06.12.1933
Neðri deild: 27. fundur, 47. löggjafarþing.
Sjá dálk 201 í D-deild Alþingistíðinda. (1556)

35. mál, sundhöll í Reykjavík

Pétur Ottesen:

Ég mun greiða þessari till. atkv. mitt, en ég vil aðeins benda á það, að á þinginu 1928 var borið fram frv., að ég ætla af stj., um að veita 100 þús. kr. úr ríkissjóði til sundhallarbyggingar hér í Reykjavík. Átti þetta að verða helmingur alls kostnaðarins, því að þá var gert ráð fyrir, að sundhöllin myndi kosta 200 þús. kr. Í þessari fjárveitingu fólst allmiklu hærra framlag til sundhallarinnar en áður hafði verið veitt til sundlauga hér á landi. Áður hafði ríkissjóður aðeins lagt fram 1/3 kostnaðar við þessar framkvæmdir, en þegar þetta frv. var samþ., þá varð það til þess, að hlutfallið breyttist þannig, að síðan hefir ríkissjóður veitt styrk til sundlauga, sem nemur helmingi kostnaðar. Eftir þeirri samþykkt, sem þingið gerði 1928, liggur þess vegna fyrir að greiða 100 þús. kr. úr ríkjssjóði til þessa fyrirtækis. Þeir, sem samþ. þetta mál þá, ætluðust vitanlega til, að ekki yrði ráðizt í stærri byggingu en það, að fjárupphæð sú, sem þá var ákveðin, hrykki til að fullgera hana. Nú hefir reyndin orðið allt önnur. mér hefir verið sagt, að búið sé að verja til hennar hátt á þriðja hundrað þús. kr. og gert sé ráð fyrir, að allur kostnaður við byggingu sundhallarinnar muni nema 1/2 millj. kr. Hér í þessari till. er farið fram á, að ríkissjóður veiti ekki helming, heldur 2/5 hluta kostnaðarins. Ég tel, að þingið sé að sjálfsögðu bundið við að veita þessar umtöluðu 100 þús. kr. til sundhallarinnar, en lengra nær sú skuldbinding ekki, og um það, hversu kostnaður við þetta fyrirtæki hefir farið svona gífurlega fram úr áætlun, hefi ég fengið þær upplýsingar, að sú aukning, sem hefir orðið á stofnkostnaði þessa fyrirtækis, muni stafa af því, að í lögunum um þetta frá 1928 er ákveðið, að viðkomandi ráðh. skuli ráða því, hvernig fyrirtækinu skuli hagað, og afskipti hans af málinu hafa því leitt til þess, að fyrirtækið er orðið svo miklu dýrara en gert var ráð fyrir í fyrstu. Þrátt fyrir þetta er ekki rétt eins og nú er komið að skorast undan, að ríkissjóður inni af hendi sanngjarna þátttöku við þennan kostnað, og þar sem líka verkinu er svo langt á veg komið, en hinsvegar skortir allmikið á, að hægt sé að taka sundhöllina til notkunar. Ég mæli því með þessari till., af því að ég tel sjálfsagt að fullgera þetta fyrirtæki, svo að það komi að heim notum, sem til var ætlazt í upphafi.