03.11.1933
Sameinað þing: 3. fundur, 47. löggjafarþing.
Sjá dálk 22 í B-deild Alþingistíðinda. (15)

Rannsókn kjörbréfa

Dómsmrh. (Magnús Guðmundsson):

Ég vil byrja með því að láta í ljós þá ósk, að umr. um þetta mál verði ekki langar. Ég hefi skilið það svo, að tilgangurinn sé að hafa þetta þing stutt, og ég veit, að fleiri en ég verða fyrir miklum vonbrigðum, ef mikill tími þarf að fara í smámuni eins og þá, sem hér um ræðir.

Það hefir komið fram í umr., að aðstoð hafi verið veitt við kosningar utan kjörstaðar eftir úrskurði stjórnarráðsins. og vil ég út af þessu taka það fram, að við mig hefir ekki verið talað um þetta, né heldur verið gefinn neinn skriflegur úrskurður um það af ráðuneytinu. Hitt kann að vera, þó að ég viti raunar ekkert um það, að talað hafi verið við einhvern starfsmann í dómsmrn. þessu viðvíkjandi. Annars vil ég skjóta því að hv. 4. landsk. í þessu sambandi, að það er í sjálfu sér ekkert ámælisvert, þótt einhver starfsmaður í stjórnarráðinu kunni að hafa haldið þessu fram. Ég hefi þannig átt tal við lögmanninn hér í Rvík, en hér býr svo sem kunnugt er ¼ allra kjósenda í landinu, og hann sagði mér, að hann hefði veitt aðstoð við þessar kosningar öllum þeim, sem þess höfðu óskað, eins og við aðrar kosningar. Lögmaðurinn hér í Rvík er því þeirrar skoðunar, að heimilt sé að veita aðstoð. — Ég álít, að þetta sé ekki rétt, en eins og ég sagði, hefir þetta verið gert óátalið hér í stærsta kjördæmi landsins, og ég hygg enda í fleiri kjördæmum. Lögmaður hér sagði mér þannig, að til sín hefði verið símað úr ýmsum kjördæmum viðvíkjandi þessu, og hann kvaðst hafa gefið öllum sama svarið, að þetta væri gert hér. Ég er ekki í vafa um það, að Alþfl. var vel kunnugt um það, að þessi aðferð var höfð hér; slíkt getur ekki hafa farið framhjá honum í 20 kjördeildum. Og hvað hefir Alþfl. gert út af þessu hér? Ekkert. Og það, sem látið er óátalið hér í Rvík, stærsta kjördæmi landsins, getur ekki verið ógildingarsök annarsstaðar.

Um vottana við kosninguna sagði lögmaðurinn mér, að fyrst framan af hefði hann aðeins haft tvo menn við þessar kosningar, svo að aðeins annar hefði verið vottur. Það hefði fyrst verið í sumar, að hann hefði haft tvo sérstaka votta við kosningarnar auk fulltrúa síns. Það er heldur ekki víst, að hafa þurfi votta við eftir gildandi 1. vegna þess gildis, sem embættisstimpillinn hefir, en ég tel það þó réttara, og mundi ég sjálfur hafa gert svo, ef ég hefði verið kjörstjóri.

Ég tók ekki eftir því, hvort frsm. minni hl. kjördeildarinnar gerði þá till. í þessu máli, að kosningin yrði tekin gild, en mér skildist þó svo, og vil ég bera fram þá viðaukatill., að málinu verði að öðru leyti vísað til kjörbréfanefndar. Kosningin er ekki nákvæmlega lögum samkvæm, þótt hinsvegar sé ekki um neina slíka galla að ræða, að til mála geti komið að ógilda kosninguna eða fresta að taka hana gilda, en hinsvegar rétt, að kjörbréfan. fái þessi atriði til athugunar og geri við þau sínar aths., sem hún annaðhvort sendir hlutaðeigandi kjörstjóra eða stjórnarráðinu til frekari aðgerða.

Ég skil ekki þetta millistig, sem meiri hl. kjördeildarinnar vill hafa í þessu máli, að fresta að taka ákvörðun um kosninguna. Mér skilst, að það þýði helzt það, að meiri hl. sjái sér ekki fært að fella kosninguna úr gildi. En hvað á þá þetta millistig að þýða? Málið liggur mjög ljóst fyrir, og ef ógilda á kosninguna, er sjálfsagt að gera það strax, svo að kosning geti sem fyrst farið fram af nýju, en hitt er illa gert gagnvart kjördæminu, að halda fulltrúa þess lengi utan þings, án þess að menn fái neitt um það að vita, hvort kosningin verður ógilt eða ekki. Þeir þm., sem vilja fresta að taka gilda kosninguna, hafa það víst í huga, að slíkt sé refsing á hlutaðeigandi kjörstjóra, en ég vil benda þessum þm. á það, að refsingin kemur ekki í réttan stað niður; hún lendir fyrst og fremst á kjósendunum í Hafnarfirði en ekki á kjörstjóranum sérstaklega.

Ég skal að mestu leiða hjá mér ummæli hv. síðasta ræðumanns, sem voru utan við efnið, eins og svo oft áður. Ég vil þó segja það út af því, sem þessi hv. þm. sagði um misfellur í sambandi við kosninguna í Vestur-Skaftafellssýslu, að mér hefir þegar borizt rannsókn á þeim atriðum þess máls, sem um hefir verið kvartað, og eftir henni að dæma horfir málið svo að segja þveröfugt við við það, sem hv. þm. skýrði frá. Þar sem hinsvegar engin kæra hefir komið fram yfir kosningunni og kjördeildin leggur til, að kosningin verði tekin gild, álít ég ekki ástæðu til að fara út í þetta mál, en vil einungis segja hv. 4. landsk. það, að ég er þess hvergi varbúinn að hefja umr. um þetta mál.

Að lokum vil ég svo drepa á eitt atriði í sambandi við kosninguna í Hafnarfirði. — Hér liggja fyrir atkvæðaseðlar með stofnum, sem sagt er, að eigi við, og ef þetta er rétt, er um brot á kosningal. að ræða, og verður undirkjörstjórnin þá líka sek í málinu, því að henni bar að taka stofnana frá og láta þá sér, svo að enginn vissi, við hvaða atkvæðaseðla þeir áttu. — Annars verða menn að fara varlega í þessum efnum. Það mun varla fara svo fram kosning, að ekki sé eitthvað við hana að athuga, meira eða minna, og þingið hefir réttilega haft þá reglu við ákvörðun um gildi kosninga að taka ekki annað þar til greina en það, hvað haft hefði áhrif á niðurstöðu kosningarinnar.