04.12.1933
Efri deild: 25. fundur, 47. löggjafarþing.
Sjá dálk 186 í D-deild Alþingistíðinda. (1511)

76. mál, blindir menn og afnot af útvarpi

Frsm. (Jónas Jónsson):

Ég held, að hv. 3. landsk. hafi ekki athugað brtt. n. nógu vel, því að í niðurlagi hennar stendur, að atvmrn. láti færa þessi útgjöld á fjárhagsáætlun útvarpsins, en eins og hv. 3. þm. Reykv. sagði, þá kemur þessi kostnaður endanlega niður á ríkissjóði, en af því að útvarpið óskaði eftir að hafa það svona, þótti n. rétt að breyta till. í þá átt. Nú á fjöldi manna erfitt með að greiða kostnaðinn við útvarp, svo að eftir því, sem mér skilst, ætti nú að vera búið að loka útvarpinu hjá mörgum notendum. En ef þingið færi að semja l. um það, að einhverjar vissar tegundir manna skyldu undanþegnar skatti, þá yrði erfitt fyrir útvarpið að halda góðri reglu um skattgreiðslu margra manna. Ég hugsa því, að hv. þm. sjái við nánari athugun, að hann hefir ekki skilið þetta rétt.