18.11.1933
Efri deild: 13. fundur, 47. löggjafarþing.
Sjá dálk 197 í D-deild Alþingistíðinda. (1545)

35. mál, sundhöll í Reykjavík

Jón Þorláksson:

Hv. 4. landsk. beindi til mín nokkrum orðum, sumpart um undirtektir þær, sem þetta mál fékk á fyrri þingum, og sumpart um afgreiðslu málsins nú. Ég held, að hv. þm. misminni hrapallega, er hann gat um það, að sá flokkur, sem ég hefi þann heiður að vera í, hefði verið tregur til fylgis við málið, þegar það var tekið upp á þingi 1928. Ég átti þá sæti í þessari hv. deild, en ég get ekki minnzt þess, að á nokkurri tregðu til fylgis við málið hafi bryddað hér í d. Ég get reyndar játað það, að ég fylgdist ekki eins vel með því, hvernig umr. og atkvgr. fóru fram í Nd., en hv. þm., sem þá var ráðh., átti öllu betur kost á því, og má vera, að andmæla hafi þar orðið vart hjá einhverjum flokksmanna minna; það treysti ég mér ekki til þess að fortaka.

Hv. þm. spurði einnig um það, hvort ég treysti mér til að tryggja málinu fylgi í Nd., ef það yrði samþ. hér. Þar til er því að svara, að það er ekki síður sjálfstæðismanna að binda hendur einstakra flokksmanna sinna, í málum yfirleitt; það hefir heldur ekki verið minnzt á það á flokksfundi; en ég býst hinsvegar við, að menn telji till. sanngjarnar og réttmætar og greiði atkv. samkv. því. Þá spurði hann loks, hvort það gæti orðið til að greiða fyrir gangi málsins, að fresturinn yrði hafður 2 ár, í stað eins. Ég segi honum fúslega, að ef það getur oltið á einhverju slíku um málið, þá vil ég það gjarnan til vinna. Hinsvegar getur hann ekki vænzt þess, að ég fari að hera fram brtt. í þá átt, en ef hún kæmi annarsstaðar að, þá tel ég ekkert athugavert við það, og mun líklega ljá henni fylgi mitt. Hvort sem greiðslufrestur ríkissjóðs á lokaframlaginu er 1 eða 2 ár, mun bæjarsjóður verða að taka bráðabirgðalán til þess að inna þetta framlag af hendi, og munar þá aðeins einhverri dálítilli vaxtaupphæð. Eins og lögin og umr. frá 1928 bera með sér, héldu menn, að 200 þús. kr. mundu nægja til þess að koma upp sundhöllinni, og þar var fjárveitingin bundin því skilyrði, að Reykjavíkurbær legði fram aðrar 100 þús. kr. á móti framlagi ríkissjóðs. Nú er svo komið, að Reykjavíkurbær hefir lagt fram nær þrefalda þessa upphæð an nokkurrar aðstoðar af ríkissjóðs hálfu. Ég get ekki seð, að það sé hlutverk Rvíkur frekar en ríkissjóðs að hlutast til um það, að verkinu verði lokið að fullu. Það er nú auðséð, að mönnum skjátlaðist um það 1928, hve mikillar upphæðar væri þörf í heildinni. Ég geng þess ekki heldur dulinn, að ýmislegt má finna að grundvelli framkvæmdanna. Þó kemur þar til sérstaklega eitt atriði, sem bæjarstj. Rvíkur er vitalaus af, en var framkvæmt upp á ábyrgð ríkisstj. og eftir hennar kröfu, en það var, að ekki skyldi höfð ein laug, heldur tvær undir þessu þaki. Mótin eru þegar steypt, og þær eru þar báðar komnar og verkið allt er meira og kostnaðarsamara fyrir þessa kröfu frá ráðuneytinu, sem bæði var óþörf og óvenjuleg. Um það get ég vel borið, því að ég hefi erlendis komið í margar stofnanir af þessu tægi og hefi þar hvergi rekið mig á, að notaðar væru fleiri en ein laug. Það mætti vel finna ummælum hv. 3. landsk. stað, en það hlýtur bæði hann og aðrir að sjá, að ríkisstj. getur ekki skellt öllu upp á bæjarstj. eina og engan annan. Hann let svo um mælt, að Rvík hefði svo miklu betri aðstöðu vegna þess að hér er fjölmenni og má búast við, að hægara sé um vik við slíkar framkvæmdir. Þetta er vitanlega alveg rétt hjá hv. þm., en í slíkum bæ, sem hefir farið svo hraðvaxandi síðustu 25 árin, sem raun er um, er í mörg horn að líta. Þetta mál horfir mjög misjafnlega við. Margar óskir eru um það, að sundhöllinni verði komið upp, enda ber þar margt til. Hún er hinn ákjósanlegasti staður til sundkennslu, ekki sízt vegna þess, hve gott er að koma því við á vetrum, þegar margt er í bænum af aðkomufólki, og það er mjög miklu hentugra að því er tíma snertir að eiga kost á að fara í stofnun, sem er inni í bænum, heldur en alla leið inn í sundlaugar. En af hálfu íþróttamanna og annara bæjarbúa, sem áhuga hafa fyrir sundinu sem íþrótt og til heilsubótar, er lögð enn meiri áherzla á það, að bættur sé sundstaður utanbæjar. Svo að þótt sundhöllin væri komin upp, þá gæti bæjarstj. ekki komizt hjá því að bæta hinn staðinn, en til þess þyrfti hún og að verja stórfé. Það er ekki hægt að skjóta á frest alnauðsynlegustu endurbótum á sundlaugunum, því að þörfum bæjarbúa er ekki fullnægt, þótt þeim sé gefinn kostur á að fara í sundlaug inni í húsi í bænum um sumartímann. Til þess að geta haft veruleg not af þessu, þurfa þeir að geta komizt út úr bænum og bæjaróloftinu, og það þarf þá að vera til útisundstaður, helzt með volgu sjóvatni. Sundlaugarnar eiga í þessum efnum öllu hægara um vik en sundhöllin.

Þannig horfir þá málið við. Áhugamenn bera almennt fram mjög ákveðnar óskir um það, að sundhallarbyggingunni verði lokið, og sjá það, að hún muni verða lyftistöng undir, að æskulýður bæjarins og landsins læri sund, en það er bara byrjunin. Síðan á að taka við hollt loft og útilíf í sambandi við iðkun þessarar íþróttar, þegar menn eru búnir að læra hana.

Á mótbárur hæstv. fjmrh. get ég ekki fallizt, því að ef fresturinn gefur nægilegt svigrúm, þá má alltaf sjá fyrir tekjum til þess, að hægt verði að standa við loforðið. Eftir till. n. er ekki heldur farið fram á meira en uppfyllingu á þegar gefnu loforði, og ríkisstj. verður auðvitað að taka afleiðingunum af því að hér er allt orðið dýrara en upphaflega var til ætlazt, ekki sízt vegna þess, að kröfur ríkisvaldsins sjálfs hafa átt mikinn þátt í, að svo er komið um framkvæmd málsins.