21.11.1933
Neðri deild: 15. fundur, 47. löggjafarþing.
Sjá dálk 129 í B-deild Alþingistíðinda. (146)

2. mál, kosningar til Alþingis

Jón Pálmason:

Ástæðan til þess, að ég kvaddi mér hljóðs, eru þau andmæli, sem hafa komið fram gegn till. minni og hv. 2. þm. Skagf. á þskj. 69. Skal ég þá fyrst fara fáum orðum um þá skrifl. brtt., sem hv. þm. V.-Húnv. flytur hér. Hún er eins og menn vita í þá átt, að afnema þau undantekningarákvæði, sem eru á þessari tillögu. Ég er dálítið veill fyrir þessari breytingartillögu, því að þegar ég kastaði þessari till. upp fyrst, hafði ég engar undantekningar, en fyrir bendingar frá hv. meðflm. mínum setti ég þær í till., með tilliti til þess, að ekki er hægt að telja neitt athugavert við það, þó að þm. gangi úr einu embætti í annað, svo sem sýslumenn, prestar eða læknar. Eins er hugsanlegt, að þeir hafi stundað sérfræði í einhverri grein, og þá er tæplega rétt að láta till. ná til þess. En af því að ég tel það rétt, sem hv. þm. V.-Húnv.

sagði, að þessar undantekningar mætti ritfæra þannig, að fara mætti kringum þetta ákvæði, þá get ég gjarnan látið þessa till. hlutlausa.

Þá vil ég víkja fáeinum orðum að því, sem hv. frsm., þm. Snæf., sagði um þessa till. Hann fór viðurkennandi orðum um hana og sagði, að hún ætti rétt á sér. Mér kom það heldur ekki á óvart, af því að þessi hv. þm. er ungur maður og hefir hreinan og drengilegan hugsunarhátt. Er því ekki furða, að hann hafi opin augun fyrir þeirri spillingu, sem ríkt hefir bæði innan og utan sala þingsins á undanförnum árum, og hafi opin augun fyrir þeirri daunillu þoku, sem sveimað hefir kringum stjórnarháttu þeirra manna, sem segja má, að öllu hafi ráðið hér á landi undanfarin sex ár.

En af því að þessi hv. þm. viðurkennir þetta, þykir mér undarlegt, að hann skuli ekki vilja styðja þá tilraun, sem hér á að gera til þess að útiloka þessa spillingu. Hann tók svo til orða, að hann vildi láta almenningsálitið dæma um þetta, en ekki láta löggjöfina taka það til greina. En ég vil segja það, að almenningsálitið hér á landi er þegar farið að dæma þetta hart. Það er nú þegar komið svo, að fjöldi manna úti um byggðir landsins hefir megnan viðbjóð á þeirri stjórnmálastarfsemi, sem beitt hefir verið í þessum efnum undanfarin ár, og þess vegna vil ég, að löggjöfin hjálpi nú til, að heilbrigt almenningsálit fái að njóta sín á þessu sviði.

Þá vil ég víkja nokkrum orðum að því, sem hv. þm. fann þessari till. til foráttu, sem var sérstaklega það, að hún gerði ekki öllum jafnhátt undir höfði, því að þm. Rvíkur eða landsk. þm. yrðu að sætta sig við það, að varamenn þeirra tækju við þingmennskunni, en þeir gætu ekki boðið sig fram sjálfir. Þetta er rétt, en það stafar af því, að ekki eru varaþingmenn í öllum kjördæmum landsins, sem ég áliti það réttasta. En þetta misræmi er aðeins það, að þessir þm. yrðu sviptir þingmennsku í hæsta lagi 3–1 ár.

Hv. síðasti ræðumaður vék nokkuð harkalega að þessari till. og taldi hana engan rétt hafa á sér. Má vera, að hann meti það rétt, að hugarfar þeirra manna, sem sitja á þessu þingi, sé þannig, að þeir vilji ekki ganga inn á nýja braut í þessu efni, en með tilliti til þess, sem hann talaði um, að þessi till. væri ekki þannig úr garði gerð, að hún hindraði það, að þm. gætu notað pólitíska aðstöðu sína til að útvega sér stöður, sem ríkisstj. veitir ekki, t. d. við sérstakar stofnanir og einkafyrirtæki, þá er það rétt, að við höfum ekki vald á því að koma í veg fyrir, að þessi spilling geti þannig teygt arma sína víðsvegar út í okkar þjóðlíf, en það, sem fyrst og fremst er hér um að ræða, er það, að víða er það sýnt, að menn hafa notað þessa pólitísku aðstöðu sína til að ná sér í stöðu, og þótt ekki sé hægt að sanna þetta með fullgildum löglegum sönnunum í það eða það skiptið, þá mæla svo sterkar líkur með því, að ýmsir þm. hafi fengið embætti fyrir þingmennsku sína, að ekki er hæst að mæla á móti.

Viðvíkjandi því, sem hv. þm. sagði, að þessi till. væri „kosningabomba“, vil ég segja það, að það er ekki óeðlilegt, að getgátur í þessa átt komi frá framsóknarmanni, því að þeir hafa mesta æfingu í að kasta bombum, sem þeir meina ekkert með nema að ginna fáfróða kjósendur til sín.

Þá vil ég víkja nokkrum orðum að hv. þm. Barð. Hann talaði mikið um það, hve mikilsverð sú till. hans væri að hafa tvo kosningadaga í sveitum. Mér þykir þessi till. undarlega og get ekki fundið, að hún hafi þann rétt á sér, sem hann vildi láta vera, því að með þessu frv. er búið að búa svo um hnútana, að það er undantekning, ef til þess þarf að koma, að fólk, sem vill sækja kosningu, geti það ekki, ef það er heilbrigt og hefir skilyrði að öðru leyti til að koma á kjörfund. Og ef kosningadagar eru tveir, stefnir það í þá átt að gefa þeim undir fótinn, sem beita allskonar meðulum og jafnvel nauðga kjósendum til að nota kosningarrétt sinn, en það er skoðun mín og margra annara sjálfstæðismanna, að ekki sé rétt að ganga langt í að knýja menn til að nota sinn kosningarrétt, nema þeir sjálfir vilji.

En það, sem aðallega kom mér til að beina orðum mínum að þessum hv. þm., voru þær fávíslegu hnútur, sem hann lét falla í garð okkar sjálfstæðismanna. Og af því að ég er bóndi og fulltrúi sveitakjördæmis og stend undir merki Sjálfstfl. og innan hans vébanda, þá vil ég ekki láta þessum orðum hans ómótmælt. Hv. þm. hélt því fram, að með því að ganga á móti þessari till., værum við sjálfstæðismenn að brjóta niður vald sveitanna. Þessu mótmæli ég sem tilhæfulausri fjarstæðu. Það er nú orðið svo, að vissa er fengin fyrir því, að Sjálfstfl. hefir ekki minna fylgi í sveitum landsins heldur en aðrir flokkar. Það er heldur engin furða, þó að bændur séu nú loksins farnir að sjá, hversu trúa fulltrúa þeir hafa átt í þessum flokki, sem hv. þm. er fulltrúi í. Ég vænti þess, að hv. þm. og aðrir, sem svipaða hugmynd hafa í þessu efni, láti sér ekki þessa fjarstæðu um munn fara, hvorki í þingsalnum né utan hans.