03.11.1933
Sameinað þing: 3. fundur, 47. löggjafarþing.
Sjá dálk 18 í B-deild Alþingistíðinda. (14)

Rannsókn kjörbréfa

Jónas Jónsson:

Út af þeim umr., sem urðu hér í gær um Hafnarfjarðarkosninguna, vildi ég segja fáein orð.

Þegar við vorum að athuga málið í kjördeildinni í gær, voru nokkrir menn, sem álitu kosninguna svo vel framkvæmda, að ekki þyrfti þar um að bæta. Við hinir álitum, að kosningin væri að ýmsu leyti þess eðlis, að nánari athugunar þyrfti við á þeim vinnubrögðum, og a. m. k. mætti slíkt aldrei koma fyrir aftur, ef þá ekki bæri að gera kosninguna algerlega ógilda. Menn vita, að það er stórt vafamál um þessa kosningu. Margir álíta, að Bjarni Snæbjörnsson sé ekki kosinn, heldur Kjartan Ólafsson og að hann eigi að fá kjörbréfið. Alþ. getur vel úrskurðað þetta, með því að það er vitað, að viss hluti þeirra atkvæða, sem Bjarna hafa verið talin, eru í raun og veru alls ekki gild. Ef Alþ. hallaðist að því að álíta þau gild, þá er það gjöf frá Alþ. og ekki annað. Atkvæðin eru ógild af því að í kosningalögunum stendur, að uppfylla skuli skilyrði, sem hér hafa ekki verið uppfyllt. — Í öðru lagi hefir, eins og var nokkuð ýtarlega talað um í gær, sýslumaðurinn og sýsluskrifstofan beitt mjög undarlegri vinnuaðferð, þar sem svo lítur út, að sýslumaður neiti fyrst öðrum flokknum um að láta aðstoða við kosningu utan kjörstaðar, en leyfir svo hinum það, og snýst þannig við í stefnu sinni mitt í kosningunni. Þegar þess er gætt, að maðurinn, sem framkvæmir þetta og virðist hafa kosið fyrir menn a. m. k. á þessa 6 seðla, sem lágu fyrir í gær —, er mjög æstur stuðningsmaður þess frambjóðanda, sem talið er, að hafi fengið meiri hl., og helzti agitator hans í bænum, þá eru það a. m. k. töluvert leiðinleg vinnubrögð og ekki þess eðlis að skapa gott fordæmi, sem eitt getur gert menn rólega um það, að þeir, sem standa fyrir kosningum, fari vel og heiðarlega að. Það er eins og hv. þm. Seyðf. tók fram

i gær, að þessi lög, sein kosningin er hyggð á og hér koma til skýringa, eru gerð eftir Hnífsdalssvíkin. Þau eru sniðin til þess að reyna að forðast þá ágalla, sem þar komu fram hjá þeim sömu, sem gagn höfðu af svikunum þá og gagn hafa af „misfellunum“ nú. Og eitt undirstöðuatriðið var, að vottar yrðu að vera við kosninguna. Það hafði þá komið fyrir og hefir síðan sannazt til fulls, að ekki var hægt að trúa einum trúnaðarmanni — í því tilfelli hreppstjóranum — og þess vegna var þetta ákvæði sett. Ég get því ekki annað en greitt atkv. móti því að taka þessa kosningu gilda, því að ég álít, að það eigi alls ekki að koma til greina, að nokkur þm. geti verið úrskurðaður löglega kosinn á Alþ., sem hefir fengið síðasta úrskurðarfylgið með sannanlega ólöglegu móti, og fengið fylgið á þann hátt, sem kosningalögin ætlast til, að ekki komi til greina. Því að þótt allt sé með felldu og ekki hafi verið breytt um á neinum þeim seðli, sem ekki fylgdu vottorð, þá vita allir, að í Hnífsdal hefir annað eins komið fyrir, og misfellurnar hafa legið í landi hjá þessum sama flokki, sem hér verður fyrir hagnaði af þeim misfellum, sem um er að ræða. Ég veit ekki vel, hvar það myndi enda, ef Alþ. — a. m. k. átölulaust — liði það, að algerlega væru þverbrotin lög um öryggi í kosningunum. Skildist mér, að þeir menn, sem vilja ekki ónýta slíka kosningu, geri það m. a. þar sem aðeins um eitt þing sé að ræða, sem sennilega standi yfir mjög skamman tíma. En kosninguna ber stranglega að víta, svo stranglega, að enginn láti sér koma til hugar að viðhafa sömu aðferðina og höfð var í Hafnarfirði í vor. Ég hafði frétt, um það bil er þing var að koma saman, að kærurnar væru tvær. Önnur var úr annari sýslu á landinu, og mér þótti eðlilegt, að það hefði verið. Það vita allir, að í öðru kjördæmi í landinu liggur mjög sterkur grunur á sýslumanninum, sem sjálfur var í framboði og vann með litlum mun atkvæða, um að hafa beitt harðræði við verkamenn í ríkisins þjónustu. Allir vita, hvað hér er átt við. Eftir kosninguna í sumar kærir ungur maður úr Mýrdal yfir kosningunni og óskar eftir, að í málið sé skipaður setudómari. Tjáir hann þá sögu, að verkstjórinn í ríkissjóðsvinnunni í Mýrdal, sem er mikill fylgismaður sýslumannsins, hafi ráðizt á sig með mikilli ókurteisi og ruddaskap fyrir að hafa leyft sér að kjósa, þar sem hann hafi verið búinn að lofa að kjósa ekki, því að búizt var við, að hann væri flokksmaður Framsóknar. Hafi verkstjórinn greitt honum fyrirfram nokkuð af kaupinu gegn því, að hann neytti ekki kosningarréttar síns, sem var sama og að hjálpa frambjóðanda Íhaldsins. Þegar svo verkstjórinn ræðst hastarlega á verkamanninn og segir honum upp vinnu og rekur hann burt fyrir það, að hann leyfði sér að kjósa, þá kom þetta til kasta sýslumannsins. Lagði sýslumaður hart að honum að kæra ekki. Sama hafði vegamálastjóri gert. Báðir þessir menn voru einskonar yfirmenn verkstjórans, og hagnaðurinn af þessu var ekki hagnaður verkstjórans, heldur sýslumannsins og íhaldsins. Þegar það nú er vitað, eftir því sem maðurinn segir sjálfur — því að lengra er ekki komið málinu —, að sýslumaður leggur hart að verkamanninum að kæra ekki, þá hefir sýslumaður álitið, að þögnin væri bezt í þessu máli. En þegar maðurinn heldur áfram með að kæra, þá halda vegamálastjóri og verkstjóri fast við að svipta hann vinnu. Þetta var ekki álitlegt fyrir Framsfl., þar sem maður fyrir hans hönd hefir yfirstjórn vegamálanna í landinu, er komið var svo, að vegamálastjóri og sýslumaður voru farnir að hafa gerræði í frammi af þessu tægi, að menn voru ekki frjálsir að kjósa þann flokk, sem þeim sýndist, fyrir þessum undirtyllum. Mér datt auðvitað ekki í hug, að vegamálaráðh. ætti að fá neitt aukið fylgi vegna vinnunnar, heldur hlutleysi til allra hliða. Málið er í rannsókn. Þetta eru gögnin, sem maðurinn hefir lagt fram. Það getur vel verið, að sýslumaðurinn beri á móti því, að hann hafi nokkuð talað við þennan verkamann, en þá stendur vitnisburður á móti vitnisburði. Ég hefi nefnt þetta dæmi hér vegna þess, að það er staðreynd og ekki um deilt, að hvort sem samband hefir verið milli sýslumannsins í V.-Skaftafellssýslu og verkstjórans eða að verkstjórinn hefir einungis af trúnaði við flokkinn tekið þetta upp á sig, þá er svo mikið víst, að verkstjórinn réðst á verkamanninn fyrir það, að hann hefði kosið, og bar því við, að hann hefði fengið hlunnindi, sem ekki hefðu átt að geta komið til greina í þjónustu nokkurs flokks, nefnilega yfirráðin yfir þessum peningum. Ég sé ekki, að nauðsynlegt hafi verið að greiða þetta fyrirfram, en ef verkstjórinn hefir talið það, þá átti það auðvitað ekki að vera í sambandi við kosningarnar. Mér virðist því ýmislegt benda til þess, að þessi flokkur, sem hér hefir orðið fyrir hlunnindunum, hafi verið nokkuð fingralangur í aðdrætti sínum við kosninguna í vor. Mun þó ekki mikið koma fram í ljósið af því. En dæmin úr Hafnarfirði og Mýrdal kasta leiðinlegu ljósi yfir kosningabardagann af hálfu Íhaldsins. Það var fullyrt í gær af manni úr Hafnarfirði, sem talaði hér í þingsalnum, að sýslumaðurinn hefði haft skoðanaskipti og tilkynnt það bæði sósíalistum og Íhaldsmönnum, að hann væri farinn að veita aðstoð við kosninguna. En eftir því, sem fullyrt er, þá hafa þetta verið fullkomin ósannindi. Ég hefi fengið upplýsingar um, að við kosninguna 1931 hafi einn af þeim mönnum, sem stóðu að kosningu Stefáns Jóh. Stefánssonar, farið til bæjarfógeta og spurt, hvort hann treysti sér ekki til að láta hjálpa. Sagðist bæjarfógeti aldrei gera það og álíta það ólöglegt, og slíkt kæmi ekki til mála. Hafði þá maðurinn bent honum á, að slíkt myndi hafa komið fyrir í Rvík, en bæjarfógeti kvaðst ekki hafa það að neinu, þótt lögin væru brotin annarsstaðar, sem auðvitað var rétt. Nú líða tvö ár, og í byrjun kosninganna 1933 heldur sýslumaðurinn enn við sömu skoðun, þennan einfalda lagastað, og neitar Alþfl. um aðstoð, en þegar líður dálítið lengra á, lítur út fyrir, að hann hafi frétt, að einhversstaðar annarsstaðar væri gerð tilraun til að brjóta lögin, og leggur hann þá þegar eyrun við og fer að gera þetta sjálfur, og er á þessum seðlum öllum saman ósvíkið íhaldsmark. Skrifari sýslumannsins hefir kosið og handsalað og ekki leyst sitt verk betur af hendi en kom fram í ræðu hv. þm. Seyðf. í gær.

Þegar bæjarfógetinn í Hafnarfirði byrjar að gera þetta, sem hann sjálfur sagði, að væri rangt, og líka er vitanlegt, að er rangt og verður rangt, og tekur upp þessa nýju venju, sem kom að einhliða gagni Íhaldsmönnum í Hafnarfirði, talar hann við dómsmrn. um málið, líklegast við sjálfan ráðh., sem líka er íhaldsmaður, og fær þar þær upplýsingar, sem allir þó sjá, að er fjarstæða ein, að með hliðstæðu frá l. frá 1915 megi brjóta ákvæði l. frá 1928. Það liggur að vísu ekki skjallega fyrir, að dómsmrn. hafi veitt þessa lagakennslu, og hefði það þó verið varlegra fyrir bæjarfógetann að fá þetta skriflegt, enda þótt þessi lögskýring hefði jafnvel verið minna hæpin. Það væri annars gott að fá upplýsingar um það, hvern þátt stjórnarráðið hefir átt í þessum leiðbeiningum til að upphefja bókstaf 1. frá 1928, og beini ég þessu til hæstv. dómsmrh., í þeirri von, að hann gefi þinginu þessar upplýsingar. — Það lítur helzt út fyrir, að þessari lögskýringu dómsmrn. hafi síðan verið haldið leyndri fyrir flokksmönnum Kjartans Ólafssonar, en Íhaldsmenn í Hafnarfirði voru hinsvegar ekki leyndir þessu, og höfðu þeir einhliða gagn af þessari lögskýringu, eins og ég áður sagði.

Alþingi verður að taka þetta mál svo föstum tökum, að slíkt komi ekki aftur fyrir, að sýslumaður beiti svipaðri lagatúlkun og hér hefir átt sér stað, og sýnist mér sjálfsagt að ógilda kosninguna. Ekki af því, að það geti ekki komið fyrir, að sami maður verði kosinn aftur, heldur til þess að vekja athygli kjósendanna á því, að þeim sé tryggt fullkomið öryggi í þessum efnum, sem ekki er nú.