07.12.1933
Efri deild: 28. fundur, 47. löggjafarþing.
Sjá dálk 177 í D-deild Alþingistíðinda. (1455)

79. mál, síldarbræðslustöð Útvegsbanka Íslands hf á Öndundarfirði

Jón Þorláksson:

Ég hefi verið að velta því fyrir mér, hvort rétt sé að samþ. till. eins og þessa. Það er kunnugt, að ríkið hefir á síðari árum hlaupið í skörðin til að sjá fyrir því, að síldarbræðslustöðvum fjölgaði hér á landi eða ykju bræðslugetu sína, svo hægt væri að koma meiri síldarafla í lóg. Þangað til ríkisbræðslan var reist á Siglufirði var þessi atvinnuvegur í einstakra manna höndum, en þá þótti þörfin svo knýjandi fyrir aukna bræðslu, að hið opinbera gæti ekki skorazt undan að styðja að slíku. Þessari stefnu var haldið á síðasta þingi og stj. heimilað að kaupa aðra bræðslustöð á Siglufirði, af því að sýnilegt þótti, að ekki myndi verða starfræktar allar stöðvar þar. Þessi stöð, sem hér ræðir um, hefir verið eign Útvegsbankans og alltaf starfrækt að undanförnu, nema e. t. v. eitt sumar. Ef nú á að fara að ýta undir það, að ríkið kaupi þessa stöð, þá er ekki hægt að skilja það svo, að verið sé að auka möguleika til þess, að síld fáist brædd, því að ekki er neitt líklegt, að þessi stöð heltist úr lestinni. Hinsvegar er það vitað, að Útvegsbankanum hefir þótt erfitt að halda uppi þessu fyrirtæki, hefir haft það til sölu og leigt út á sumrum. Ef skilja á till. sem hjálp til Útvegsbankans, þá mætti athuga hana frá því sjónarmiði. En þá væri ástæða til að athuga aðrar ráðstafanir, sem eru brýnni, og kæmi þar þá ekki sízt til greina, skipun heimildar til seðlaútgáfu, sem er ekki enn komin í hendur Landsbankans. — Þessi till. leysir að óverulegu leyti vandræði Útvegsbankans, en veltir í staðinn öðrum eins yfir á ríkið. Held ég, að ekki sé rétt að setja stj. í þennan vanda að óathuguðu máli og að þetta sé yfirleitt ekki tímabært. Get ég því ekki greitt till. atkv. mitt.