06.12.1933
Neðri deild: 27. fundur, 47. löggjafarþing.
Sjá dálk 211 í D-deild Alþingistíðinda. (1578)

35. mál, sundhöll í Reykjavík

Pétur Halldórsson [óyfirl.]:

Ég held, að ekki sé hægt að gera neitt það, sem nauðsynlegra er og hentugra fyrir íþróttamál þessa bæjar en að reyna nú að koma sundhallarmálinu í sem bezt horf, og hver nauðsyn er á því, má sjá á því, að svo mikil aðsókn hefir verið að sundlauginni, að það hefir komið fyrir, að 1200 menn hafi komið þangað á einum degi. Þetta er einhver ljósasti vottur þess, að það er bráðnauðsynlegt að gera það, sem hægt er, til að auka möguleika hér í bæ til að iðka sundíþróttina. Mér sýnist það vera það fyrsta og bezta, sem hægt er að gera fyrir íþróttalífið, þegar fjárhagurinn leyfir. Og ég sé ekki betur en að stærsta atriðið í þessu sambandi sé nú að koma sundhöllinni svokölluðu af og gera hana nothæfa. Þar fyrir utan þurfum við, auk þess að lagfæra gömlu sundlaugarnar, að koma upp nýrri, stórri og góðri sundlaug undir opnum himni, þegar möguleikar eru á því, og fyrri er ekki vel séð fyrir þörfum Rvíkur á þessu sviði.

Nú er deilt um það hér, hvort rétt sé að ríkið taki þann þátt í því að fullgera sundhöllina, sem hér er farið fram á. Ég skal ekki fara mörgum orðum um það efni; ég er sammála hv. samþm. mínum, hv. 1. þm. Reykv., um það, sem hann hefir tekið hér fram, og vil ekki eyða tíma í að endurtaka það. En ég vildi benda á það, að ekki er rétt það, sem hv. 2. hm. N.-M. og hv. þm. A.-Húnv. héldu hér fram, þar sem þeir vildu láta láta svo út, að hér væri að ræða um fátækrastyrk, sem fyrst og fremst ætti að veita þeim stoðum, sem fáækastir væru og fámennastir á landinu, til sundlaugabygginga og annara íþróttamála. Ég skil ekki, að hv. þm. haldi slíku fram, ef þeir hugsa málið betur. Það getur ekki komið til nokkurra mála, að Rvík, sem leggur til 60 kr. af hverjum 100 kr., sem í ríkissjóðinn koma á ári hverju, eigi ekki sanngirniskröfu á, að til hennar þarfa sé litið eins og þarfa annara staða, þegar um svipuð mál er að ræða. Það nær ekki nokkurri átt, að hér sé um fátækrastyrk að ræða. Það er að ræða um framlag úr ríkissjóði, sem leggja á fram vegna þess, að það er álitið til hagsmuna fyrir þjóðfélagið og blessunar fyrir borgara þess. Og það er þá rétt að láta þann fjárstyrk fyrst og fremst koma niður þar, sem hann verður að mestu og almennustu gagni, en það er þar, sem fjölmennast er og aðsóknin mest að þessum þægindum, nefnil. fyrst og fremst hér í Rvík. Ég vona því, að þessi röksemdafærsla hv. þm. hafi ekki áhrif í þá átt að spilla fyrir till.

Hitt, sem hæstv. fjmrh. lagði til málanna, að það yrði að sjá fyrir fjaröflun í hvert skipti sem samþ. væri fjárveiting, er e. t. v. rétt, þegar um stórkostlegar nýjungar er að ræða. En ekki skilst mér, að hann haldi þessu fram að því er snertir fyrri 100 þús. krónurnar. Hann viðurkenndi, að það væri gömul skuld, sem rétt væri að samþ. greiðslu á. En ekki er þó sú upphæð í fjárl., og ekki verður hún framar greidd af fénu, sem inn kom á árunum 1928 til 1930, þegar hefði átt að leggja þetta fé fram.

Mér finnst, að hæstv. ráðh. ætti nú að kvarta hóflega, þegar tekið er fram í till., að framlag ríkisins skuli greiða í síðasta lagi tveimur árum eftir að mannvirkið er fullgert. Það er nokkur tími til undirbúnings, og hæstv. ráðh. getur tekið þessa greiðslu upp í fjárl. 1935 til 1937, eftir því sem hann vill. Ekki getur hæstv. ráðh. haldið fram, að ekki sé hægt að fella niður af þeim fjárlögum, sem þessu svarar, því það er ekki rétt, að svo sé bundinn hver einasti eyrir, sem í ríkissjóðinn kemur framvegis, að ekki sé hægt að sjá af nokkrum tugum þúsunda til þeirra nauðsynja, sem eftir ákvörðun Alþ. þykja ríkastar á hverjum tíma. Ég vona, að hv. d. þyki í þetta sinn sú fjárveiting mjög nauðsynleg, sem hér er um að ræða, og telji því rétt að mæla svo fyrir, að ríkisstj. sjái um að hafa til fé til þeirrar útborgunar eftir tvo til þrjú ár. Get ég ekki séð, að það sé nein fjarstæða, þó um 200 þús. kr. væri að ræða.