07.12.1933
Sameinað þing: 11. fundur, 47. löggjafarþing.
Sjá dálk 501 í D-deild Alþingistíðinda. (1447)

57. mál, varalögregla

Thor Thors:

Frá því að ég talaði síðast í þessu máli, sem er nú nærri því fyrir viku, hafa ýmsir hv. þm. tekið til máls og gefið tilefni til andsvara. En með því að margir þessara þm. eru fjarstaddir, sumir sofnaðir, en aðrir dauðir, þá skal ég stilla orðum mínum mjög í hóf.

Ég vil þá fyrst víkja að hv. 1. þm. S.-M. Hann leyfði sér að halda fram, að aukning lögreglu hér í Rvík væri einungis Reykjavíkurbúum til tryggingar og hagsbóta. Þessu vil ég mótmæla. Aukning lögreglu í Rvík og varalögregla líka styrkir allt þjóðfélagið, því að það er vitanlegt, að ef stefnt yrði til óeirða hér í Rvík, þá myndu þær fljótt breiðast út um byggðir landsins. Og allar óeirðir í Rvík, sem yrðu svo kröftugar, að það tækist að brjóta niður ríkisvaldið, myndu hafa bein áhrif um landið þvert og endilangt.

Þessi hv. þm. sagði ennfremur, að það væri verið að leitast við að láta ríkissjóð greiða það, sem Rvík ætti að gjalda til lögreglu. En ég vil minna á það, að ríkisvaldið hefir um langt skeið haft talsvert mikil not lögreglunnar, þar sem það er ríkisvaldið, sem á að standa straum af öllum sakamálakostnaði, hvar sem er á landinu, en störf lögreglunnar hér í Rvík hafa á öllum tímum mjög gengið til þess að sjá um framkvæmd sakamálarannsókna. Það er því hin mesta fjarstæða, að ríkisvaldinu sé óviðkomandi sá kostnaður, sem gengur til lögreglunnar.

Þá hafa ýmsir hv. þm. fett fingur út í þá lögskýringu, sem ég gaf á l. um lögreglumenn, nr. 92 frá 1933. Get ég í rauninni svarað þeim öllum í einu, og skal gera það um leið og ég sný máli mínu til hv. 2. þm. S.-M., sem ætlaði sér þá dul, af því að hann bar fram brtt. við þessi lög á síðasta þingi, að áskilja sér einum rétt til að skýra þau.

Ég vil minna hv. þingheim á það, að það eru aðallega tvær stefnur uppi um lögskýringar. Önnur er sú, sem á lagamáli er kölluð hin „objektiva“ lögskýring, og má kalla „hlutræna“, sú, sem byggir á orðum laganna. Þetta er aðallögskýringin. Og það er aðeins þegar ekki verður stuðzt við hana, að leitað er til hinnar „subjektivu“, sem kalla má hina „hugrænu“ lögskýringu, en það er vilji löggjafans.

Nú er orðalag þessara l. svo ótvírætt, að það nægir að halda sig við hina hlutrænu lögskýringu og fara eftir orðunum einum. En jafnvel þótt svo hefði verið, að leita þyrfti til löggjafans um skýringu, þá vil ég vekja athygli hv. 2. þm. S.-M. á því, að hans vilji eins getur ekki verið vilji löggjafans í heild. Og hvernig svo sem þessi hv. þm. hefir skilið sjálfan sig, þegar hann bar fram þessar brtt. sínar, þá getur hann ekki komizt hjá því, að aðrir vilji skilja hann eftir því orðalagi, sem er á 1. Og orðin í 1. gr. l. „allt að“ geta aldrei samkv. almennri málvenju og heilbrigðri skynsemi þýtt það, sem þessi hv. þm. vildi vera láta. Orðin „allt að“ tákna, að það megi vera eitthvert bil til þess hamarks, sem l. geta um. Ég leyfi mér að fullyrða, að þessu sé náð, ef ákvæðum 2. gr. um fjölgun er fullnægt. En þar segir, að ríkið skuli taka á sig sínar greiðslur til lögreglunnar, þegar kominn er einn lögreglumaður á hverja 700 íbúa. Og um það atriði, sem er aðallega deilt um, hvenær heimild hafi skapazt til að stofna varalögreglu í Rvík, þá verð ég að telja, að það sé þegar búið er að fjölga lögregluþjónunum í Rvík til þess marks, sem 2. gr. ákveður, eða upp í 43. Og ég fullyrði því hiklaust, að þáltill. jafnaðarmanna ásamt brtt. hv. 1. þm. S.-M. við hana brýtur í bága við þessi 1., þar sem hún heimtar skilyrðislaust það frekasta hámark, sem gert er ráð fyrir í 1. Vil ég því beina því til hv. 2. þm. S.-M., sem kom ákveðið fram við setningu laganna í fyrra, að hann standi nú við sína skoðun og greiði atkv. gegn þáltill., sem tvímælalaust brýtur í bága við orðalag laganna. Iðrist hann hinsvegar sinna fyrri aðgerða í málinu, vil ég skora á hann að fara þinglega að og bera fram brtt. við l.

Hv. þm. Seyðf. byrjaði með því að staðhæfa, að meiri hl. þjóðarinnar væri á móti þessari lögreglu. Ég vil mótmæla þessu og benda til þess, að við síðustu kosningar voru það í rauninni tveir flokkar, sem þurftu að bera ábyrgð á þessari lagasetningu. Það var Sjálfstfl. og Framsfl., sem voru á síðasta þingi svo að segja sammála um þessa löggjöf. Þeir fengu 25700 atkv. við kosningarnar samanlagt. En flokkarnir, sem börðust gegn lögregluvaldinu, þ. e. sócíalistar og hálfbræður þeirra, kommúnistar, fengu samtals 9600 atkv. Ég vil því fullyrða, að dómur þjóðarinnar er skýrt upp kveðinn í þessu máli.

Þá vildi þessi mælski þm. tala í alvöru um þennan „liðsafnað“ Heimdallar, sem hann kallaði „Kveldúlfslið“. En ég sá á svip þessa hv. hm., að alvaran var ekki eins mikil eins og orðanna hljóðan. Þeir vita það nefnilega fullkomlega vel, hv. jafnaðarmenn, að þessi „liðsafnaður“ ungra sjálfstæðismanna, Sem þeir kalla svo, er engin hersveit, heldur einskonar íþróttafélag ungra sjálfstæðismanna. Og ég verð að segja, að það kveður nokkuð rammt að tortryggninni og hatrinu við lögregluvaldið, ef menn eru sagðir stofna til heræfinga fyrir það eitt að leggja ofurlitla stund á líkamsíþróttir.

En þessi sami hv. þm. varðist þess að minnast nokkuð á þann liðsafnað, sem sócíalistar höfðu hér í fyrra, þóttist ekkert vita og vísaði frá sér, sennilega til flokksbræðra sinna, en þeir hafa kunnað dyggilega að þegja um þetta.

Þá vildi hv. þm. finna að því við mig, að ég áliti rangt og óþarft og telja upp hitt og þetta, sem hefði mátt gera við það fé, sem farið hefir til varalögreglu. Ég finn að þessu af þeirri ástæðu, að mér finnst hað bera vott um vantraust á skilningi hv. þingmanna — stappa nærri oftrausti á einfeldni þeirra, ef hann heldur, að þeir skilji ekki tölur, nema þeim sé bent á byggingar og fyrirtæki. Það er eins og hann þykist vera fullorðni maðurinn, sem sé að kenna smábörnum fyrstu frumatriði um lágar tölur.

Þá spurði þessi hv. þm.: Hvaða umbætur eru það eiginlega, sem Sjálfstfl. vill? Ef ég ætti að skýra frá stefnumálum Sjálfstfl., gæti ég talað í alla nótt. En þess gerist ekki þörf. Til þess eru þau þjóðinni allt of kunn, enda ætíð tækifæri til að ræða þau. Ég get þó ekki stillt mig um að víkja að einstökum atriðum hjá hv. þm. Hann fór að tala um afnam bannlaganna sem flokksmál Sjálfstfl. En um ekkert mál er Sjálfstfl. eins klofinn og einmitt það mál, enda hefir það aldrei verið flokksmal og mun aldrei verða. Einhverjir helztu bannmennirnir á þingi eru einmitt sjálfstæðismenn, eins og t. d. hv. þm. Borgf.

Þá sagði sami hv. þm., að það ætti að veita áfengisflóði yfir þjóðina að henni nauðugri. En benda vil ég honum á það og öðrum flokksbræðrum hans, sem hafa sömu skoðun, að sú aðstaða er mjög einkennileg og kátleg, að þeir, sem jafnan guma mest af því að vera fullkomnir lýðræðismenn, vilja í þessu máli hafa vilja þjóðarinnar, sem lýsti sér í atkvgr., að engu. Til hvers eru fulltrúar þjóðarinnar að spyrja þjóðina um álit hennar í einu og öðru, ef þeir ætla sér að hafa það að engu? Slíkt sómir sér illa af hvaða hv. þm. sem er, því að við erum ekkert annað en fulltrúar þjóðarinnar, og vilji hennar verður jafnan að vera æðri vilja einstakra þm.

Út af því, sem hv. þm. talaði um fjandskap Sjálfstfl. við umbætur, vildi ég segja nokkur orð. Ekki þó, eins og ég vék að áðan, til að telja upp umbætur Sjálfstfl., þær sem hann hefir komið á og ætlar sér að koma á. En mig langar til að rifja upp nokkrar umbætur Alþfl. í staðinn.

Þá má fyrst minnast á eitt hið helgasta ástfóstur jafnaðarmanna, síldareinkasöluna, og allar þær umbætur, sem hún hafði í för með sér. Umbæturnar urðu þessar: milljónatap fyrir ríkissjóð, og sjómenn fengu ekki kaup sitt greitt síðasta árið. Svo hörmuleg var útkoman, að þótt sjómenn og útgerðarmenn hefðu gefið síldareinkasölunni síldina, þá hefði orðið tap á stofnuninni. Þá má minnast á þær umbætur, sem sócíalistar gerðu á fjarhag landsins árin, sem þeir studdu Framsókn til valda, þegar eytt var 14,6 millj. kr. fram yfir fjárlög og tekin um 1,5 millj. kr. að láni að auki.

Líka mætti minnast á umbætur þeirra í kaupgjaldsmálunum. Þeir hafa jafnan unnið vel og dyggilega að því, að hækka allt kaup í landinu. Um þetta væri allt gott að segja, ef atvinnuvegirnir þyldu slíkt kaupgjald, en á þá hlið málsins hafa sócíalistar aldrei litið. Annaðhvort hafa þeir ekki viljað líta á þetta, eða þeir hafa aldrei hugsað degi lengra fram í tímann. Velfarnaður verkalýðsins byggist ekki á þau kaupi í nokkra daga, heldur stöðugri og öruggri vinnu, en þeirri hlið umbótanna hafa þeir alveg gleymt. En það eru aðrar umbætur, sem foringjarnir hafa ekki gleymt, og það eru umbætur sjálfum þeim til handa. Bætt aðstaða foringjanna er aðalminnisvarðinn yfir starfsemi þessara stjórnmálamanna.

Hv. þm. Seyðf. sagði, að þeir menn, sem vinna við fyrirtækin, hefðu hag af ríkisrekstri. Já, síldareinkasalan sýnir það! Auk þess má minna á það, að ríkið geldur starfsmönnum sínum yfirleitt lægri laun en nokkurt einkafyrirtæki og hefir í þokkabót svipt starfsmenn sína þeim rétti, sem sócíalistar telja helgastan, verkfallsréttinum. Er því ekki furða, þótt þessi hv. þm. vilji leiða enn fleiri í ríkisfjósið og lengja stallinn.

Hv. þm. Seyðf. sagði, að ég hefði dregið í efa byltingarhug sumra leiðtoga sócíalista vegna vaxtarlags þeirra. Ég man það glögglega, að ég sagði um hv. forseta Sþ., að hann líti ekki út eins og byltingamaður. Mér hefir alltaf litizt vel og friðsamlega á hann, og það álit mitt á honum hefir fengið staðfestingu við að kynnast honum á kosningafundum í vor. Mér fannst hann vera ósköp þægilegur og góðlátlegur broddborgari. Og ég vil líka leyfa mér að efast um, að byltingahugurinn í hv. þm. Seyðf. sjálfum eigi við mikla alvöru að styðjast. Þetta eru eiginlega allt saman friðsemdarmenn, sem halda vilja allir í skipulagið og una svo glaðir við sitt. En af því að þeir tala af þessum byltingamoði, gæti vel komið fyrir, að einhver hluti þjóðarinnar tæki mark á þeim og hrifsaði jafnvel völdin úr höndum þeirra. Og undarlegt matti heita, að enginn sócíalista skyldi minnast á kommúnista, sem þó hafa einir allra flokka liðssamdrátt í hernaðarskyni.

Ég lagði ekki nema lítið eitt til hv. 2. hm. Reykv. Hann hafði verið að tala um, að ég hefði blásið mig upp. Þetta finnst mér koma úr hörðustu átt, því ef sú lýsing á við nokkurn hv. þm., er það hv. 2. þm. Reykv. sjálfur, enda þótt ekki þurfi nema lítinn títuprjón til að hleypa öllum vindinum út.

Hv. 2. þm. Reykv. sagði, að ég færi með lagakróka í þessu máli og ég teldi, að setja mætti upp varalögreglu, þótt engin fastalögregla væri fyrir. Ég hefi sýnt fram a, að í lögunum stendur, að fastir lögregluþjónar þurfi að vera „allt að tveimur“ á hvert þúsund aður en varalögregla er stofnuð, og þetta gerði hv. 2. þm. Reykv. enga tilraun til að hrekja.

Hv. 2. þm. Reykv. var að tala um, að hv. þm. V.-Sk. væri nazisti. Þetta er nú ekkert nýtt að heyra úr þeirri átt, en mér er fullkunnugt um það, að hv. þm. V.Sk. er góður og gætinn lýðræðismaður, sem enga tilhneigingu hefir til þess að beita ofbeldi, eins og þýzku nazistarnir gera.

Ég vil að lokum skora á hv. þm. að fella þessa till.ómynd, sem hér liggur fyrir. hún er markleysa ein og þinginu væri til vanvirðu að samþ. hana. á síðasta Alþingi varð samkomulag um þetta mái milli aðalflokkanna, og það væri því furðulegur hringlandaháttur að hlaupast frá því samkomulagi á svo óþinglegan hátt sem ráð er gert fyrir í till. þessari.