18.11.1933
Efri deild: 13. fundur, 47. löggjafarþing.
Sjá dálk 196 í D-deild Alþingistíðinda. (1544)

35. mál, sundhöll í Reykjavík

Fors.- og fjmrh. (Ásgeir Ásgeirsson):

Hv. frsm. telur, að till. n. feli í sér lítið annað en það, sem stj. var áður búin að viðurkenna. Það er rétt, að á næsta ári kemur ekki meira til útborgunar en 100 þús. kr., og hinar seinni 100 þús. þarf ekki að greiða fyrr en ári eftir að verkinu er lokið. Ég verð að játa það, að með undirtektum stj. um 100 þús. kr. var teflt á tæpasta vað. En þar var ekki um annað að ræða en endurveitingu á fjárhæð, sem þegar átti að vera búið að greiða. Í öðru lagi var stj. skýrt svo frá, að 100 þús. kr. mundu nægja til þess, að sundhöllin yrði nothæf. Að 200 þús. þurfi til þess, eru nýjar upplýsingar fyrir stj. Það hafði verið gert ráð fyrir, að miklu minni fjárhæð dygði, og að eingöngu stæði á þessum 100 þús., sem upphaflega var um rætt. 400 þús. kr. höfðu virzt fullhá upphæð, hvað þá 500 þús., fyrir ekki margbrotnari byggingu, ekki sízt þegar þess er gætt, að hér er ekki um fullkomið baðhús með gufuböðum o. fl. að ræða. Það er hættuleg regla, sem fylgt hefir verið undanfarin ár, að hækka stöðugt útgjöldin og láta bíða að sjá fyrir tekjum á móti. Því vil ég fastlega vara við nú sem oftar. Þetta háttalag gat gengið nokkur ár í skjóli hækkandi verðlags og aukinnar framleiðslu. Þá fóru tekjur ríkissjóðs vaxandi og honum var kleift að standast ýmsar aukagreiðslur að skatta- og tollalögum óbreyttum. En nú er komið á þriðja ár síðan þessi aðstaða breyttist. Það er því í mikill ábyrgðarhluti að viðhafa aðra reglu um þetta en að þegar nýjar fjárveitingar eru samþ., þá sé jafnframt séð fyrir nýjum tekjum. Þeir, sem hafa viljann til framfara, verða líka að sætta sig við nýja og aukna skatta. Ég legg mikla áherzlu á það, bæði hér og í hv. Nd., að þessi regla sé haldin og aukning á þessum styrk bíði næsta þings, og að nú verði aðeins afgr. endurveiting á 100 þús. kr., sem raunar eru fallnar í gjalddaga gagnvart bæjarfélaginu.