08.12.1933
Sameinað þing: 13. fundur, 47. löggjafarþing.
Sjá dálk 548 í D-deild Alþingistíðinda. (1494)

84. mál, áfengismálið

Ingvar Pálmason [óyfirl.]:

Það leit út fyrir, að flótti ætlaði að bresta í lið Bakkusar, en nú hefir þó einn þeirra lýst því yfir, að hann vilji hér standa þar til yfir lýkur. Það er einkennandi fyrir hv. flm., að þeir vilja ekki hlusta á, hvað andmælendur þeirra hafa að segja. (ÓTh: heim hálfleiðist að hlusta á þá). Það er skiljanlegt, að heim leiðist, þegar búið er að sýna fram á, að þeir eru með þessu framferði beinlínis að fremja lögleysu, enda hafa þeir mjög slæman málstað.

Hv. 1. flm. hefir kvartað undan því, að þessu máli hafi verið sýnt tómlæti. En ég get sýnt fram a, að ef einhverjir hafa sýnt tómlæti, þá eru það flm. sjálfir. Ég vil minna á, að frv. var borið fram í Ed. um miðjan síðasta mánuð. Síðan liðu 15 dagar þar til nál. var skilað og það voru einmitt meðmælendur frv., sem drógu málið svo á langinn. Svo var það 3 dögum seinna tekið á dagskrá fyrir tilmæli mín. En hv. flm. voru búnir að sannprófa það, að frv. mundi ekki ganga í gegnum d., svo að þeir gerðu allt til þess að tefja málið, svo að ekki yrði hægt að afgreiða ráð á þinglegan hátt.

Þá datt þeim það snjallræði í hug, að ekki væri útilokað, að meiri hl. fengist í Sþ. Og að þessu var svo gengið með slíku offorsi, að virt var að vettugi skipulag á þingi. Vitanlega átti þetta frv. að ganga í gegnum d. í 3 umr., en þegar hv. flm. höfðu sannprófað, að málið kæmist aldrei í gegnum báðar deildir, þá er það látið ganga til Sþ., til þess að reyna að fá þm. til að samþ. það. (JJós: Samkvæmt þjóðarvilja). Það verður minnzt á þjóðarviljann síðar. Annars vil ég minna hv. þm. á það, að það er ósiður að vera að grípa stöðugt fram í fyrir ræðumanni. Hv. þm. er ekki svo klökkur í máli, að hann geti ekki beðið um orðið og notað sinn ræðutíma til andsvara. (JJós: Það var ekki mín meining að fipa fyrir ræðumanni).

Ég verð að segja, að það er einkennileg aðferð, sem andbanningar nota við þetta mál, þar sem þeir brjóta niður það skipulag á Alþ., sem enn gildir, og hin eina afsökun, sem þeir hafa, er sú, að þeir séu að fullnægja með því þjóðarviljanum. (JJós: Hún er líka gild). En hvernig er svo þessi þjóðarvilji, sem þeir eru stöðugt að hamra á ? Hann er dreginn út af þeirri atkvgr., sem fram fór 21. okt. síðastl. En þá greiddu, eftir því sem ég kemst næst, tæp 50% af atkvæðisbærum mönnum og konum atkv. Og ef við svo athugum niðurstöðuna af atkvgr., þá kemur í ljós, að í 13 kjördæmum er meiri hl. mótfallinn afnámi bannsins. Af þessum 27 þús., sem greiddu atkv., eru 15600 með afnámi, 11726 á móti. Þessi tölumismunur á andbanningum og bannmönnum er nálega allur úr Reykjavík. Í öllum kjördæmum utan Rvíkur munar aðeins 50 atkv. Og ef það er tekið með í reikninginn, hversu erfitt þessi kjördæmi áttu með að komast á kjörstað og ef öll atkv. hefðu komið fram við kosninguna, þá hefði þjóðarviljinn litið öðruvísi út en nú. (JJós: Ef, ef . . ). Já, ég segi „ef, ef“, af því að valinn er alóheppilegasti dagur fyrir þessi kjördæmi, þegar þess er gætt, að þetta er að haustlagi og víðast hvar svo ástatt, að kvenfólk á sveitabæjum á þá alls ekki heimangengt eða á mjög erfitt með að neyta síns kosningarréttar. Og þegar þess er gætt, að kvenfólk er yfirleitt ekki eins hneigt til þess að fá sterka drykki inn í landið, þá má álykta um þá, sem heima sátu, að hlutföllin milli þeirra hafi ekki verið þau sömu, heldur hafi meiri hl. þeirra verið með banninu.

Ég tel þetta því hrópyrði hjá hv. flm., þegar þeir tala um, að fullnægja verði þjóðarviljanum með afnámi bannsins. Það er vafasamt, hvort það er á rökum byggt, vegna þess, að það var ekki hinn sanni þjóðarvilji, sem fram kom 21. okt.

Ég skal játa, að eftir því, sem málið liggur fyrir, þá höfum við ekki annað að halda okkur við en þessa atkvgr. Og það má vera, að við verðum neyddir til að taka hana gilda. Það má vera, að bannið verði afnumið, en ég verð að segja, að úr því hinn svonefndi þjóðarvilji er eina hálmstráið, sem andbanningar hanga á, þá er það ekki sterkt vopn, því að það er mjög tvísýnt um þjóðarviljann í þessu efni. En þó svo færi, að bannið yrði afnumið, þá er önnur hlið á þessu máli. Það er sú hlið, sem tekur til ákvarðana um misnotkun afengis. Þessi hlið málsins er alvarleg, en hv. flm. vilja alveg ganga framhjá henni. Þeir vilja opna allar gættir fyrir sterkum drykkjum án þess að reisa nokkrar skorður við misnotkun þeirra. Mér var svarað því í hv. Ed., þegar ég bar þetta fram þar, að það væru skorður í núgildandi löggjöf. En hvernig hafa þessir menn lýst núgildandi áfengislöggjöf ? Þeir hafa lýst henni þannig, að hún væri með öllu óhæf. Hvernig geta þeir nú haldið því fram, ef veita á sterkum drykkjum inn í landið, að núv. áfengislöggjöf sé nógu fullkomin til þess að fyrirbyggja misnotkun þeirra. Þetta dæmir sig sjálft og þarf ekki að eyða orðum að því. Þegar sú stund kemur, að Alþingi tekur endanlega ákvörðun um að leyfa innflutning sterkra drykkja, þá verður það líka að gæta þeirrar sjálfsögðu skyldu sinnar að setja svo viturlega og vandaða löggjöf sem kostur er á og taka þá til athugunar þá reynslu, sem fengizt hefir af hinni lélegu áfengislöggjöf, sem við búum við nú.

Ég hefi aldrei deilt neitt um það, að núv. áfengislöggjöf sé ekki með öllu óviðunandi, en ég kannast ekki við, að eina ráðið til þess að bæta úr ófullkomleika hennar sé að leyfa innflutning enn sterkari drykkja en nú eru leyfðir. Það er því sannarlega ekki með heilindum sagt, þegar verið er að tala um þá brýnu nauðsyn, sem sé á að leyfa innflutning sterkra drykkja, og að það sé gert til að bæta ástandið, sem nú er í landinu, heldur virðist sem annað liggi hér á bak við. Það virðist vera svo, að þjóðaratkvgr., sem fram fór 21. okt., sé nú notuð til þess að berja fram þann óheillamálstað, sem þessir þm. á undanförnum þingum hafa barizt fyrir án þess að sækjast þá að nokkru leyti eftir að vita, hvað þjóðin segði. Þeir grípa þetta hálmstrá nú í þinglokin og ætla á alveg óviðeigandi hátt að svala þessari þrá sinni, af hvaða rótum sem hún er runnin, um að fá leyfðan innflutning sterkra drykkja, og það án þess að láta sér detta í hug að gera nokkrar minnstu varúðarraðstafanir til þess að sporna við öllum þeim illu afleiðingum, sem af slíkri ráðstöfun mundu leiða. (JJós: Vill hv. þm. ekki lesa till.?). Ég hefi lesið hana, og ég segi það alveg eins og er, að ég hefi enga trú á því, að stjórninni, hversu velviljuð sem hún er, geti tekizt að semja reglugerð fyrir næsta nýár, sem geti afstýrt öllum þeim óhöppum, sem af auknum innflutningi áfengis geta stafað. Ég get ekki ætlazt til, að stj., sem mörgum störfum þarf að sinna, geti á nokkurn hátt fullnægt þeim skilyrðum, sem þingið verður að viðurkenna, að það getur ekki fullnægt sjálft. Það er ekki nema viðurkenning um vanmátt þingsins til að leysa þetta mál, að svona aðferð er notuð. (JJós: Það eru einmitt þeir, sem viðurkenna vanmáttinn, sem ekkert vilja gera). Ég fyrir mitt leyti geri það ekki, en ég kannast fyllilega við, að ef ég hefði álitið, að þetta væri rétt lausn á þessu máli, því hefði ég lagt því lið strax þegar það var flutt í Ed., en málið er ekki á því stigi nú, að ég geti það. (JJós: Hvenær skyldi það verða á hví stigi?). Það er hugsanlegt, að mér hefði ekki þótt það óviðeigandi, ef þessir hv. flm. hefðu hagað þáltill. á þann veg, að þeir hefðu skorað á ríkisstj. að undirbúa nýja áfengislöggjöf fyrir næsta reglulegt Alþingi, sniðna við afnám innflutningsbannsins á sterkum drykkjum. Svo skynsamlegri ráðstöfun hefði ég getað fylgt. En þessi leið nægði þeim ekki, því að það eina, sem þeir þrá, er að fá vínið óhindrað inn nú um nýárið, og það getur þá verið sök stjórnarinnar, ef áfengislöggjöfin fer illa úr hendi.

Hv. 1. flm. minntist á, að árið 1908 hefði verið greitt þjóðaratkvæði um samskonar mál og að þá hefði ekki verið hlaupið að því að fullnægja þjóðarviljanum, enda hefði þá verið nokkru öðru máli að gegna, því að þá hefði verið um að ræða að hefta vilja vissra manna, en nú ætti að leysa öll höft. Þetta þurfti ekki að skýra, af því að allir vita, að afnám þessara bannlagaslitra verka auðvitað þveröfugt við þær ráðstafanir, sem gerðar voru 1908. En nú skulum við athuga það, að á þinginu 1909, þegar bannlögin voru samþ., þá var svo fyrir mælt, að 3 ár skyldu líða þar til bannið færi að verka, og að þeim tíma liðnum að ég hygg nálega önnur 3 ár þar til bannið gengi fullkomlega í gildi. Ég vil leyfa mér að segja, að þetta hafi verið viturlegar ráðstafanir og að þær gætu verið þeim mjög góð fyrirmynd, sem nú eiga að framkvæma hinn svokallaða þjóðarvilja í þessu efni. Hér er um breyt. að ræða, sem hlýtur að vera töluvert áhrifamikil og ætti því að koma smátt og smátt. (JJós: Hvað álítur hv. þm., að mikið sé eftir af banninu?). Ég skal láta hv. þm. Vestm. eftir að reikna þau hlutföll, þar sem hann er mjög vel fær reikningsmaður. Það er nú algerlega bannaður innflutningur á vinum, sem hafa meira en 21% áfengi. Hve stórt brot það er í líkingareikningi, getur þessi hm. sagt sér sjálfur. (JJós: Þau sjást víst hvergi). Þessi lög eru sjálfsagt engin undanteknini frá öllum öðrum lögum, bæði guðs og manna, þannig, að þau séu ekki brotin. En úr því hv. þm. minntist á það, þá er rétt að minna á, að stefnubræður hans, andbanningar, hafa frá fyrstu tíð prédikað: „brjótum bannlögin og höfum þau að engu“, — og brotin á þessum lögum hvíla ekki sízt á bökum þeirra manna, sem hafa svipaða skoðun og hv. flm. þessarar till. Þessir menn og skoðanabræður þeirra hafa haldið uppi sérstöku málgagni til þess að hvetja menn til að hafa þessi lög að engu, og þeir mega vita það, þessir hv. þm., að það eru ekki ég og mínir líkar, sem segja „við getum haft whisky þegar við viljum“.— Ég þarf ekki að fara langt út í að sýna það og sanna, hve óviðeigandi er, að flm. skuli leyfa sér að nota þessa aðferð til að koma fram þessu áhugamáli sínu. Það hefir verið tekið svo glöggt fram af hv. þm. N.-Ísf. og hv. þm. Borgf., að ég sé ekki ástæðu til að bæta neinu þar við. Ég vil vænta þess, að Alþ. íslendinga sé ekki ennþá svo allri virðingu horfið, að það játi um sig spyrjast, að það samþ. annað eins þinghneyksli og þessi þáltill. er. Ég vil vænta þess, að Alþ. beri gæfu til að afstýra því óheillaráði, sem þessir vesalings menn hafa tekið, og mætti segja um þá, að þeir vita ekki hvað þeir gera. (JJós: Að vilja hlýða vilja þjóðarinnar; það er þetta óheillaráð). Þetta er fallegt slagorð, en það er margoft búið að sýna fram á það hér, að þetta er ekki nema að hlýða vilja þjóðarinnar að nokkru leyti. Við skulum hugsa okkur, að þjóðin vildi leyfa innflutning sterkra drykkja. (BJ: Ekki Suður- Múlasýsla). Nei, það er ekki vilji þeirra, sem þar búa, en það sem merkilegra er, það er ekki heldur vilji Barðstrendinga. Úr því að hv. þm. Barð. minnti mig á þetta, þá þykir mér rétt að fara dálítið nánar út í að sýna fram á, hvað það er, sem atkvgr. í haust hefir sýnt okkur. Hún sýndi afarmargt, og ég álit, að við eigum mikið óunnið úr henni, m. a. sýndi hún, að bannlögin eru verst haldin í Reykjavík og Vestmannaeyjum, og þar nálægt kemst Gullbringu- og Kjósarsýsla og svo þær sýslur, sem liggja hér nærlendis. Þegar lengra dregur frá þessum landshluta, þá breytist þetta, og kjósendur vilja ekki leyfa afnám áfengishaftanna. Þetta er ofureðlilegt, því að þar, sem áfengislöggjöfinni hefir verið sæmilega framfylgt, þar hefir þjóðin fengið þá reynslu af henni, að þrátt fyrir alla galla sé hún betri en ekki neitt. En þar, sem viðleitnin til að halda áfengislöggjöfina hefir hnigið í öfuga átt og hún hefir verið brotin sem víðtækast, eins og hv. þm. G.-K. hefir gefið í skyn hér, þar hafa kjósendur fengið þá reynslu, að bezt væri að losna við hana með öllu. hað er eftirtektarvert, að Vestfirðir skera sig alveg úr með þetta. Þar er ekki eitt einasta kjördæmi, sem vill afnema þessi lög, og það er af því, að þar hafa bannlögin verið haldin svo í heiðri sem hægt hefir verið, og þá er árangurinn sá, að menn vilja ekki losna við þau.

Ég álít sjálfsagt, að þetta komi fram her, því að ef það er nokkur hlutur, sem sýnir mönnum það sanna í þessu máli, þá er það einmitt þetta, sem kemur fram við atkvgr. Þessi útkoma er ekki óeðlileg, því að það er öllum vitanlegt, að frá því að bannlögin gengu í gildi hefir andstaðan gegn þeim verið sterkust hér í Reykjavík. Hér hafa blöð verið gefin út til þess að vinna á þeim, og árangurinn af þessari starfsemi andbanninga í þau 18 ár, sem hannlögin eru búin að vera í gildi að meira eða minna leyti, er sá hér í Reykjavík, að þeim hefir tekizt að fá þjóðarviljann móti bannlögunum. Í sveitunum, har sem bindindisstarfsemi hefir verið og sæmilegt lögreglueftirlit, þar hafa lögin verið haldin og fólk vill ekki missa af þeim.

Að lokum vildi ég beina þeirri fyrirspurn til hæstv. stj., hvort hún myndi, ef svo slysalega tækist til, að Alþ. samþ. þessa þáltill., sem hér liggur fyrir, treysta sér til að hafa hana að nokkru, þegar forsaga hennar er athuguð. Ég vildi fá svar hjá hæstv. ríkisstj. um það, hvort hún myndi sjá sér fært að framkvæma það, sem í þáltill. felst, því að ef það upplýstist, að hæstv. ríkisstj. treysti sér ekki til að framfylgja því, sem þáltill. fer fram a, þá tel ég alveg víst, að hv. flm. muni taka hana aftur, og það væri þeim líka til sóma.

Ég geri ekki ráð fyrir, að hvorki ég né aðrir geti sannfært hv. flm. um ógagn þessarar till., því að það virðist svo, sem margir af þessum mönnum hafi á undanförnum þingum starað á það sem eftirþráð takmark að geta afnumið bannlagaslitrin, sem við eigum nú við að búa. Ég geri ráð fyrir, að þeim sé þessi þrá svo í merg og bein runnin, að það sé hvorki á mínu valdi né annara að víkja skoðunum þeirra þar, en ég vænti þess, að allir þeir þm.; sem ekki hafa glæpzt til að verða flm. þessarar till., hafi svo opin augu fyrir því, hver háski þjóðinni og þingræðinu stafar af því, ef á að fara þá leið, sem hér er farið fram á, að farin verði, við að afgreiða jafnmikið tilfinningamál og þetta, og mál, sem jafnmikið hefir verið um deilt. Ég vil vænta þess, að það sé til nægilega mikill meiri hl. þm. til að afstýra þeim ófögnuði, að þessi till. nái fram að ganga, og hvernig sem fer um þetta mál í framtíðinni, þá verði aldrei hrapað að að afgreiða það á jafngeipilega óviðeigandi hátt og nú stendur til. Þess verður að gæta, að mikið veltur á því, að um leið og þessar síðustu leifar bannlaganna verða afnumdar, þá sé sett svo trygg og örugg varnarlöggjöf sem kostur er á um alla meðferð og sölu áfengra drykkja. Ég hygg, að ef þjóðin hefði haft minnsta hugboð um, að svo ætti að fara að í þessum málum, sem nú hefir verið stefnt til með þessari þáltill., há hefðu þau orðið færri atkv., sem hv. flm. hefðu flaggað með. Það var réttilega tekið fram af hv. þm. Borgf., að það eina, sem þjóðin hafði við að styðjast um afgreiðslu þessa máls á Alþ., þegar hún greiddi atkv. um það, voru ástæðurnar fyrir þáltill., sem fram kom í fyrra, og framsöguræða hv. þm. Vestm. Hv. þm. Borgf. sýndi ljóslega fram á, að bæði þáltill. og framsöguræða hv. 1. flm. þá voru algerlega í ósamræmi við það, sem hann og meðflm. hans ætluðu sér nú að fá framgengt. Ósamræmið var svo mikið, að ég get algerlega tekið undir með hv. þm. Borgf. og sagt, að hér sér hreint og beint um svik að ræða. Hefir verið sýnt fram á það bæði af mér og öðrum, að þótt litið sé á till. hv. flm. með mikilli velvild, framkvæmir hún þó ekki þjóðarviljann nema að nokkru leyti.