29.11.1933
Sameinað þing: 6. fundur, 47. löggjafarþing.
Sjá dálk 415 í D-deild Alþingistíðinda. (1401)

57. mál, varalögregla

Jón Þorláksson:

Það er að nokkru leyti rétt, sem hv. þm. G.-K. sagði, að þessar umr. eru að forminu til ekki um það, hvort nauðsyn muni vera á því að stofna til varalögreglu í Rvík eða ekki. En ég hygg, að það sé í raun og veru það helzta, sem um er deilt og liggur til grundvallar fyrir þeirri þáltill., sem um er rætt. Ég get því ekki áfellt hv. 1. þm. S.-M., þó að hann hafi dregið það atriði inn í umr. En í áframhaldi af ræðu hans ætla ég að gera grein fyrir því hvers vegna ég álít fyrirmæli þau í lögum um lögreglumenn frá 1. júli síðastl., sem heimila aukningu á hinu fasta lögregluliði í Rvík, allsendis ónóg eftir ástandinu í bænum. Eins og allir vita, þá hefir starfað hér í nokkur ar flokkur manna, sem kallar sig kommúnista. Sá flokkur hefir það að yfirlýstu takmarki að gera áras á núv. þjóðskipulag og kollvarpa því með byltingu, hvenær sem þeir telja sig hafa afl til þess. Hv. 1. þm. S.-M. hefir nú slegið á þá strengi, að sá flokkur væri ekki það sterkur, að af honum geti stafað nokkur hætta. En ég vil þó minna á það, að við síðustu kosningar, sem fóru fram hér í bænum, höfðu kommúnistar nálega 10% greiddra atkv. Ég hefi lesið það í bók eftir sannfróðan höfund, að þegar kommúnistar tóku völdin í Rússlandi, þá höfðu þeir ekki öllu meira en 10% af þjóðinni á bak við sig. Og meira að segja hefir það verið svo jafnan síðan, þannig að enn í dag eru það innan við 10% af íbúum landsins, sem teljast í kommúnistaflokknum. Við vitum, að þessi flokkur hér á landi bíður eftir tækifæri til þess að framkvæma samskonar bylting hér eins og flokksbræður þeirra gerðu í Rússlandi á sínum tíma. Hvernig væri nú Rvíkurbær við því búinn að verjast árásum frá þessum óaldarflokki, með allar þær alþjóðarstofnanir, sem hér eru starfandi, og hafandi ekki annað en 60 manna föstum lögregluflokki á að skipa. Ég vil leiða athygli að því, að ef hér væri um skipulagsbundna áras að ræða, þá má buast við, að hún stæði sólarhringum saman, þannig að nokkur hluti af lögregluliðinu, að líkindum 1/3 þess, yrði þó að njóta reglubundinnar hvíldar, og yrðu þá aðeins 40 menn á verði samtímis til varnar árásunum. Ég vil biðja hv. þm. að athuga, hvað það eru margar stofnanir í bænum, sem nauðsynlega þurfa verndar við, ef stjórn þessa bæjar og þjóðfélagsins í heild á ekki að verða í voða stödd. Ég vil aðeins nefna stjórnarráðshúsið, bankana, útvarpið, símastöðina, vatnsveituna og ljósastöð bæjarins. Hvað má nú eiginlega missast af þessu í hendur uppreisnarmanna, ef fólkinu á að vera hér vært og starfsemi bæjarins og þjóðfélagsins í heild á að haldast við? Og það má nefna fleira: ég vil minna hv. 2. þm. Reykv. á það, að honum auðnaðist á sínum tíma að koma olíustöð þess félags, er hann starfar fyrir, svo nálægt miðbænum, að það má með einni eldspýtu, sem kastað væri að benzíngeymunum á Klöpp, kveikja það bál, sem erfitt yrði við að fást. Það væri því fullkomin ástæða til að vera viðbúinn slíku og verja þá stöð gegn aðsókn uppreistarmanna. (HV: Og timburverzlun Árna Jónsonar). Já, það má líka nefna hana og margt fleira. — Ég vona, að ef hv. þm. vildu athuga þetta með hugarró, þá sannfærist þeir um, að það er engin von til þess, að 60 manna lögregluflokkur geti varið bæinn þegar svona árasir frá byltingaflokki bæru að höndum. Ég get líka bætt því við, að þó skipshöfnum varðskipanna væri bætt við lögregluna hér í bænum, þá er fjarri því, að það veiti þjóðfélaginu nægilega vernd. Nú er allmikið um það rætt, hvort stj. sé heimilt að stofna varalögreglu í Rvík, þegar fasta liðið er ekki nema 48 menn, þar sem heimilað er, að hámarkstala þess flokks megi vera 60 lögreglumenn. Ég skal ekki fara mikið út í lögskýringar. En hæstv. dómsmrh. hefir sagt, að þetta mundi verða athugað áður en til þess kæmi, að varalögreglan yrði stofnuð. Og ég vil minna hv. þm. á, að lögin heimila ráðh. að stofna til varalögreglu, þó að í bæjarlögreglunni séu ekki nema 48 menn, ef hann álitur það ekki nægilegan styrk og telur nauðsyn til bera. Þetta veit ég, að allir hljóta að vera sammála um.

Ég hefi nú reynt að gera ofurlitla grein fyrir því, að það er jafnvel óhugsandi að halda uppi nokkru öryggi í bænum með 60 manna lögreglu. Og það er sama, þó að fenginn væri sá vatnsbíll, sem hv. 4. landsk. hefir orðið svo ástfanginn af, eða þau tæki, sem hv. 1. þm. S.-M. var að fikra fingrum um, en nefndi þó ekki, en mér skildist helzt, að hann eiga við skotvopn, því að hann var að tala um, að lögreglan hér þyrfti að vera útbúin sömu taekjum og lögregla annara landa, en ég veit ekki til, að neitt skilji á milli annað en skotvopn. Nei, leiðin til þess að halda uppi friði er sú, að hafa jafnan til taks lið, sem er svo sterkt, að uppreistarmenn treysti sér ekki til atlögu. Þannig hefir ástandið verið hér síðastliðið ár, að það hefir verið svo sterkt lögreglulið, að þessir yfirlýstu árásarmenn á þjóðfélagið hafa haldið sér í skefjum, af því að þeir hafa ekki haft neina von um að sigra, ef þeir hefðu gert áhlaup.

Hv. 4. landsk. var eitthvað að hnýta í Sjálfstfl., að mér skildist fyrir það, að hann sækti fyrirmyndir til Þýzkalands. nú er það svo, að það er fjöldamargt í þýzkri menningu, sem enginn stjórnmalaflokkur þarf að fyrirverða sig fyrir að sækja þangað. En að því leyti, sem kynni að verða vart við, að Sjálfstfi. sækti fyrirmyndir til þeirrar stjórnarstefnu, sem nú er ríkjandi í Þýzkalandi, vildi ég gjarnan nota tækifærið til þess aðeins að minna á, að alla tíð síðan framsóknarstj. greip til þess einræðis að hleypa upp þinginu 1931, þá hefir Sjálfstfl. staðið fyrstur í baráttunni fyrir lýðræðinu í þessu landi. Hann dró upp merki lýðræðisins með þeirri kröfu, að réttur manna til áhrifa á stjórnarskipun landsins yrði jafn — jafn kosningarréttur.

Þessum kröfum hefir Sjálfstfl. fylgt fram síðan, og þó hann í þeirri stjórnarskrá, sem nú hefir verið lögleidd, hafi neyðzt til að slaka til á þeim kröfum meira en mér er geðfellt, þá kemur það úr hörðustu átt, ef menn eins og hv. 4. landsk., sem alla tíma hefir barizt á móti þessari jafnréttiskröfu, koma nú og þeyta framan í fólkið, að við sækjum fyrirmyndir til þess stjórnarfars, þar sem einræðið er á hæsta stigi hér í Norðurálfu, því að hann og hans notar, sem staðið hafa á móti þessum jafnréttiskröfum, sækja fyrirmyndirnar til þeirra, sem lögleitt hafa farra manna vald og staðið í vegi fyrir lýðræðinu.

Sjálfstfl. beitti sér ennfremur fyrir því, að þjóðfélagið, sem er á lýðræðisgrundvelli byggt, sýndi þann manndóm að útvega sér þær varnir, sem þarf til þess að halda við sínu skipulagi, með því að hafa lið til þess að halda uppi iögum í landinu, og það er í beinu áframhaldi af þeirri stefnu, að berjast fyrir lyðræðinu og halda uppi lýðstjórn og lýðræðisvaldi í þessu landi.

Þeir þm., eins og hv. 2. þm. Reykv. og hv. 1. þm. S-M., sem nú óskapast á móti varalögreglu, gera það af því einu, að þeir standa svo nálægt kommúnistum, að þeim er ósárt um, þó að þeir kollvarpi þjóðskipulaginu, af því að þeir búast við að fljóta einhversstaðar ofan á í því hafróti, en við hinir viljum ekki leiða þjóðfélagið út í það umrót.