29.11.1933
Neðri deild: 22. fundur, 47. löggjafarþing.
Sjá dálk 159 í D-deild Alþingistíðinda. (1411)

79. mál, síldarbræðslustöð Útvegsbanka Íslands hf á Öndundarfirði

Pétur Ottesen:

Ég vildi aðeins áður en til atkvgr. kemur gera grein fyrir atkv. mínu. Ég hefi á þessu þingi og áður, þegar síldarbræðsluverksmiðja ríkisins var sett á stofn á Siglufirði, verið með því, að það væri gert. Ég hefi ennfremur greitt atkv. með því, að ríkið byggði nú nýja síldarbræðsluverksmiðju, eins og till. hafa hér legið fyrir um. Ástæðan til þess, að ég hefi fylgt því, að ríkið skærist þar í leikinn, var eingöngu sú, að eins og þá stóð á og eins og enn stendur á, virðist ekki tök á því fyrir einstaklinga, svo mjög sem atvinnuvegirnir berjast nú í bökkum, að koma jafndýrum framkvæmdum á laggirnar, en nauðsynin á því, að það sé gert, er hinsvegar rík. Það var eingöngu með hliðsjón af þessu, sem ég hefi greitt atkv. með því, að þessu yrði komið í framkvæmd á þennan hátt, og ég hefi gert það með það fyrir augum, að þegar betur rættist úr, þá seldi ríkisvaldið þessar verksmiðjur í hendur samvinnufélagi síldarútgerðarmanna, sem þá væru þess umkomnir að taka við þeim og reka þær. Þetta hefi ég talið þá eðlilegu þróun í þessu máli, að verksmiðjurnar yrðu seldar í hendur þeirra manna, sem bera hita og þunga af þessum atvinnurekstri þjóðfélagsins, þegar skilyrði til þess væru fyrir hendi. Nú er hér um að ræða verksmiðju, sem hefir verið í fullum gangi undanfarið an þess að ríkisvaldið hafi þurft að leggja henni nokkurt lið. Ég er því eindregið á móti því, að ríkisvaldið fari að taka í sínar hendur þessa verksmiðju, sem hefir verið í fullum gangi og engin ástæða til að ætla, að geti ekki haldið áfram á sama grundvelli og verið hefir, því mér virðist, að reynsla undanfarinna ára gefi vonir um, ef vel er á haldið, að hér sé um að ræða nokkuð öruggan atvinnurekstur. Það er því fjarri öllum sanni að gera ráð fyrir, að ekki sé hægt að halda áfram rekstri þessarar verksmiðju, t. d. næsta ár. Það getur því ekkert legið til grundvallar fyrir því að fara að skerast í leikinn á þennan hátt annað en hrein og bein tilhneiging til þess gersamlega að þarflausu að draga þetta undir ríkisvaldið. Þess vegna greiði ég jafnhiklaust atkv. gegn þessari till. eins og ég greiddi atkv. með, að ríkið kæmi upp bæjum bræðslum, har sem því, sökum hins erfiða ástands hjá útgerðarmönnum nú, yrði ekki hrundið í framkvæmd á annan hátt.

Mér virtist hv. þm. Vestm. vera kominn nokkuð langt inn á þessa hugsun, þar sem hann er farinn að tala um duttlunga þeirra manna, sem bera hita og þunga af þessum atvinnurekstri. Mér virðist hann vera kominn leiðinlega langt inn á hugsunargang þessara manna, sem vilja koma þessu öllu í hendurnar á ríkisvaldinu með þeirri áhættu, sem það vitanlega hefir í för með sér, sem hefir sýnt sig ljóslega, þar sem það hefir tekizt að taka framkvæmd slíkra mála úr höndum einstaklinga og leggja í hendur ríkisvaldsins.

Ég skal svo ekki fara fleiri orðum um þetta, en mér þótti rétt að gera þessa grein fyrir atkv. mínu, jafnframt því, sem ég bendi á, hver eðlismunur er á þessari till. og þeim till., sem hér hafa legið fyrir um bygging nýrra síldarbræðslustöðva.