06.12.1933
Neðri deild: 27. fundur, 47. löggjafarþing.
Sjá dálk 207 í D-deild Alþingistíðinda. (1569)

35. mál, sundhöll í Reykjavík

Frsm. (Tryggvi Þórhallsson):

Ég verð að láta í ljós undrun mína yfir þeim mótmælum, sem hér hafa komið fram frá hv. þm. A.-Húnv. og hv. 2. þm. N.-M. Mér virðast aths. þeirra stafa af allmiklum ókunnugleik á málinu, og sumpart að þá vanti það viðsýni, sem hafa þarf í slíkum málum.

Hv. þm. A.-Húnv. gat þess, að rekstrarkostnaður mundi verða mjög mikill, en ég er ekki í vafa um, að dýrast af öllu verður það þó að láta þessa byggingu standa ófullgerða og ónotaða, en hrinda þessu verki ekki það áfram, að unga kynslóðin og jafnvel sú eldri líka geti notið þessarar ómissandi stofnunar.

Þá vil ég geta þess í sambandi við það, sem hv. þm. A.-Húnv. sagði, að í staðinn fyrir að fullgera sundhöllina ætti að endurbæta sundlaug þá, sem bæjarbúar nota nú, að það, sem gera á, er bæði það, að fullgera sundhöllina og endurbæta gömlu laugina.

Hv. þm. sagði, að það lægju ekki fyrir nægar Upplýsingar í málinu. Það er þó upplýst, hvað þetta kostar, og það liggur líka fyrir, að þörfin er ákaflega mikil. Úti um byggðir landsins hafa verið byggðar sundlaugar, en sá fólksfjöldi, sem notar þær, er ekki nema hverfandi lítill partur af þeim fólksfjölda, sem hér um ræðir. Ég hefi ekki talið eftir það fé, sem farið hefir til þessara lauga, og ég er fremur þekktur fyrir að draga fram kröfur hinna dreifðu byggða, en ég hlýt einnig að ljá þessari till. fylgi mitt, því að hún nær til svo mikils hluta landsmanna og er svo nauðsynleg heilbrigðisráðstöfun, að ég álit sjálfsagt að samþ. þessa till. Aðalatriðið er því að koma þessu í framkvæmd sem allra fyrst, svo að menn njóti þess gagns, sem af því leiðir.

Hv. 1. þm. Reykv. mælti eindregið með till., eins og eðlilegt og sjálfsagt var, og þarf ég ekki að fara mikið út í ræðu hans, en vil þó minnast á eitt atriði. Hann sagði, að stj. hefði orðið þess valdandi, að sundhöllin varð svona dýr, en ég hygg, að þetta sé ekki rétt, heldur hafi það verið fyrir kröfur bæjarbúa. Það voru ungir menn í Rvík, sem báru fram kröfur um, að sundhöllin yrði þetta stór, svo að hún gæti fullnægt sem bezt þeirra kröfum. En ég vil ekki horfa í það, þó að kostnaðurinn fari fram úr fyrstu áætlun; það er svo algengt, að mannvirki verði miklu dýrari en upphaflega er gert ráð fyrir. Um það þýðir ekki að sakast, en það, sem nú liggur fyrir að gera, er að fullgera þessa byggingu, svo að hún verði nothæf.