06.12.1933
Neðri deild: 27. fundur, 47. löggjafarþing.
Sjá dálk 210 í D-deild Alþingistíðinda. (1577)

35. mál, sundhöll í Reykjavík

Fors.- og fjmrh. (Ásgeir Ásgeirsson):

Ég get tekið undir allt gott, sem sagt er um sundhöllina, en því má ekki gleyma, að það verður þó að vera hægt að greiða þá peninga, sem samþ. er að greiða til hennar. Nú koma till. og áskoranir um að greiða úr ríkissjóði svo skiptir hundruðum þúsunda. Í þessari till. var upphaflega áskorun um, að stj. skyldi greiða til sundhallarinnar þær 100 þús., sem eitt sinn var ákveðið að veita. Nú er bætt þar við öðrum 100 þús. Þar eru 200 þús. Þá var samþ. till. um að kaupa hús og lóð af templurum og veita þeim styrk, til samans 150 þús. kr., og 50 þús. á að leggja til hafnar á Skagaströnd. Þetta er til samans 100 þús. Hvar á að taka rétta fé? Nú er 40% álag á tekju- og eignarskatti, og þykir mikið, en það veitti ekki af að bæta öðrum 40% við til að fá allt þetta fé. Það, sem ég óska eftir, er, að séð verði fyrir tekjunum, þegar útgjöldin eru ákveðin. Menn verða að neyta þess sæta og súra í einu, en ekki éta sykurmolann á þessu þinginu og geyma beiska meðalið þangað til á næsta þingi. Umbæturnar eru ágætar í sjálfu sér, en þeir, sem vilja umbætur, verða jafnframt og á sömu stundu að leggja á sig gjaldabyrðina. Þessi breyting má til að verða á fjármálaafgreiðslum þingsins, að hvenær sem útgjöld eru heimtuð, þá verði um leið séð fyrir tekjunum. Þessi krafa er ekkert einstök fyrir þetta mál. Þetta er krafa, sem alltaf verður að gera. Það er allt annað nú en á uppgangsárunum, þegar tekjur jukust ár frá ári með óbreyttum toll- og skattalögum. Þá var öllu fremur óhætt að stofna til aukinna útgjalda án þess að sjá um leið fyrir auknum tekjustofnum. En þegar allar tekjur lækka svo sem verið hefir, þó að nokkuð hafi lagazt þetta ár, þá dugir ekki að hafa þessa aðferð, heldur verður að taka það ráð, sem haft er í þroskuðustu þingræðislöndunum, að stórauknum útgjöldum fylgi nýjar tekjur. Það er ekki hollt, að sumir þm. taki að sér að heimta umbætur, en láta svo aðra hafa fyrir að sjá fyrir því fé, sem til þeirra þarf. Mér er ljóst, að hér er um nauðsynjamál að ræða, þar sem sundhöllin er, og ein aðalnauðsynin er að sjá fyrir þeim peningum, sem til fyrirtækisins þarf að greiða.