

Jónas Jónsson:

Hæstv. fjmrh. hefir ekki enn gefið neinar skýringar á því, hvers vegna hann hefir séð sér fært að verja svo miklu fé úr ríkissjóði til þess að halda uppi svo dýrum ríkislögregluher hér í bænum í sumar, og vænti ég, að hann láti af því verða. Hæstv. dómsmrh. hélt því hinsvegar fram, að það hefði verið ókleift fyrir sig að afnema ríkislögregluna, m. a. af því, að fulltrúar Framsfl. í bæjarstj. Rvíkur hefðu verið því mótfallnir. Ég ætla nú að leyfa mér að skýra þetta mál nokkuð, af því að hæstv. ráðh. mun vera því ókunnugur, hvernig afstaða okkar framsóknarmanna hefir verið í lögreglumálunum. Hermann Jónasson jögreglustjóri hefir verið aðalmaðurinn í bæjarstj. frá Framsfl. og haft þar með höndum aðalstörfin fyrir flokkinn, því að Páll E. Ólason skrifstofustj. sagði af sér bæjarstjórnarstörfum. Nú er það vitanlegt, að H. J. lögreglustj. hefir mótað þá löggjöf um lögreglumenn; sem afgr. var á síðasta þingi, þar sem ákveðið er, að bæjarfélögin, hvert fyrir sig, beri aðalkostnaðinn af lögreglunni, og að hinn fastákveðni lögregluflokkur í hverjum bæ skuli fyrst fullskipaður, en að stuðningur frá hálfu ríkisins komi aðeins til vara, þegar sérstaklega stendur á og friði og öryggi bæjarins er talin hætta búin. Þess vegna er það alveg óhugsandi, að lögreglustjórinn hafi verið því mótfallinn eða tafið fyrir því, að það skipulag á lögreglumálunum, sem hann hefir borið gæfu til að móta, kæmi fyrst til framkvæmda. Auk þess er mér kunnugt um það, að lögreglustjórinn hefir skrifað stj. hvað eftir annað og bent á, að það mætti draga mikið úr kostnaðinum við ríkislögregluna með því að fækka mönnunum í lögregluliðinu, en stj. sinnti því engu. Það er ennfremur vitað, að lögreglustjórinn hefir, sérstaklega í bæjarstj. Rvíkur, gert sitt ýtrasta til þess að skipun lögreglunnar í bænum yrði sem fyrst breytt í samræmi við hið nýja skipulag.

Hæstv. dómsmrh. mun sýnilega hafa fengið rangar upplýsingar frá flokksbræðrum sínum í bæjarstj. um þetta, þar sem öllu hefir verið snúið öfugt. Flokkur hæstv. ráðh. hefir meiri hl. í bæjarstj., eða 8 fulltrua á móti 7, og þeir beita jafnan einræði gegn minni hl. í hinum stærri deilumálum. Þetta sannar bezt, að sá dráttur, sem á því hefir orðið að breyta skipun lögreglunnar í bænum, er ekki sök minni hl. Drátturinn er eingöngu að kenna meiri hl. bæjarstj. og hæstv. ráðh. sjálfum, sem hefði getað sagt við sinn flokk í bæjarstj.: Nú leggjum við ríkislögregluna niður, og bæjarfélagið verður að taka við kostnaðinum af lögreglustörfunum í bænum samkv. hinum nyju lögum.

Ég sé því ekki betur en að hæstv. dómsmrh. hafi með undanlátssemi sinni við borgarstjórann í Rvík eytt 200 þús. kr. úr ríkissjóði algerlega að óþörfu, til viðhalds ríkislögreglunni í sumar og haust. Það hefði verið talin óforsvaranleg bruðlunarsemi hjá Framsfl. að verja slíkri upphæð úr ríkissjóði til þess að reisa sjúkrahús eða skóla. í fyrravetur var ríkislögreglan miklu fjölmennari en þörf var til. Ég held því, að Sjálfstfl. verði að gera skýra grein fyrir þessari ólöglegu fjáreyðslu úr ríkissjóði, því að hann ber einn aðalábyrgðina á þessum óþarfa kostnaði.

Þá vék hæstv. dómsmrh. að því, að engin ástæða væri til þess fyrir stj. að kaupa tæki til stuðnings lögreglunni í Rvík, þó að þau væru ef til vill heppileg; það ætti bærinn að sjá um. Lögreglustjórinn mun hafa stungið upp á því við stj. í fyrra, að keyptur væri vatnsbíll til þess að dreifa óeirðarflokkum á götum bæjarins, og hygg ég, að hæstv. forsrh. og fleiri hafi hreyft þessu við hæstv. dómsmrh., og skildist þeim, að hann mundi vera þessu hlynntur. Að vísu var ekki hægt að ætlast til þess af hæstv. fjmrh., að hann færi að bjóða fram fé til þess úr ríkissjóði. En hæstv. dómsmrh., sem á að hafa yfirumsjón með lögreglunni og hefir þá skyldu að búa í haginn fyrir hana, ef óspektir ber að höndum, hann hefði átt að sjá sóma sinn í því að útvega þetta tæki, sem ekki veldur neinum sársauka í óeirðum, en kemur þó að mestu liði. Og hæstv. dómsmrh. hefði átt að vera þetta því kærara, þar sem flokksmenn hans eru svo fúsir til þess að fá fyrirmyndir frá Þýzkalandi. (Dómsmrh.: Nota nazistar vatnsbíla?). Nazistar nota þá í þýzkalandi með góðum árangri og spýta vatni á andstæðinga sína áður en þeir stinga þeim inn í fangabúðirnar. En það er vitanlega ekki meiningin hér á landi, að óeirðarseggir verði reknir inn í fangabúðir; hitt mun heppilegra, að þjálfa þá á annan hátt. Þegar hæstv. dómsmrh. lítur yfir þennan 400 þús. kr. reikning sinn yfir kostnað við ríkislögregluna síðastl. ár, þá mun hann væntanlega sjá, að þessi litla upphæð til kaupa á vatnsbíl, sem væntanlega yrði lögð fram í félagi við Rvíkurbæ, er ekki nema 1/10 hluti af árskostnaði ríkissjóðs við lögregluna. Og úr því að hæstv. ráðh. hefir séð sér fært að leggja fram þessar 400 þús. kr. úr ríkissjóði án nokkurs framlags frá Rvíkurbæ, þá held ég, að hann hefði ekki orðið fyrir neinu ámæli, þó hann hefði sparað nokkuð af upphæðinni til þess að kaupa þetta tæki. Það er öllum kunnugt, að þeir, sem helzt valda óeirðum hér í bænum, eru háværir, en ekki þrekmiklir unglingar, sem eru tæplega færir um að verða fyrir kylfum og öðrum taekjum lögreglunnar.

Ég sé mér ekki annað fært en að greiða atkv. á móti dagskrártill. hv. þm. G.-K., af því að í henni felst viðurkenning og réttlæting á gerðum hæstv. dómsmrh. í þessu máli, sem hafa verið með öllu óhæfilegar frá upphafi. Aftur á móti er ég ekki sammála síðari hluta till., af því að ég álít, að ekki sé hægt með þál. að banna stj. að stofna til varalögreglu. Ef þáltill. kemur til atkvæða í heild, þá mun ég greiða henni mótatkv., og ber þá sérstaklega að líta á það sem mótmæli gegn þeirri óhæfilegu fjáreyðslu stj., sem farið hefir til þess að halda uppi lögreglunni að óþörfu síðan í júlímánuði í sumar.