07.12.1933
Sameinað þing: 11. fundur, 47. löggjafarþing.
Sjá dálk 483 í D-deild Alþingistíðinda. (1438)

57. mál, varalögregla

Jakob Möller:

Það á við, að ég fari að mannvirðingum, eins og einhver jafnaðarmaður sagði á dögunum, og beini fyrst orðum mínum til hæstv. forsrh. Þótt hann sé ekki við, skiptir það ekki miklu. Það verður hægt að flytja honum orð mín, og þau verða ekki þannig vaxin, að hann þurfi að bera af sér verulegar sakir.

Það er ekki rétt, að ég hafi sagt, að hann hafi sagt ósatt, þó að hann hafi ekki skýrt rétt frá. Á þessari röngu frásögn byggði hv. þm. að miklu leyti það, sem hann sagði um deiluna í fyrra. Hæstv. ráðh. sagði, að ekki hefði verið farið fram á að fá fé úr ríkissjóði til atvinnubótavinnu. En það var þó svo — og vitna ég það undir þá hv. 2. þm. Rang. og hv. 4. þm. Reykv., sem hæstv. ráðh. vísar líka til í sínum orðum —, að framlög úr ríkissjóði, þegar hér var komið, voru bundin því skilyrði, að það, sem frekar yrði lagt fram árið 1932, yrði dregið frá framlagi ríkissjóðs til atvinnubótavinnu á árinu 1933. Með þessu skilyrði hafði bæjarstj. þegar fengið 50 þús. kr. Og ráðgert framlag á árinu 1933 til atvinnubótavinnu var 150 þús. kr. Ef viðbótin hefði verið tekin, þá hefðu verið komnar 125 þús. kr. Hefðu þá verið eftir af væntanlegu framlagi til atvinnubóta á næsta ári aðeins 25 þús. kr.

Ég held því fram, að þetta sé sama sem að neitað hafi verið um framlag úr ríkissjóði, því að bæjarstj. var ekkert gagn að því að fá þetta fé til að eyða því í nóv. og des. 1932, sem þurfti að nota í jan. og febr. 1933.

Þrátt fyrir það, þótt bæjarstj. líti svo á, að hæstv. ríkisstj. hefði neitað um framlag, ætlaði bæjarstj. samt að láta vinnuna halda áfram með óbreyttu kaupi og sendi þess vegna til Landsbankans beiðni um lán, svo mikið, að hægt væri að hafa þetta svo. Þessu svaraði bankinn neitandi, og bréfið frá bankanum um þetta var lesið upp í byrjun þess bæjarstjórnarfundar, sem till. um kauplækkunina kom fram á, svo að bæði hv. 2. þm. Reykv. og allir aðrir vissu, að ástæðan til þess, að meiri hl. bæjarstj. tók þá ákvörðun að lækka kaupið, var eingöngu sú, að gersamlega var neitað um fé, bæði að láni í bankanum og sem framlag úr ríkissjóði. Þetta veit ég, að bæjarfulltrúar þeir, sem sæti eiga hér á þingi, munu staðfesta með mér. Og ég veit, að hæstv. stj. getur líka staðfest þetta. Hv. 2. þm. Reykv. er það fullkunnugt, að allt, sem hann sagði viðvíkjandi þessu í ræðu sinni, eru hrein og hein vísvitandi ósannindi af hans munni. Það eru líka visvitandi ósannindi, sem hann sagði um upphaf óspektanna 9. nóv. Að vísu var það rétt, að ég var byrjaður að tala, þegar óspektirnar hófust. En það var fjarri því, að ég væri í ræðu minni á nokkurn hátt að hnjóða í verkalýðinn, heldur hafði ég aðeins flutt hlutlaus ummæli um tildrög málsins. Ég veit, að þessu mun hv. 2. þm. Reykv. neita. En hann veit þó áreiðanlega, að óspektirnar byrjuðu frammi í anddyri hússins út af því, að menn fyrir utan ætluðu að ryðjast inn, og lenti í handalögmáli við lögregluna í anddyrinu. Þetta stóð ekkert í sambandi við mína ræðu. Þetta veit hv. þm. og allir, sem komu nálægt þessum fundi. Og allur lýður getur staðið hv. 2. þm. Reykv. að því að fara með visvítandi ósannindi um þetta atriði.

Um hræðslu mína 9. nóv. í fyrra sé ég ekki ástæðu til að fara að deila hér. En ég man, að það barst einhverntíma í tal á milli okkar hv. 2. þm. Reykv., hvort við ættum að fara í kapphlaup inn á Klepp. En ég tek hér með þá uppástungu aftur, því að ég er sannfærður um, að hv. 2. þm. Reykv. verður miklu fljótari að komast inn á Klepp heldur en ég.

Það er sjálfsagt ástæðulaust fyrir mig að svara meiru um þetta mál. Ég er búinn að leiðrétta það, sem hæstv. ráðh. sagði villandi frá, en sjálfsagt ekki með þeim ásetningi að segja villandi frá, heldur án þess að gera sér grein fyrir því, að sú frásögn var villandi og ekki rétt, að því leyti sem hann talaði um það, sem ég hafði sagt, og sem hann áleit sig leiðrétta. Ég er líka búinn að leiðrétta missagnir hv. 2. þm. Reykv. nægilega.