07.12.1933
Efri deild: 28. fundur, 47. löggjafarþing.
Sjá dálk 179 í D-deild Alþingistíðinda. (1460)

79. mál, síldarbræðslustöð Útvegsbanka Íslands hf á Öndundarfirði

Bjarni Snæbjörnsson [óyfirl.]:

Það, sem hv. síðasti ræðumaður sagði í niðurlagi ræðu sinnar, að grundvöllur hefði verið lagður að því á undanförnum þingum að koma öllum síldarbræðsluverksmiðjum hér undir ríkisstjórn, er ekki rétt með farið að því er til mín tekur. Það, sem gert hefir verið, er þetta, að í færra var keypt síldarbræðslustöð á Norðurlandi af útlendingi, sem ekki hefir starfrækt hana undanfarin ár. Landsmenn gátu því ekki framkvæmt starfrækslu þessarar stöðvar nema með því að taka hana eignarnámi eða kaupa hana, eins og gert var. Eins er það, að þegar ríkið lét reisa síldarbræðslustöð á Norðurlandi, þá var það gert af því, að talin var brýn þörf á því og ekki álitið, að einstaklingar gætu reist stöðina á svo skömmum tíma sem nauðsynlegt var til að bæta úr vandræðum útvegsmanna. En hér er til umr. stöð, sem er í eigu Íslendinga sjálfra, sem sé Útvegsbankans, og hefir alltaf verið starfrækt að undanförnu. Mér finnst því það, sem máli skiptir, vera þetta, hvort stöðin verður starfrækt í framtíðinni eða ekki. Hv. 2. landsk. taldi vafasamt, að það gæti orðið. Hann hélt því fram, að ríkið yrði að taka að sér starfræksluna, til þess að greiða fyrir skipunum. En ef líkur væru til að stöðin yrði ekki starfrækt næsta sumar, af því að ekki fengjst leigjandi, mætti bæta úr því með því að heimila stj. að leigja hana. Væri það mikill kostur. (JBald: Þetta felst í till.). Já, en ég vil ekki heimila kaup að svo stöddu. Ef það kemur til mála seinna að kaupa stöðina, þá getur ríkið athugað, hvaða sparnaður gæti orðið að því að starfrækja hana í sambandi við ríkisbræðsluna. Það er skóli, sem fengizt gæti með því að leigja stöðina í eitt ár. Er ekki vert að ráðast í slík kaup fyrr en sú reynsla er fengin. Allir vita, að síldarbræðslustöðvum er það sameiginlegt, að áhættusamt er að reka þær. Ef reksturinn er áhætta fyrir Útvegsbankann, eins og virðist vera, þar sem hann hefir heldur viljað leigja hana undanfarin ár, þá er það líka áhætta fyrir ríkið. Ég vildi þess vegna leyfa mér að koma fram með brtt. við þessa till., þó að seint sé, svo hljóðandi:

Tillögugr. orðist svo:

Alþingi heimilar ríkisstjórninni að leigja síldarbræslustöð Útvegsbanka Íslands h/f á Önundarfirði með hagkvæmum kjörum, ef ekki fæst annar leigjandi, svo að líkindi séu til, að stöðin verði ekki starfrækt, og starfrækja hana í sambandi við aðrar síldarbræðslustöðvar ríkisins, enda séu o. s. frv. eins og tillögugr. er.