04.12.1933
Sameinað þing: 8. fundur, 47. löggjafarþing.
Sjá dálk 457 í D-deild Alþingistíðinda. (1420)

57. mál, varalögregla

Jakob Möller:

Menn hafa haldið því hér fram, að varalögreglunnar væri aðallega þörf vegna kommúnista. Þetta er rétt, það sem það nær. En hennar er ekki aðeins þörf vegna þeirra manna, sem kalla sig kommúnista, heldur líka þeirra manna innan Alþfl., sem að vísu ekki kalla sig kommúnista, en hafa sýnt sig að því að vera engir eftirbátar kommúnista í því að beita ofbeldi í pólitísku hagnaðarskyni. Hv. 2. þm. Reykv. er ágætt dæmi um þessa menn innan Alþfl. Til þess að rökstyðja þetta vil ég rifja upp aðaldrættina í forsögu málsins. Sem kunnugt er kom það nokkrum sinnum fyrir á síðustu árum, að smáóspektir urðu í sambandi við bæjarstjórnarfundi; þá söfnuðust saman nokkrir menn, aðallega unglingar, sem trufluðu fundina með stóryrðum og háreysti. Þessir unglingar héldu, að þeir yrðu meiri menn við þessi ólæti; stundum gekk þetta svo langt, að þeir tóku hina og þessa hluti, svo sem glös og stóla, og hentu þessu í hverja sem fyrir urðu, en unnu þó aldrei mikinn skaða með því. Fyrir 9. nóv. í fyrra má segja, að ekki væri ástæða til alvarlegra varnarráðstafana. Þá skeðu þeir atburðir, að hv. 2. þm. Reykv. fór að beita sér fyrir samskonar liðssafnaði og kommúnistar höfðu áður haft með höndum. Og framkvæmdirnar hjá hv. 2. þm. Reykv. voru ólít verklegri en þær, sem áður höfðu þekkzt. Hann er formaður stærsta verkalýðsfélagsins hér í bænum, og fyrir þennan dag lét hann boð út ganga, að sem flestir félagsmenn skyldu mæta á bæjarstjórnarfundi, og ekki var farið leynt með það, að tilgangurinn væri sá, að beita ofbeldi, ef bæjarstj. léti ekki að vilja þessara manna. Ég vil leyfa mér að benda á misræmið í þessum gerðum Alþýðuflokksforingjanna og hrópum þeirra nú um það, að þeir séu sjálfsagðir forsvarsmenn lýðræðisins í landinu. Það er vitað af öllum, að bæjarstj. Rvíkur er kosin samkv. lýðræðisreglum. Og það er ofbeldi gegn þessari lýðræðisstjórn, sem hv. 2. hm. Reykv. stofnar til með liðssamdrætti sínum. Það er hreint og beint skoplegt, þegar þessi sami hv. þm. er nú að skreyta sig og flokk sinn með lýðræðisfjöðrum. Ég skal til samanburðar benda á samskonar atvik og það, er hér varð 9. nóv., frá Danmörku, þar sem flokksbróðir hv. 2. þm. Reykv. stjórnar. Að vísu eru þeir aðeins flokksbræður að nafninu til. Það kom fyrir í Nakskov, að flokkur óaldarlýðs, með kommúnista í broddi fylkingar, gerði aðsúg að bæjarstj. þar og neyddi hana til þess að gera samþykkt um atvinnubætur, sem meiri hl. bæjarstj. var mótfallinn. Þessi samþykkt var að vísu felld úr gildi síðar. En sá flokksbróðir hv. 2. þm. Reykv., sem með völdin fer í Danmörku og er lýðræðismaður meira en að nafninu til, lét hlífðarlaust dóm ganga yfir þá óaldarseggi, sem þarna voru að verki. Síðan hefir ekkert slíkt verið reynt í Danmörku. En hér er allt annað uppi á teningnum. Fyrir 9. nóvember, þegar búizt var við smávægilegum ópektum af hálfu kommúnista, hafði lögreglustjóri talið það skyldu sína að gera varúðarráðstafanir fyrir fundina, t. d. að láta aðstoðarlið vera til taks, ef á þyrfti að halda. En nú, þegar formaður stærsta verkalýðsfélagsins safnar opinberlega liði fyrir fundinn, bregður svo undarlega við, að ekkert lið er til staðar. Ég staðhæfi, að þarna hafi verið að ræða um samantekin ráð milli lögreglustjóra og forvígismanna sócíalista. Ég hefi áður staðhæft þetta opinberlega, á vettvangi, þar sem lögreglustjóri gat borið hönd fyrir höfuð sér og afsannað orð mín með málshöfðun. Hann lét það boð út ganga, að hann ætlaði að höfða slíkt mál, en það er ekki komið enn. Þetta sannar það átakanlega, að staðhæfing mín er á rökum byggð. Lögreglustjóra bar skylda til þess að láta dómstólana sýkna sig af ákæru minni, því þarna er um að ræða þá stórkostlegustu misbeiting embættisvalds, sem hægt er að hugsa sér. Þegar á fundinn kom, varð fljótt uppvíst um tilganginn; það átti að þvinga meiri hl. bæjarstjórnar til þess að taka aftur samþykkt, sem hann hafði gert fyrir skömmu.1) Þeir jafnaðarmennirnir hafa sagt það oftar en einu sinni, að það þyrfti enga lögreglu, ef landinu væri stjórnað samkv. vilja alþýðunnar, en það þýðir í munni þessara manna, að stjórnarfarið ætti að lagast eftir duttlungum þeirra sjálfra. Það er auðvitað hægt að forðast allar óeirðir, ef alltaf er látið að vilja óeirðarmannanna. En það er ekkert lýðræði. Alþ. hefir sömu aðstöðu í landinu og bæjarstj. í bænum. Bæjarstj. er kosin samkv. fullkomnum lýðræðisreglum. Og í því tilfelli, sem ég hefi lýst, reyndi hv. 2. hm. Reykv. að kúga löglegt meirihlutavald, og nota til þess aðstöðu sína sem form. Dagsbrúnar. Ég er sannfærður um það, að hefði varalögreglan ekki verið sett á stofn til þess að halda óspektarmönnunum niðri, hefðu þeir farið að leika sama leikinn gagnvart Alþ. og þeir léku 9. nóv. á bæjarstjórnarfundinum. Því var svo sem hótað í umr. um lögreglumálin, en munurinn var sá, að þá var búið að stofna varalögreglu, og því varð ekkert úr hótuninni. Ekkert hefir heldur borið á óeirðum í sambandi við bæjarstjórnarfundi síðan. (HV: Eftir þennan dag fór bæjarstj. að fela sig uppi á lofti í Eimskipafélagshúsinu). Er hv. þm. að gefa í skyn, að eina ástæðan til þess, að hann hafi ekki endurtekið leikinn frá 9. nóv., sé sú, að hann hafi ekki treyst sér upp allar tröppurnar í Eimskipafélagshúsinu? Það skal tekið fram, að almenningur í bænum er langt frá því að leggja blessun sína yfir framferði hv. 2. hm. Reykv. og kumpána hans. — Hv. 2. þm. Reykv. hafði í hótunum um að stofna bardagalið fyrir Alþfl. En úr því varð ekkert. — Hv. þm. leigði sér húsnæði eftir 9. nóv. og tók að æfa lið þar, var meira að segja sjálfur með í þeim æfingum. En þetta lið lognaðist út af, því að hv. þm. hafði ekkert fylgi í flokki sínum til að stofna slíkt lið, en þó að hv. þm. hafi lítið fylgi í flokki sínum til slíkra framkvæmda, þá hefir hann þó, ásamt kommúnistunum, nógu marga fylgismenn til þess að beita stjórnarvöld lands og bæjar ofbeldi, ef engar varúðarraðstafanir koma til. Og 9. nóv. sýndi hv. 2. þm. Reykv. það, að hann er fús til samvinnu við kommúnistana. Þó er vitanlegt, að venjulega ríkir samkeppni milli þessara flokka, samkeppni um þá menn, sem hv. 1. landsk. gat um, — þá, sem stæðu milli Alþýðuflokksins og Kommúnistaflokksins. Og ráð, sem stýrði gerðum hv. þm. þá, var það, að hann vildi ekki sýna sig minni óspektarmann en foringjar kommúnista. Vafalaust hefir hann meðfram gert það af þeim ástæðum, sem hv. 1. landsk. drap á, nefnil. að hann fengi að fljóta ofan á, ef til byltingar kæmi, og yrði leyft að taka þátt í stjórnarstörfum.

Það þarf engum að blandast hugur um það, að varalögreglan er þörf stofnun, nauðsynleg og sjálfsögð stofnun. Áður en hún komst á fót, var sífellt verið að ónáða bæjarstj. með smáuppþotum, og þessi uppþot náðu hámarki sínu 9. nóv.

En síðari tilraunir hafa dottið niður máttlausar; ítrekaðar tilraunir til upphlaups og óeirða voru gerðar, en frumkvöðlarnir hurfu jafnskjótt frá fyrirætlunum sínum, er þeir vissu, að lögreglan var alltaf til taks og hafði góðan mannafla. Ég held, að hv. 2. þm. Reykv. hafi vitað af þessari eflingu lögreglunnar og vitað, að það var tilgangslaust að fitja upp á nýjum upphlaupum eftir 9. nóv. Þessar endasleppu tilraunir hafa einmitt sýnt það, hve mikil nauðsyn bar til þessara ráðstafana, og eins hvert gagn hefir orðið að þeim. Mér finnst það skoplegt, að Alþingi skuli verja svona löngum tíma til að ræða þessa till., sem brýtur í baga við landslög, því að sú skýring, sem hv. þm. Snæf. gaf á síðasta fundi, var vitanlega alveg laukrétt. Skilyrðum 6. gr. er auðvitað fullnaegt, er ráðh. hefir tekið ákvörðun sína, þó að ekki hafi fram farið full fjölgun. Varaliðs er þörf, þó að lögregluliðið sé 60 manns, og ekki síður, ef þeir eru færri. Enda er ástæðulaust að að hafa 60 manna fasta sveit til þess að sinna vanalegum lögreglustörfum innan bæjarins. Það er alveg tvímælalaust, að bæði aðaltill. og viðaukatill. koma í bága við lögin um lögreglumenn og ætti því alls ekki að bera þær undir atkv.

1) Hér virðist vanta skýringu á því, hver sú samþykkt var og hver rok voru fyrir henni, sbr. síðari ræður. JakM.