18.11.1933
Efri deild: 13. fundur, 47. löggjafarþing.
Sjá dálk 188 í D-deild Alþingistíðinda. (1533)

35. mál, sundhöll í Reykjavík

Jón Þorláksson:

Ég get gefið þær upplýsingar, að Rvíkurbær hefir þegar lagt fram til þessa verks 280 þús. kr. án þess að nokkuð kæmi í móti því af ríkissjóðs hálfu. Upphaflega var tilætlunin sú, að ríkissjóður kostaði þessar framkvæmdir að hálfu, en þá höfðu menn allt aðrar hugmyndir um kostnaðinn heldur en reynslan hefir síðar leitt í ljós. Á þessu ári hefir bæjarstjórn snúið sér til ríkisstj. og spurzt fyrir um hið fyrirhugaða 100 þús. kr. framlag. En með tilvísun til laganna hefir stj. ekki álitið sér skylt að greiða þetta fé af hendi. Það er mjög líklegt, að hún hafi þar nokkuð til síns máls, því að skilyrði var, að verkinu yrði lokið 1930. En að því er snertir möguleikana til þess að fullgera þetta mannvirki, sem öllum kemur saman um, að sé mjög æskilegt að verði sem fyrst tilbúið, og þar að auki er mjög leiðinlegt að láta húsið standa til engra nota, þar sem það er nú fullgert utan, en alveg óinnréttað, þá er ég hræddur um, að hugmynd hv. flm. hrökkvi nokkuð skammt, og mér virðist það tálvon, að einar 100 þús. kr. nægi til þess, að hægt sé að ljúka við verkið. Ég hygg, að það verði ekki mikill munur á því fé, sem til þarf að kosta í viðbót, og því, sem þegar hefir farið í þetta. Það er eftir að setja upp vélarnar, sem vatnið á að hreinsa í, og það á eftir að skipta niður rýminu og sundurhólfa í baðklefa, og yfirleitt er allt eftir að vinna til þess, að húsið verði nothæft innan. Þó að engin áætlun liggi fyrir um þetta allt saman, þá hygg ég, eftir þeirri þekkingu, sem ég hefi á hlutfallinu milli þess kostnaðar, sem það hefir í för með sér að útbúa hús utan og innan, að ekki verði komizt af með minna en 200 þús. kr. eða þar yfir til viðbótar. En ég geri hinsvegar ráð fyrir því, að ef þessar 100 hús. kr. fást — og eru þær þó lítið framlag úr ríkissjóði samanborið við það, sem bæjarsjóður hefir þegar lagt fram til verksins —, þá muni bæjarstjórn reyna til að ljúka verkinu, en þá vildi ég geta þess, að það er mjög æskilegt, að tíminn sé ekki aftur ákveðinn of naumum, og vil skjóta því til n., hvort ekki væri réttara að hafa tímatakmarkið rýmra en till. greinir, en þar er nefnt 1. október næstk., því að verkið er mjög seinlegt og tafir geta alltaf orðið af ófyrirsjáanlegum orsökum.