06.12.1933
Neðri deild: 27. fundur, 47. löggjafarþing.
Sjá dálk 206 í D-deild Alþingistíðinda. (1564)

35. mál, sundhöll í Reykjavík

Jakob Möller:

Ég held, að ekkert sé á móti því, að rifjuð sé upp saga þessa máls, og ég hygg, að hægt sé að gera það alveg illindalaust og að það þurfi ekki að skapa neina misklíð í sambandi við afgreiðslu þessa máls. Mér finnst engin vanþörf á þessu, og sérstaklega skildist mér það á hv. síðasta ræðumanni, að hann mundi hafa rifjað nokkuð upp, hvernig þetta mál er frá upphafi tekið upp.

Ég hygg, að frumkvæðið um byggingu sundhallarinnar sé komið frá Alþingi, og víst er það, að þegar fyrst var veitt fé til sundhallarinnar, þá var það með þeim forsendum, að sundhöllin yrði byggð samkv. uppdrætti, sem ráðuneytið samþ. það er þess vegna engan veginn rétt, að það sé Rvík, sem hefir ráðið því, hvað stórt var byggt, heldur er það beinlínis fyrir tilhlutun þingsins og meðferð stj. á málinu. Upphaflega var gert ráð fyrir, að kostnaðurinn yrði 200 þús., og átti ríkissjóður að bera helming þess kostnaðar, og á þeim grundvelli samþ. bæjarstj. að ráðast í fyrirtækið. En svo þegar til kemur, þá er af stj. hálfu gerð krafa til byggingarinnar, sem olli því, að hún varð margfalt dýrari en gert var ráð fyrir og bæjarstj. hafði ráð fyrir gert. Svo þegar leitað var eftir því, hvort ríkissjóður mundi taka afleiðingunum eftir sem áður og greiða helming kostnaðar, þá var veitt afsvar við því, og af þeim ástæðum stöðvaðist byggingin.

Nú hefir verið leitað fyrir sér um það af bæarstjórn, hvort stj. vildi eigi að síður leggja fram fé, en það hefir ekki fengizt, en mér skilst það á hæstv. fjmrh., að það sé ekki af því, að hún hafi ekki vilja á að greiða það, heldur hafi fé ekki verið fyrir hendi.

Þá vil ég benda hv. 2. þmn. N.-M. á það, að þetta er ekki það eina, sem Reykvíkingar leggja fram í þarfir sundsins, því að sjálfsögðu verður haldið áfram að starfrækja gömlu sundlaugina og á henni gerðar nauðsynlegar umbætur, sem kostaðar verða af bænum. Ég leyfi mér þess vegna að mæla mjög eindregið með, að þessi till. verði samþ. eins og hún er, hvort sem hún verður borin upp í einu eða tvennu lagi.