21.11.1933
Neðri deild: 15. fundur, 47. löggjafarþing.
Sjá dálk 146 í B-deild Alþingistíðinda. (155)

2. mál, kosningar til Alþingis

Bergur Jónsson [óyfirl.]:

Ég hefi ekki sérstaka ástæðu til að vera langorður, því að svarræða hv. þm. Snæf. til mín var bæði flutt af hógværð og ekki veigamikil.

Mér þótti það einkennilegt, er hann sagði, að ef ég vildi bæta aðstöðu míns stjórnmálaflokks við kosningar, þá ætti ég að beita mér fyrir því að flytja fólkið úr sveitunum í kaupstaðina. Ég held, að sá flokkur, sem ég telst til, Framsfl., hafi ekki gert mikið til þess. Við höfum heldur viljað vinna að því, að fólkinu fjölgaði í sveitunum og gæti liðið þar sem bezt, og við munum líka gera það framvegis eftir mætti. Það er því algerlega ástæðulaust af hv. þm. að brýna mig á slíku.

Þá var sami hv. þm. að breiða sig út yfir það með miklum fjálgleik, að brtt. okkar hv. 1. þm. S.-M. væru ekki í samræmi við ákvæði frv., en þetta er algerlega rangt hjá honum og ekkert annað en hártoganir. Hv. þm. er svo góður lögfræðingur, að hann veit það vel, að hin almennu ákvæði frv. um kjörfund gilda vitanlega einnig um aukakjörfund: það kemur af sjálfu sér. Þar er aðeins um nafnbreytingu að ræða á kjörfundinum. Annars væri máske rétt að þóknast hv. þm. með því að smella inn í frv. ákvæði um þetta í 139. gr., með skriflegri brtt., þar sem sagt væri, að ákvæði um aðalkjörfund giltu einnig um aukakjörfund. En það er ástæðulaust.

Þá spurði hv. þm., hvort ákvæði 99. gr. frv., um þá kjósendur, sem greitt hafa atkv. utan kjörfundar og eru skyldir að tilkynna kjörstjórn nærveru sína, ef þeir eru viðstaddir á kjördegi, ættu einnig að gilda um aukakjördaginn, eða hvort hann ætti að tilkynna nærveru sína báða dagana. — Við þessu gildir auðvitað sama svarið og í fyrra tilfellinu; í frv.gr. er talað um, að hann tilkynni nærveru sína, „er kjörfundur stendur yfir“, og getur það átt við báða kjördaga. (EystJ: Í frvgr. er talað um nærveru kjósandans á kjörfundi). Þetta eru ekkert annað en hártoganir hjá hv. þm. Snæf. En auðvitað er velkomið, að ég þóknist honum með því að flytja um þetta skrifl. brtt., ef hann telur það formlegra. Ég tel það óþarft. Hv. þm. sagði, að samkv. þessari brtt. okkar um 2. kjördag, þá ætluðumst við til, að sveitafólkinu yrði líka smalað á kjörstað, eins og kaupstaðafólkinu. Ég benti á þau höfuðrök fyrir þessari till, að í strjálbýlum og veglausum sveitum væri aðstaða kjósenda svo slæm, að engri smölun yrði við komið á kjördegi, og þetta væri ráð til þess að hjálpa kjósendum í sveitum til kjörfundarsóknar á borð við kaupstaðabúa.

Þá taldi hv. þm., að í brtt. okkar væru sett nokkuð þröng takmörk fyrir því, að kjördeildir fengju heimild til að hafa 2 kjördaga, þar sem ætlazt er til, að óskir þurfi að koma fram um það frá 1/3 hluta kjósenda í kjördeildinni. Ég skal fúslega ganga inn á þetta með hv. þm.; en vill hann þá fylgja mér að málum til að breyta þessu til rýmkunar? Ég vildi í upphafi ákveða tvo kjördaga, a. m. k. fyrir öll sveitakjördæmi, en að athuguðu máli bjóst ég við, að þessi heimildartill. gengi frekar fram í þinginu. — Annars finnst mér undarlegt ósamræmi í því hjá hv. þm. Snæf., sem vill gera sveitakjördæmum erfiðara fyrir og átelur það, að þau fái heimild fyrir tveimur kjördögum, en talar hinsvegar um, að það hefði verið réttara að lögákveða tvo kjördaga líka fyrir þéttbýlu sveitirnar, þar sem nóg er af bílum til fólksflutninga.

Hv. þm. fullyrðir, að það hafi engar óskir komið fram um það frá kjósendum að hafa kjördagana tvo. Við getum fullyrt þetta hvor gegn öðrum og sagt: „klippt er það, skorið er það“. Ég hefi heyrt þessar óskir úr ýmsum áttum, sérstaklega frá kjósendum úr þeim héruðum, sem hafa lakasta aðstöðu til kjörsóknar; enda hlýtur fólkið að óska eftir auknum möguleikum til þess að geta neytt betur kosningarréttar síns, þeir sem á annað borð vilja kjósa. Ég tala ekki um þá kjósendur, sem helzt vilja sitja heima á kjördegi.

Eg sé enga ástæðu til að þræta lengi um það við hv. þm., hvort Framsfl. eða Sjálfstfl. hafi meira fylgi í sveitunum. Það vita allir, að Framsfl. hefir sitt meginfylgi í sveitunum, hvernig sem hlutföllin milli flokkanna hafa komið í ljós við síðustu kosningar. Og ég er viss um, að það verður svo framvegis. Við skulum ekkert þræta um þetta, en láta framtíðina skera úr því. Sjálfstfl. reisir vonir sínar á kjósendum í kaupstöðum og kauptúnum aðallega. Þess vegna er honum ekki eins annt um að bæta úr aðstöðu sveitamanna til kjörsóknar,

Ég hélt því fram í fyrri ræðu minni, að Framsfl. hefði tapað á því í síðustu kosningum, að hann var í sambandi við Sjálfstfl. um stjórn landsins. En það er ekki rétt hjá hv. þm. Snæf., að kjósendur Framsfl. hafi farið yfir til Sjálfstfl. við kosningarnar. Það var almenn óánægja og deyfð í okkar kjósendum út af samsteypunni, sem kom fram í því, að þeir sóttu ekki kjörfundina.

Hv. þm. Snæf. taldi upp ýmsa þm. úr svokölluðum vinstri armi Framsfl., sem fallið höfðu í kosningunum, og áleit, að þar hefði ekki verið um að kenna samsteypunni við Sjálfstfl. En það má líka benda á aðra, eins og Guðmund Ólafsson í Ási, sem ekki hefir verið talinn þeim megin, og féll þó eftir 19 ára þingmennsku, fyrir gömlum Framsfl.manni. Eða Lárus Helgason í Klaustri, ekki var hann úr vinstri arminum.

Hv. þm. Snæf. hneykslaðist mjög á því, sem ég hafði sagt, að Sjálfstfl. hefði með stjskrbreyt. og áhrifum sínum á kosningalagafrv. leitazt við að brjóta niður bændavaldið í landinu. Auðvitað hafa þær breyt., sem nú eru gerðar á stjskr. og kosningal., fyrst og fremst þær afleiðingar að minnka vald sveitanna og áhrif þeirra á Alþingi. Það er ómótmælanleg staðreynd. Þess vegna ætti sá landsmálaflokkur (Sjálfstfl.), sem segist ætla að byggja starfsemi sína á kjörfylgi úr sveitunum, ekki að standa á móti því, að bætt verði úr aðstöðu sveitamanna til kjörsóknar í kosningum. En það er bæði eðlilegt og mannlegt, að Sjálfstfl. geri þetta, ef það er réttara, sem ég held fram, að hann reisi framtíðarvonir sínar á kjósendum kaupstaðanna fremur en sveitabúum, og láti sér annara um hagsmuni þeirra og réttindaaðstöðu.

Hann var að tala um kosningabombu. Slíku er erfitt að mótmæla; það er alltaf hægt að kasta því fram. En ég fullyrði, að við séum búnir að færa nægilega mikil rök fyrir því, að þetta sé til mikils hagnaðar, en hvaða hvatir liggja á bak við hjá okkur, getur enginn rannsakað. Þær geta verið góðar og geta verið vondar. Ég ætla mér ekki að halda hrókaræður um það; það verður að dæma málið eins og það kemur fram, en ég get bent á einn flokksbróður hv. þm., sem bar fram till. við kosningalagafrv., sem ekki er annað en kosningabomba, og það er sessunautur minn, hv. þm. A.-Húnv. Hann bar fram till., sem hv. þm. Snæf. leiddi rök að, að væri bæði röng og vitlaus. Hún er ekkert annað en kosningabomba.

Mér var sagt, að þessi hv. þm. hafi ráðizt að mér þegar ég var fjarstaddur áðan. Ég veit ekki vel, hvað hann hefir sagt, en ef hann hefir haldið því fram, að ég væri með kosningafundarræður, eins og hv. þm. Snæf. gerði, þá held ég, að hann megi tala varlega, því að þessar till. bera svo ljósan vott um það, hverjir eru með kjósendadekur hér á þinginu. En í því sambandi, þar sem hv. þm. Snæf. talaði um kosningabombu, vil ég aðeins segja, að ég get ekki séð, að þeir menn, sem vegna þess, að þeim er gerð erfiðari aðstaðan við kosningar, eins og ef okkar till. gengur ekki fram, geti verið hættulegir. Þeir komast ekki á kjörfund, svo þess vegna er hættulítið fyrir hv. þm. Snæf. og hans flokksmenn að ráðast á móti þessu, því að þeir verða talsvert margir, sem ekki geta hefnt sín.