02.12.1933
Sameinað þing: 7. fundur, 47. löggjafarþing.
Sjá dálk 440 í D-deild Alþingistíðinda. (1412)

57. mál, varalögregla

Dómsmrh. (Magnús Guðmundsson):

Mér þykir verst, að ég er svo kvefaður, að ég á óhægt með að tala, a. m. k. eins hátt eins og hv. þm. Seyðf. — Hv. þm. rak hér upp roku, eins og hans er vandi, en í þetta skipti veit ég, hver var ástæðan. Eins og kunnugt er, vildu jafnaðarmenn óðfúsir komast inn í stjórnina, og nú er hv. þm. Seyðf. orðinn vonlaus um að komast í minn stól að þessu sinni. (HG: Ég er alveg vonlaus!). Þá er ekki að furða, þó rokan hafi verið há í þetta skipti, því hann jangaði mikið til þess að komast í dómsmálaráðherrasætið.

Hv. þm. talaði í tvo klukkutíma og hefir víst haldið, að hann væri kominn á kosningafund, en væri ekki að tala á þingfundi í lítilfjörlegu þingmáli. Niðurstöðurnar í þessu langa erindi hans voru næsta kringilegar. Hann sagði fyrst, að varalögregla og hér væri stofnaður til þess að koma í veg fyrir byltingu, og síðar komst hann að þeirri niðurstöðu, að byltingin á Rásslandi hefði orðið einmitt vegna þess, hversu herinn og lögreglan þar var öflug. Hann var sem sagt búinn að gleyma því síðast í ræðu sinni, sem hann hafði sagt í upphafi. Hann byrjaði á því að spyrja, hvað varalögreglan hefði gert. hún hefir gert það, sem allri lögreglu er ætlað að gera, að halda uppi friði og verja líf og limi bæjarbúa. hún var t. d. kölluð fram til þess að verja hv. jafnaðarmenn 9. nóv. þegar á þá var raðið. (HV: Þetta eru ósannindi). Þetta er sannleikur; það var kallað á lögregluna af húsverðinum í Iðnó, af því að hv. jafnaðarmenn voru hræddir við spell og óspektir.

Hv. þm. sagði, að þau lög, sem hér eru til umr., hefðu verið sett þvert ofan í vilja þorra allra landsmanna. Ég veit ekki, hvaðan honum kemur heimild til að tala svo digurbarkalega. Alþfl.menn einir hafa greitt atkv. á móti lögunum, og það er vitað, að þeir hafa ekki alla sína menn að baki sér í þessu máli. Og þrátt fyrir það, að vitað er, að bak við þennan andróður stendur aðeins tiltölulega lítið brot þjóðarinnar, þá leyfir hv. þm. Seyðf. sér að tala um „allan þorra alþýðu“ í því sambandi.

Hv. þm. Seyðf. talaði mikið um, hvað lögreglan hefði orðið dýr. Ég skal viðurkenna það, að hún hefir orðið dýr, en hverjum er það að kenna? Það er jafnaðarmönnum að kenna. Það er því að kenna, að þeir útilokuðu þessa menn frá vinnu. Ef ekki hefði verið sett á þá verkbann, þá hefði kostnaðurinn við lögregluna orðið margfalt minni en raun hefir orðið á, og kemur það því úr hörðustu átt, þegar þessir menn eru að tala um, hvað lögreglan hafi orðið dýr, þegar það er að mestu leyti þeirra eigin sök.

Það var viðurkennt af öllum þingheimi í fyrra, að auka þyrfti lögreglu hér í Rvík, og jafnvel jafnaðarmenn neituðu því ekki. Þessi aukning komst ekki á fyrr en 1. nóv. síðastl., og er það því mjög eðlilegt, að kostnaðurinn við varalögreglu hafi orðið mikill. Það er leiðinlegt að þurfa alltaf að vera að hrekja þá fullyrðingu jafnaðarmanna, að lögreglan hafi frá byrjun verið ólöglega sett. Það er mjög oft búið að sýna fram á það, að þó að ekki hafi verið til bein lög um þetta, þá er það fyrsta skylda hverrar einustu stj. að halda uppi lögum og reglu í landinu, og sé það ekki hægt nema með aukinni lögreglu, þá er skyldugt að auka hana. (HV: Hvað segir stjskr?). Stjskr. fyrirbýður það ekki. Hún þvert á móti fyrirskipar hverjum manni í landinu að taka þátt í að vernda þjóðskipulagið.

Hv. þm. Seyðf. talaði um, að það væri ný stefna, að auka hér og flota. Honum skjátlaðist í rökleiðslunni þar sem víðar, þar sem hann upplýsti um leið, að ég hefði látið flotann liggja uppi mikinn hluta ársins. Annars er það þvert á móti stefnu jafnaðarmanna um allan heim, að berjast á móti því, að ríkin hafi lögreglu. Það þekkist hvergi á byggðu bóli nema hér, að jafnaðarmenn berjist á móti lögum og friði. Það mætti minna á það, að þegar foringi dönsku jafnaðarmannanna vildi afnema herinn þar, þá ætlaði hann sér ekki að vera lögreglulaus. Nei, hann ætlaði sér að hafa nokkra tugi þús. til þess að verja ríkið gegn innanlandsóeirðum. Hann sagði: „Við erum of litlir til þess að verjast gegn stóru þjóðunum í kringum okkur, en við þurfum að hafa styrka lögreglu til þess að vernda friðinn í landinu“. Svona er það alstaðar þar, sem jafnaðarmenn eru við völd, að þeir hafa engu óstyrkari lögreglu en aðrir flokkar. Hér aftur á móti koma þessir herrar með miklum móði og þykjast stefnu sinnar vegna verða að vera á móti allri aukningu lögreglunnar. Þeirra stefna hlýtur að vera önnur en jafnaðarmanna annarsstaðar í heiminum. Ég man eftir því, að ég sagði frá því hér í fyrra, að um það leyti sem verið var að ræða um ríkisiogregluna hér á Alþ., þá bólaði á óeirðum á landamærum Danmerkur og Þýzkalands, og þá heimtaði jafnaðarmannastjórnin danska, að lög yrðu sett í gegn á einni nóttu um að bæta 100 manna lögreglu við, og þar að auki að ríkislögreglan yrði efld. Engir greiddu atkv. á móti þessu, nema kommúnistar, og lögin voru samþ. á einni nóttu í báðum deildum þingsins.

Hv. þm. Seyðf. spurði mig um eitthvert bæjarslúður, sem hann hafði heyrt um, að sveit manna væri við æfingar í Kveldúlfsporti og annarsstaðar í bænum. Ég hefi alls ekkert um þetta heyrt. (HV: Fánasveit Heimdalls). Það er bezt fyrir þennan hv. þm. að skýra frá þessu sjálfur, þar sem hann virðist þekkja svo vel til þess. (HV: Dómsmrh. er skyldugt að vita, hvað gerist í bænum). Ég kem aldrei í Kveldúlfsport og veit því ekki, hvað gerist þar. Hv. þm. er miklu kunnugra um það, þar sem hann hefir olíugeyma og olíutunnur í því hverfi. Annars er ég ófús til að hafa nef í hvers manns koppi. Borgararnir eiga að vera frjálsir menn í frjalsu landi.

Hv. þm. Seyðf. sagði ennfremur, að mikið hefði verið talað um, hvað lögreglan ætti ekki að gera, en minna um hitt, hvað hún ætti að gera. Lögreglan á að halda uppi lögum og rétti í landinu og sjá um, að í því sé ró og friður. Það er takmark allrar lögreglu, það og ekkert annað.

Það var spurt um, hvort ég hefði fyrirskipað, að lögregluþjónar yrðu 60 hér í bænum. Nei, það hefi ég ekki fyrirskipað. Ennfremur kom fyrirspurn um, hvort ekki væri rétt að banna vopnasölu. Ég hefi ekki talið þörf á að banna vopnasölu, en ég tel sjálfsagt, að búðir, sem verzla með slíkt, séu haðar eftirliti.

Viðvíkjandi því, hvort ég hefði látið kaupa tæki handa lögreglunni, vil ég upplýsa, að það er lögreglustjóri, sem sér um það. (HV: Byssur?). Kannske táragas? Jafnaðarmannastjórnin í Danmörku lét nota táragas í Kaupmannahöfn í fyrravetur. Ég veit ekki, hvort hv. flokksmenn þeirra hér telja glæp að gera það.

Hv. þm. segir, að vegna öryggis í bænum þurfi ekki að auka lögregluna. Hann getur ekki sagt um það, nema fyrir sjálfan sig. Hv. þm. álítur þess vegna, að óheimilt sé að auka hana. Í lögunum er ákveðið, að ráðh. skuli meta, hvort þörf sé á því, og þar sem hv. þm. misheppnaðist að komast í ráðherrastólinn, þá verður hann að sætta sig við, að það er ekki í hans verkahring að meta þetta. Annars vil ég taka það fram, vegna þeirra lögskýringa, sem alltaf eru að koma hér fram, að ég er þakklátur fyrir allar leiðbeiningar um það, hvernig skilja eigi lög, en ég þykist hafa lært eins mikið í þeirri fræðigrein og sumir af þeim hv. þm., sem eru nú að gefa mér leiðbeiningar, og ég vil minna á það, að það er ekki hægt að gefa lögskýringu, sem sé bindandi, nema með nýjum lögum.

Þá vildi ég drepa á nokkur atriði, sem hv. 2. þm. S.-M. minntist á. Ég sagði, alveg eins og hann réttilega tók fram, að ég mundi athuga vandlega, hvernig ég teldi rétt að skilja l. um lögreglumenn. Það er ekki nema sjálfsagt, og það þykist ég jafnan gera, þegar ég nota lög, ekki sízt ný. En mér virtist á orðum hv. þm., að það vera einhverskonar aukatill., sem hann vildi hafa. Hann vildi t. d. fara að reyna til að hreinsa flokksbróður sinn, hv. 4. landsk., og ég hefi ekkert á móti því, að hv. þm. moki frá dyrum hans, ef hann er ekki fær um það sjálfur. Það er rétt, sem ég sagði, að frásaga hans af þessu máli á þinginu í fyrra var lituð.

Hv. þm. talaði mikið um, að auðvitað mætti ég ekki setja upp lögreglu nema uppfyllt séu skilyrði laganna. Það dettur mér heldur ekki í hug að gera. Auðvitað verða að vera uppfyllt öll skilyrði laganna, en það er ekki víst, að ég geti tekið hans skýringar gildar um þetta. Ég verð sjálfur að athuga, hvort öll skilyrði eru fyrir hendi, þegar taka þarf afstöðu um atriði, er snerta þessi lög. Ég man svo ekki eftir fleiru í ræðu þessa hv. þm., sem ég þarf að svara, enda kom okkur svo vel saman um þetta mál í fyrra, að ég vil ekki fara að vekja deilur um það nu. (IP: Getur okkur ekki komið saman um skilninginn á lögunum líka?). Það getur verið, en hann má ekki einn þykjast hafa vit á þeim. Það eru fleiri, sem þar koma til greina við hlið hans, og kannske framar.