29.11.1933
Neðri deild: 22. fundur, 47. löggjafarþing.
Sjá dálk 155 í D-deild Alþingistíðinda. (1408)

79. mál, síldarbræðslustöð Útvegsbanka Íslands hf á Öndundarfirði

Ólafur Thors:

Ég hefi ekki getað orðið samferða hv. meðnm. mínum í flutningi þessarar till., og það er af því, að afstaða mín í því máli er hin sama og hún hefir verið að undanförnu í slíkum málum, og er hún í samræmi við stefnu míns flokks. Hún er sú, að framlög ríkissjóðs séu miðuð við það, að reyna að bæta úr þeirri þörf síldarútvegsins, sem sagt hefir til sín í sívaxandi mæli, á nýjum sölumarkaði fyrir ferska síld til bræðslu. Við sjálfstæðismenn höfum gengið inn á, til að bæta úr þessari þörf, að ríkið leggi fram fé til að stofna og starfrækja nýjar síldarbræðslustöðvar, en viljum hinsvegar ekki, að ríkið taki á sig áhættuna af rekstri eða kaupum þeirra bræðslustöðva, sem fyrir eru í landinu og hingað til hafa verið starfræktar og allar líkur benda til, að áfram verði starfræktar. Af þessum ástæðum hefi ég ekki getað verið samferða hv. meðnm. mínum um flutning þessa máls. Það má að vísu til sanns vegar færa, að ekki sé full trygging fyrir því, að síldarverksmiðjan, sem hér er um að ræða, verði rekin, þó hún komist ekki í hendur ríkisins. En alveg það sama mætti segja um ýms önnur framleiðslutæki, sem þjóðarnauðsyn er, að starfrækt séu. Það er t. d. engin almenn trygging fyrir, að togararnir verði gerðir út á saltfisksveiðar á næstu vertíð, þó almenningi sé nauðsynlegt, að það verði gert. En það hefir ekki komið fyrir enn, að þeir væru ekki starfræktir, og það hefir ekki heldur komið fyrir, að Sólbakkaverksmiðjan væri ekki starftækt. Það er því ástæðulaust fyrir ríkisvaldið, eins og nú standa sakir, að fara að leggja fram fé til að tryggja þá starfrækslu, sem ætla má, að sé trygg. Ég hygg, að Útvegsbankinn sjái sér ekki fært annað en reka verksmiðjuna sjálfur, ef enginn fæst til þess leigja hana. Og ef ríkið ætlaði að leggja fram meira fé til síldarbræðslustöðva heldur en þegar er ákveðið, þá væri miklu eðlilegra að gera það á þann hátt að reisa nýja verksmiðju. Það eru engin rök í þessu máli, þó segja megi, að ríkissjóður þurfi ekki að leggja fram neitt fé til þess að kaupa þessa verksmiðju, — að hann geti fengið að skulda Útvegsbankanum kaupverðið. Við erum nýbúnir að samþ. hér ríkisábyrgð fyrir láni handa Útvegsbankanum, svo hann geti haldið afram starfsemi sinni, rekstrarlánastarfsemi til framleiðslunnar. Við getum alveg eins ákveðið, að ríkið sjálft taki slíkt lán til stofnunar og starfrækslu nýrrar síldarbræðslustöðvar, ef við viljum halda áfram á þessari braut.

Af þessum ástæðum get ég ekki samþ. þá till., sem hér liggur fyrir. Ég skal taka það fram, áður en ég sezt niður, að ég vænti þess, að ég hljóti ekki ámæli fyrir afstöðu mína í þessu máli af þeim sökum, að félag, sem ég er við riðinn, hefir leigt Sólbakkaverksmiðjuna. Því fremur get ég hiklaust talað um þetta mál, að ég er hér í fullu samræmi við stefnu Sjálfstfl., og þessi bræðslusleið mun heldur aldrei leigð þessu ákveðna félagi, nema því aðeins, að aðrir vilji ekki leigja hana.