29.11.1933
Neðri deild: 22. fundur, 47. löggjafarþing.
Sjá dálk 162 í D-deild Alþingistíðinda. (1415)

79. mál, síldarbræðslustöð Útvegsbanka Íslands hf á Öndundarfirði

Ólafur Thors:

Hv. þm. Borgf. hefir sett hér fram sína skoðun á þessu máli. Ég get verið stuttorður, því ég get skrifað svo að segja undir hvert einasta orð, sem hann sagði.

Mér kemur það ekki undarlega fyrir sjónir, þó hæstv. forsrh. talaði eins og hann talaði. Það er ekki fjarri hans skoðunum og í fullu samræmi við aðstöðu hans til ýmissa mála bæði fyrr og síðar hér á þingi. Um einstök atriði er ég honum vitanlega ósammála og álít jafnvel, að þar hafi kennt rökvillna. Ég vil benda hæstv. forsrh. á það, að þau rök, sem hann færði fram fyrir nauðsyninni á að samþ. þessa till., til þess að tryggður yrði rekstur þessarar verksmiðju, leiða til þess, að það á að útfæra þessa till. til þess að ná til allra annara verksmiðja á landinu. Ég vil segja hæstv. forsrh. það, að ef honum finnst nauðsynlegt að kaupa Sólbakkaverksmiðjuna, til þess að tryggt sé, að búin verði rekin, þá er engu síður nauðsyn á því, að stj. fái samskonar heimild um aðrar verksmiðjur, sem eru í eign einstakra manna eða firmna. Það er jafnnauðsynlegt þjóðinni, að þær verksmiðjur séu reknar, þó hans kjósendur á Sólbakka finni ekki eins til þess. En það hefir nú kannske verið þm., en ekki ráðh., sem talaði þarna, enda lýsti hann því líka yfir.

Það fordæmi, sem við gáfum í fyrra, er ekki hliðstætt við þetta. Þá var um að ræða verksmiðju, sem var í höndum útlendings, sem ríkið hafði engin tök á að láta reka og sem á undanförnum árum ekki hafði verið rekin. En hér er um verksmiðju að ræða, sem hefir verið rekin að undanförnu og er eign Íslendinga, og einmitt þess aðila, sem ríkið hefir óvenju sterk tök á, bæði vegna þess, að fjmrh. ræður æðstu stjórn bankans og einnig vegna þess, að bankinn er sí og æ með nýjar og nýjar bænir til þings og stjórnar. Ég tel þess vegna hvað minnsta hættu á, að þessi verksmiðja verði ekki rekin. Og ef á að tryggja hugmynd hæstv. forsrh. um sem víðtækastan rekstur bræðslustöðva, þá væri minnst hætta á að sleppa þessari verksmiðju og meiri nauðsyn á að taka einhverjar aðrar, eins og ég hefi þegar bent á.

Hæstv. forsrh. sagði, að hér væri ekki farið fram á nema heimild. En hvernig ætlar hæstv. stjórn að nota heimildina, ef hún fær hana'? Það mál fellur undir hæstv. dómsmrh. Ætlar hann, ef einhver býðst til að reka verksmiðjuna, að hlaupa í kapp við hann? Ef heimild er gefin, á þá að nota hana til þess, að ríkið taki að sér starfrækslu, sem einstaklingarnir hafa haft með höndum og sem ég tel betur fara á, að þeir hafi með höndum? Mér finnst það undarlegt, ef hæstv. ráðh. vill færa það fram sem rök í þessu máli, að ekki þurfi að taka nýtt lán, nema ráðh. telji, að Útvegsbankinn muni reynast ófær til að greiða lán, sem ríkið hefir ábyrgzt fyrir hann. Auk þess er það lan, sem ætlazt er til, að ríkið tæki á sig, mjög dýrt lán.

Við höfum nú verið þessa dagana að samþ., að gengið væri í nýja ábyrgð fyrir þennan banka. Við getum því alveg eins samþ. að ganga í ábyrgð fyrir okkur sjálfa, til þess fyrir þá peninga að setja upp nýja bræðslustöð.

Það er rétt hjá hæstv. ráðh., að þessi tæki eru dýr, en þau eru ekki svo dýr, að það sé ekki á færi einstakra hlutafélaga að eignast þau. Ég geri ráð fyrir, að þessi verksmiðja sé ekki meira virði en einn togari, og það hafa margir reynt að komast yfir það að eignast einn og jafnvel fleiri togara.

Hæstv. ráðh. veit það, að það er engin þörf fyrir ríkið að eignast þessi framleiðslutæki til þess að skapa samræmi milli vinnu og fjármagns. Hæstv. ráðh. veit, að á undanförnum árum hefir vinnan haft í fullu tré við fjármagnið, að ekki sé meira sagt. Það er því þess vegna óþarfi, að ríkisvaldið blandi sér inn í þann atvinnurekstur, sem einstaklingarnir hafa til þessa haldið uppi.

Mörgu af því, sem hv. þm. Vestm. sagði, hefi ég svarað með þessum orðum mínum í tilefni af ræðu hæstv. forsrh. Það eru þó örfá atriði, sem ég vildi sérstaklega víkja að. — Hv. hm. gat um það og hélt, að það væri sönnun fyrir sínu máli, að formaður síldarbræðslustöðvarinnar á Siglufirði hefði skýrt sjútvn. frá því, að hann yrði á hverju ári að vísa frá viðskiptum við ýmsa útgerðarmenn. Meðan þessi verksmiðja hefir verið starfrækt og meðan ekki eru líkur til þess, að hún verði ekki starfrækt, þá eru þetta engin rök í málinu, því, verksmiðjan afkastar ekki meiru, þó hún sé rekin af ríkinu. Hv. þm. hélt, að hætta væri á því, að þessi starfræksla yrði látin niður falla, þegar árferði væri vont. Ég vil benda honum á, að árin 1932 og 1933 hafa verið með einsdæmum vond. Árferðið 1932 var svo illt, að fyrirsjáanlegt var, ef ekki yrði kippt í lag frá því, sem líkur bentu til, þá yrði slík verksmiðja aldrei rekin nema með tapi. En samt sem áður var verksmiðjan rekin það ár, og sömuleiðis í fyrra. Og það eru engar líkur til, að árferðið 1934 verði verra en 1933, hvað þá 1932. En úr því að þessi verksmiðja var rekin í versta arferði, er engin ástæða til að ætla, að hún verði ekki rekin í betra árferði. Hv. þm. hefir einmitt sjálfur fært rök fyrir því, að ekki sé nauðsynlegt að bera fram slíka till. sem hér liggur fyrir til þess að tryggja þessa starfrækslu.

Þessi skýri maður hefir hér látið villast og dregið illan dám af meðnm. sínum, hv. 1. þm. S.-M., hv. þm. Barð. og hv. þm. Ísaf. Hv. þm. sagði, að eðlilegast væri eða heppilegast, að ríkið tæki að sér rekstur þessarar verksmiðju, úr því að ríkið væri komið út á þessa braut. Út á hvaða braut er ríkið komið? Út á þá braut, að Alþingi hefir viðurkennt, að það sé mikil og vaxandi þörf fyrir því að útvega nýjan markað fyrir þessa framleiðsla landsmanna. Og til þess að fullnægja þeirri þörf hefir þingið samþ., að ríkið legði fram fé til þess að reisa nýjar verksmiðjur, en ekki til þess að kaupa eldri verksmiðjur. Ég vil undirstrika þau orð hv. hm. Borgf., að hugsun hans og mín og flestra flokksbræðra okkar hefir verið sú, að ríkið innti þessa starfrækslu af hendi meðan einstaklingarnir geta það ekki, en um leið og útvegsmenn reynast hafa fjármagn, vilja og getu til þess að taka hana að sér, þá afhendi ríkið heim þessa starfrækslu. Nú vil ég spyrja hv. þm., hvort það sé hans vilji, að ríkið eignist allar slíkar verksmiðjur, og vænti, að hann svari því skýrt og skorinort, eða hvort hann vilji, eins og við flokksbræður hans, að ríkið undirbúi jarðveginn fyrir útvegsmenn, af því að þeir séu sem stendur ekki færir um það sjálfir, til þess að þeir geti svo síðar tekið við. Það eru náttúrlega engin rök í málinu, að ríkið eigi að eiga og reka þessa verksmiðju af því að það á aðra verksmiðju. Eða ætla hv. þm., ef ríkið einhverntíma skyldi eignast t. d. einn togara, að slá því föstu, að úr því ríkið á einn togara, eigi það að eiga þá alla?

Hitt, að ríkið eigi að eigi þessa bræðslustöð af því, að þjóðarnauðsyn mæli með, að hún sé rekin, eru rök, sem tekin eru úr handbók sósíalista, sem þessi hv. þm. hefir villzt í og gælpzt á. Með sömu rökum á ríkið að eiga öll eða flest framleiðslutæki, þ. á m. alla vélbáta Vestmannaeyinga.