18.11.1933
Efri deild: 13. fundur, 47. löggjafarþing.
Sjá dálk 189 í D-deild Alþingistíðinda. (1535)

35. mál, sundhöll í Reykjavík

Jón Jónsson:

Ég er alveg samdóma hv. flm. um, að það sé mjög leiðinlegt, að þetta verk er ekki komið lengra áleiðis, úr því að ráðizt var í það á annað borð. En hinsvegar eru nú þeir tímar, að fyllsta ástæða er til, að við athugum okkar hag, áður en við stuðlum að því, að svona stór upphæð sé greidd úr ríkissjóði. Þess er að gæta, að fjárlögin fyrir næsta ár voru afgr. með greiðsluhalla; ég verð því að telja mjög illa farið, ef þetta aukaþing fer að auka þann halla með nýjum fjárveitingum, sem enginn veit, hvar staðar nema, ef á þá braut er farið. þetta er náttúrlega ákaflega gott og þarft verk, en mér finnst rétt að geyma það til næsta reglulegs þings, enda liggja ekki fyrir neinar upplýsingar frá bæjarstjórn, hvað hún ætlast fyrir í málinu. Einnig virðist séð fyrir þörfinni, a. m. k. til bráðabirgða, með lauginni í nýja barnaskólanum. Ég vona, að hv. d. taki allt þetta til athugunar, og líka það, að þetta virðist vera fjárveiting eingöngu og ekkert annað, og á því heima í fjvn., en ekki í fjhn., eins og hv. flm. stakk upp á.