21.11.1933
Neðri deild: 15. fundur, 47. löggjafarþing.
Sjá dálk 151 í B-deild Alþingistíðinda. (157)

2. mál, kosningar til Alþingis

Frsm. (Thor Thors):

Ég þarf aðeins að svara með nokkrum orðum ræðum síðustu ræðumanna.

Ég sé ekki, að það geti verið nein rök gegn því, að hreppstjórar megi eiga sæti í kjörstjórn, þó að hv. þm. N.-Ísf. geti hent á, að einstaka hreppstjóri hafi brotið af sér. (VJ: Það sýnir, að þeir eru ekki óskeikulir). Hv. þm. N.-Ísf. er ekki heldur óskeikull.

Ræða hv. þm. Barð. gæti gefið mér tilefni til langrar ræðu, en ég skal ekki þreyta hv. þdm. á því að fara út í almenna pólitíska ræðu, en á þeim grundvelli bæri helzt að svara hv. þm. Barð. En ég vil aðeins segja honum, að það, sem hann færði fram gegn minni ræðu, voru tómir útúrsnúningar. Hann var að tala um, að ég ætti ekki að vera að hvetja sig sem framsóknarmann að flytja fólkið úr sveitunum til kaupstaðanna. Ég sagði aðeins, að einasta ráðið til þess að jafna þann landfræðilega aðstöðumismun, sem kjósendur víðsvegar úti um land hefðu til að sækja kjörfund, væri, að allir væru búsettir í kaupstöðunum.

Þrátt fyrir það, að ég hafi mikið álit á þessum hv. þm. sem gömlum skólabróður mínum, þá hefi ég ekki það oftraust á honum, að ég haldi að hann sé þess megnugur að flytja fólkið úr sveitunum, þó að hann feginn vildi.

Hv. þm. Barð. vildi bera á móti því, að það væri rétt hjá mér, að hans till. væru ekki í samræmi við önnur ákvæði kosningalagafrv., en samt vék hann að því í ræðu, að hann væri reiðubúinn að flytja skrifl. brtt., svo þetta rækist ekki á. Og hv. þm. kom með lögskýringu við 99. gr., að hún tæki einnig til aukakjörfundar, en sú lögskýring er á ábyrgð hv. þm., og ekki er vitað, að nokkur kjörstjórn á landinu mundi fara eftir henni, nema það sé skýrt tekið fram í lögunum. En 2. brtt. hv. þm. er aðeins viðbót við 59. gr. frv. sem tekur ekki til almennra ákvæða um kjörfund. Í sambandi við hana sagði hv. þm., að hann skildi ekkert í því, að ég væri að harma, að svo mikil takmörkun væri á þessari heimild. Ég hefi aldrei látið neina óánægju í ljós út af þessari takmörkun. Ég sagði aðeins, að hún væri óeðlileg út frá sjónarmiði þeirra, sem á þessa nauðsyn trúa. Ef þetta er sannfæring þeirra, ættu þeir að beita sér fyrir, að heimildin væri almenn. En út af því, sem hv. 1. þm. S.-M. sagði, vil ég benda honum á, að í hans flokki er það ekki álitin meiri nauðsyn en það, að allar þær ræður, sem voru fluttar í kosningalagan. með almennri heimild þessa, báru ekki meiri árangur en það, að þessi lítilfjörlega og takmarkaða heimild var sett inn í tillögu þeirra, og ég efast um, að hún nái fram að ganga með atkvæðum flokksmanna hans.

Þessum síðasta ræðumanni hefi ég fulla ástæðu til að svara, því að það, sem hann bar fram í ræðu sinni, voru órökstuddar fullyrðingar, og hann ætti skilið, að á honum væri tekið tekið sömu tökum eins og ræða hans gaf tilefni til, en vegna þess, að nú er orðið áliðið og menn þreyttir, þá ætla ég að hlífa honum í bili, en við erum væntanlega ekki skildir. En slíkar firrur, að aldrei hafi verið komið fram neinu máli til hagsbóta fyrir sveitirnar nema gegn andstöðu Sjálfstfl., eru svo fráleitar og fjarstæðar, að ekki tekur nokkrum orðum. Ég verð að segja, að kjósendur landsins eru furðu heimskir, að áliti þessa hv. þm., ef þeir þrátt fyrir þetta geta veitt Sjálfstfl. jafnmikið fylgi eins og raun varð á við síðustu kosningar og mun verða við þær næstu. Fylgi Sjálfstfl. í sveitunum er einmitt næg sönnun þess, að hann hefir látið sig miklu skipta að vinna fyrir hagsmunamál sveitanna.

Ég skal svo ekki fjölyrða frekar um þetta, en hér liggur fyrir mikill sægur af brtt., og ég hefi bent á, að þær eru ekki allar í samræmi við aðrar gr. frv. Getur því farið svo, að eftir atkvgr. verði frv. skilað til Ed. í nokkru ósamræmi innbyrðis, en við verðum þá að hugga okkur og segja: „Guði sé lof, að til er Ed.