08.12.1933
Sameinað þing: 13. fundur, 47. löggjafarþing.
Sjá dálk 545 í D-deild Alþingistíðinda. (1480)

84. mál, áfengismálið

Forseti (JBald):

Það er nú ekki venja að krefjast þess, að svo margir hlýði á umr. sem þarf til þess að gera ályktanir. Ég tel víst, að margir þm. séu hér á næstu grösum, þótt þeir sitji ekki í sætum sínum. (Hringir). — Óskar hv. 2. þm. S.-M. að halda afram ræðu sinni? (IP: Svo framarlega sem fundinum verður ekki frestað).

Mér hefir borizt svo hljóðandi skjal, undirritað af níu þm. (ÓTh, BJ, PM, GÍ, BÁ, JJós, ÞÞ, JÓI, MJ):

„Undirritaðir þingmenn óska þess, að umræðum um tillögu til þál. um áfengismálið verði tafarlaust slitið“.

Það hefir venjulega verið skilið svo, þegar slíkar till. sem þessi hafa verið samþ., að þá fengju þeir að tala, sem komnir væru á mælendaskrá. Nú eru á mælendaskrá 14 þm., og eftir þingvenju ættu þeir allir að fá að tala, en svo ekki fleiri. Ég vil því skilja þessa till. svo, að farið sé fram á, að umr. verði slitið þegar þessir 14 þm. hafa lokið ræðum sínum. Með þessum forsendum verður gengið til atkv. um kröfu þessara níu þm.