07.12.1933
Sameinað þing: 11. fundur, 47. löggjafarþing.
Sjá dálk 493 í D-deild Alþingistíðinda. (1444)

57. mál, varalögregla

Jón Pálmason [óyfirl.]:

Það má nú sjálfsagt segja, að það sé að bera í bakkafullan lækinn að fara að lengja orðræður um þetta mál. Eins og hv. síðasti ræðumaður sagði, þá er það ljóst að þetta mál er til þess borið fram og umr. um það haldið uppi dag eftir dag til tafar öðrum málum, að koma að pólitískum umræðum. Mér þykir þess vegna ekki rétt að kasta frá mér málfrelsi því, sem mér er hér veitt, og bið engan afsökunar á því, þó ég tali um þetta mál sem tilefni hefir gefizt til.

Það er nú svo með okkur, sem bústað eigum úti á landsbyggðinni í sveitum og friðsömum kauptúnum eða kaupstöðum, að við höfum í lengstu lög gert okkur vonir um, að atvinnulíf og önnur störf í þjóðfélagi okkar gætu farið fram með friði, og við þess vegna, þó fámennir séum, gætum lifað sem hamingjusöm þjóð. En þau aföll, sem friðurinn hefir fengið síðastl. ár, hafa nokkuð breytt skoðun okkar í þessu efni.

Það eru nú nokkur ár liðin síðan hér myndaðist hópur manna, sem að hætti erlendra skoðanabræðra sinna vildu varpa um koll núverandi þjóðskipulagi með byltingu. Þessi flokkur varð fljótt kunnur á Norðurlandi. Á Akureyri hefir hann m. a. haldið upp á afmæli rússnesku byltingarinnar 7. nóv. Það er nú kunnugt, að þessir menn hafa gert mikið að því að vekja upp tortryggni milli manna og stétta þjóðfélagsins. Margir vonuðu þó í lengstu lög, að hér væri ekki um annað né meira eða ræða en pólitískt glamur og gaspur, borið fram til þess að ná hylli óþroskaðasta hluta þjóðarinnar. En vonirnar hafa brugðizt, því þessi óheillastefna hefir náð allt of miklum tökum í þjóðlífinu, því miður. Og einkum fengu þó þessar vonir mikið áfall, þegar bardagi sá varð 9. nóv. í fyrra, sem vakti óhug manna um allar byggðir landsins. Sá bardagi hefir nú verið gerður mjög að umtalsefni í þessum umr., og vil ég því víkja nokkru nánar að honum. Hv. 2. þm. Reykv. og hv. þm. Seyðf., sem báðir hafa talað skörulega í þessu máli, sem vænta mátti, hafa báðir haldið því fram, að orsök til bardagans hafi verið till. sú um lækkun á kaupi í atvinnubótavinnunni, sem fram kom í bæjarstj. hér. Þeir hafa haldið því fram, að sú till. hafi vakið almenna andúð og gremju bæði hér og annarsstaðar. Ég segi nú ekkert um það, hvort þessi kauplækkun hefir verið réttmæt eða óréttmæt. Það kemur þessu máli ekkert við. Þótt bæjarstj. hefði ætlað að fremja stórkostlegt ranglæti, þá gat það þó aldrei réttlætt það, að borgurunum væri hótað líkamlegu ofbeldi til þess að fá meiri hl. bæjarstj. ofan af þessari ákvörðun.

En nú eru aðrir, sem hafa haldið því fram, og það er kunnugt öllum landslýð, að það hafi ekki verið alþýðan, sem í æstu skapi hafi hafið þennan ófrið, heldur lögreglan, og það eftir skipun lögreglustjórans sjálfs. Ég verð að vísu að taka það fram, að ég er þessu sjálfur ókunnur, en ég hefi orð hv. 1. þm. Reykv. fyrir þessu, sem lýst hefir þessu í ræðu hér á Alþ., og auk þess hefi ég séð þessu haldið fram í blöðum. það er sagt, að lögreglustjórinn hafi hafið þetta áhlaup. Það má þó teljast undarleg ráðstöfun að knýja eina 20 lögreglumenn fram til þess að berja á æstum múg og hafa ekkert annað lið en þá að baki sér. Nú hefir hv. 1. þm. Reykv. borið það fram, að lögreglustjórinn hafi staðið í samráði við þá menn, er ófriðinn hófu. Ég veit ekkert um hetta. En mér er sagt, að lögreglustjóranum hafi verið gefinn kostur á að mótmæla þessu utan þings, en hafi ekki gert það. Ég veit nú ekki, hvort þetta er satt. En sé það satt, þá er auðsætt, að hér grillir í það svartasta hyldýpi, sem sézt hefir hjá okkar þjóð. Og ég vil víkja því til hæstv. ríkisstj., sem að vísu virðist ekki vera viðstödd þessar umr., hvort hún hafi nokkuð í þessu gert. Það var ótvíræð skylda hennar að skipa þessum embættismanni að hreinsa sig af slíkum áburði, en gæti hann það ekki, þá að víkja honum frá. Og ég vil skora á ríkisstjórnina — og sé hún ekki viðstödd, þá veit ég, að henni verður færð sú áskorun — að láta þennan embættismann hreinsa sig tafarlaust, ef hann getur, af slíkum áburði, Að ég sný máli mínu til ríkisstj. í heild, en ekki til flokksbróður míns, hæstv. dómsmrh., eins, stafar af því, að ég álít, að ágreiningsmál sem þetta heyri undir alla ríkisstj., en ekki að ég vilji draga flokksbróður minn, hæstv. dómsmrh., undan neinum skyldum. En vel getur hæstv. dómsmrh. hafa orðið þarna undir og þá ekki át annars kost en að lúta meiri hl., eða þá að segja af sér. En hér er um svo alvarlega ásökun að ræða á hendur háttsettum embættismanni, að ekki má við annað una en að hann sé annaðhvort látinn hreinsa sig, eða fara úr embætti, geti hann það ekki.

Það er talið, að varalögreglan hafi kostað á fjórða hundrað þúsund kr. Þetta er mikið fé; um það eru allir sammála. Það er auðvitað hreinasta neyðarráðstöfun að verða að verja svona miklu fé til að halda hér uppi friði. En hverjum er það að kenna, að svo miklu fé hefir verið eytt til þessa? — ég hygg, að allir séu sammála um það, aðrir en byltingamenn, að ríkisvaldið verði að vera sterkasta valdið í okkar þjóðfélagi. En er þá sæmilegt, að jafnaðarmannafl. beiti sér fyrir því, að þeim sé bægt frá allri vinnu, sem ganga í lið með ríkisvaldinu? — Nú hefir hæstv. dómsmrh. upplýst, að þetta hafi verið gert bæði hér í bæ og annarsstaðar og að við þetta hafi kostnaðurinn af varalögreglunni orðið tvöfalt meiri en hann hefði þurft að vera. Ef hv. þm. Seyðf. er eins mikil alvara með að óska eftir friði og hann vill vera láta, þá ætti hann að beita sér fyrir því, að þessu yrði hætt. Og ég vil skora á hann að gera það. Ef þeir menn, er í varalögregluna ganga, eiga frjálst val um atvinnu sem aðrir menn, verður kostnaðurinn miklu minni.

Það var margt í ræðu hv. þm. Seyðf., sem gaf fullt tilefni til þess að ræða um grundvallarstefnur flokkanna hér. Hv. þm. talaði eins og það væri svo orðið hér í landi, að það, sem væri gert einum til gagns, væri öðrum til bölvunar. Þetta er nú ekki rétt. En væri það rétt, þá er auðsætt, að starfsemi þjóðfélagsins er komin út á hálan völl, sem þyrfti sem fyrst að komast af. Og það væri æskilegt, að fulltrúar Alþfl. vildu snúa á aðra braut. Þeir hafa hafið hér stéttabaráttu og talað um að skaka niður auðvaldinu, og það hafa þeir talið, að tækjst bezt með því, að alþýðan hefði sem hæst kaup. Baráttuaðferð þeirra hefir byggzt á því, að heimta hátt kaup, án þess að hugsa um leið fyrir því, að aðstaða væri til þess að borga það. Nú vil ég gjarnan óska þess, að kaupgjald mætti vera sem hæst, að atvinnulífið væri svo fjörugt, að atvinnuvegirnir þyldu það. En þessu er ekki svo háttað nú. Launakröfurnar hafa verið svo háar, að fleiri og fleiri hafa orðið að hverfa frá framleiðslunni og hópast til þorpa og kaupstaða, þangað sem fjölmennið er. Við þetta væri nú ekki svo mjög að athuga, ef fólkinu væri vís vinna á þessum stöðum. En því er nú ekki að heilsa, nema þegar allra bezt gengur. Af þessu leiðir svo atvinnuleysi það, sem útmálað hefir verið, og það með réttu. Fyrir allan landslýðinn verður það affarasælast, að ekki sé svo mjög keppt að háu kaupi, heldur fyrst og fremst að hinu, að koma atvinnuvegunum í það horf, að allir geti fengið þá vinnu, sem skapar sæmilega afkomu. Sú stjórnmálabarátta er heilbrigð, hverju nafni sem flokkar nefnast, ef hún vinnur að því, að öllum geti liðið vel. Ég held, að baratta hv. flm. þessarar till., sem mér er sagt að brjóti í bág við gildandi l., ef þeir halda henni áfram eins og þeir hafa rekið hana hingað til, leiði til niðurdreps og vandræða í þjóðlífinu. Eitt af því, sem þeir predika, er, að enginn einstaklingur fái leyfi til að vinna sig upp og verða sjálfstæður atvinnurekandi. Stefna okkar sjálfstæðismanna er fyrst og fremst sú, að öllum geti liðið vel og að sem allra flestir geti orðið sjálfstæðir atvinnurekendur, bæði til sjós og lands, og að allar auðsuppsprettur okkar, sjór, land og iðnaður, verði sem allra bezt notaðar.

Ég kem þá að því atriðinu, sem varð til þess, að ég kvaddi mér hljóðs fyrir nokkru síðan. Hv. þm. Seyðf., sem er greindur maður, hélt því fram, bæði beint og óbeint, að varalögreglunni væri haldið uppi hér af því sjálfstæðismenn — sem hann nú reyndar kallar íhaldsmenn — hefðu í hyggju að taka völdin í sínar hendur og vildu pa hafa logreglu til þess, með því að beita ofbeldi, að þeir gætu haldið öðrum flokkum í skefjum. — Hver, sem hlustar á hv. þm. Seyðf., finnur, að hann er greindur maður. En þá ætti það líka að vera ósamboðið honum að halda fram slíkri kenningu. Hv. þm. hlýtur að sjá það, ef hann hugsar vel um það, að það er ekki líkt stefnu Sjálfstæðisfl. að vilja vera ofheldisflokkur. Og ef sá flokkur færi inn á þá braut, þá er ég hræddur um, að lið hans myndi þynnast víðsvegar um land. Sjálfstfl. hefir nú yfirgnæfandi meiri hl. í Reykjavík. Ef hann væri ofbeldisflokkur, þá væri honum innanhandar að framkvæma þá stefnu án þess að hafa nokkra opinbera lögreglu. Þetta skilja og sjá allir greindir menn. sú „agitation“, sem á þessum vettvangi er hafin og farin er að kvíslast út um landið, slær sig sjálfa um koll, því að hún er of fávísleg til þess, að heilbrigðir menn geti látið hana blekkja sig. Enda leitast nú Sjálfstfl. við að fylgja vel þeirri stefnu sinni að koma á réttlátara stjórnarfari í þessu landi en verið hefir; og eins og nú horfir við, er það í raun og veru eina vonin til þess, að hægt sé á næsta ári að rýra að marki þá spillingu í stjórnarfari, sem ríkt hefir í landinu um skeið, að Sjálfstfl. nái meiri hl. í næstu kosningum. Ég tek ekki harðar til orða en þetta: eina vonin, því að það er vitanlega ekki vissa. Ég veit ekki, hvort Sjálfstfl. er nógu samstæður til þess, að vissa sé fyrir, að hann geti útrýmt þeirri spillingu, sem nauðsynlegt er að útrýma á þessu sviði. Ég vænti þess, að hv. þm. sjái og skilji það, að ef ætti að fara að halda uppi fjölmennri lögreglusveit, sem hafi það að markmiði að verjast pólitískum deilumálum á þeim grundvelli t. d., að henni væri beitt á móti jafnfjölmennum flokki eins og öllum Alþfl., eins og mér skildist hv. 2. þm. Reykv. gera ráð fyrir, þá er það svo dýrt bákn, að ég hefi enga trúu á, að slíkt sé undir nokkrum kringumstæðum hægt. En hitt ættu allir einlægir, sanngjarnir og réttsýnir menn að sjá, að nauðsynlegt er að halda uppi í hverju bæjarfélagi það fjölmennri lögreglusveit, að hún geti hvenær sem vera skal bælt niður óeirðir fámennra hópa, sem hafa það á stefnuskrá sinni að stofna til óeirða að óþörfu. Af þeim sökum finnst mér undarlegt, ef menn eins og hv. þm. Seyðf., sem lýsa yfir því hvað eftir annað, að þeir vilji berjast á löglegum og þinglegum grundvelli, — ef þeir geta ekki verið því samþykkir að styrkja lögreglu í hverju bæjarfélagi hæfilega, til þess að hún sé fær um að halda slíkum óeirðum niðri.

En það vil ég biðja allan þingheim að muna, sem og ætti að vera ljóst hverjum þeim, sem hugsar út í þjóðfélagsmál okkar lands, að grundvöllurinn undir friði í landinu er sá, að félagsmálum, stjórnmálum og viðskiptamálum sé á hverjum tíma veitt forstaða af heiðarlegum mönnum, og ekki sé gerður leikur að því að sýna neinum manni órétt. Hinn rétti grundvöllur undir friði er því ekki að kasta hundruðum þúsunda á ári hverju fyrir fjölmenna lögreglusveit. Hann verður bezt tryggður á þann hátt, að þeir, sem við þjóðfélagsmál fást, hugsi ekki um það að skara eld að sinni köku og verzla sig áfram, eins og ýmsir þingfulltrúar hafa undanfarið gert, heldur hugsi um það eitt, að vinna að þjóðfélagsmálunum fyrir þjóðarheill og af fullri alvöru, svo að ungum og gömlum, komun og körlum geti á hverjum tíma liðið svo vel sem frekast eru föng á. Væri vel, ef hv. flm. þessarar till. vildu á komandi árum vinna að þessu markmiði, en hættu að hafa stéttabaráttu fyrir kjörorð og það að granda þjóðskipulaginu o. s. frv. Það verður að viðurkenna, að í okkar þjóðskipulag er komið misræmi í atvinnuháttum, það er gallað og þarf endurbóta við. En því aðeins getur orðið um heilbrigðar endurbætur að ræða, að þeir, sem við stjórnmál fást, geri það sem drengilegir menn, en hugsi ekki fyrst og fremst um að brjóta sjálfum sér braut persónulega, heldur starfi með þeirri viðsýni, sem þörf krefur, liti yfir stéttabaráttuna og horfi yfir þjóðlífið allt.