05.12.1933
Neðri deild: 26. fundur, 47. löggjafarþing.
Sjá dálk 596 í D-deild Alþingistíðinda. (1602)

58. mál, launakjör

Fors.- og fjmrh. (Ásgeir Ásgeirsson):

Hv. þm. A.-Húnv. og hv. þm. Borgf. gera sér miklar áhyggjur út af afstöðu minni til þessa máls. Þurfa þeir ekki að bera eins miklar áhyggjur og fram kemur í ræðum þeirra einmitt vegna þess, sem ég sagði, að ég mun enga breyt. gera eftir þál. í annari deildinni á launum í þeim stofnunum, sem undir mig heyra, en það eru hagstofan og skattstofan. Um aðrar stofnanir skulu hv. þm. snúa sér til þeirra ráðherra, sem yfir stofnununum ráða, um laun, greiðslur, uppsagnarskilyrði og slíka hluti. Geta þeir um flestar stofnanir snúið sér til hæstv. dómsmrh. og um þó nokkrar til hæstv atvmrh. En af því skal ég marka kosningahuginn í þessu efni hjá hv. þm., hvort þeir sætta sig við það, að geta ekki dembt þessu öllu saman yfir á mig.

Ég hefi eitt sinn síðan ég kom í þessa stöðu lækkað öll laus laun við þær stofnanir, sem undir mig heyra, og í samráði við hina ráðherrana voru einnig lækkuð laus laun í þeirra stofnunum. Var lækkunin um 15% á öllum. Og viðvíkjandi þeim stofnunum, sem undir mig heyra og ég áðan taldi, þá er ekki hægt að lækka meira. Ef ég færi að skýra frá því hér, hvaða laun eru greidd við hagstofuna, þá býst ég við, að þessir tveir hv. þm. myndu undrast, að þau eru ekki hærri.

Mér láðist að nefna eina stofnun, tóbakseinkasöluna. Þar get ég gefið þær upplýsingar, að forstöðumaðurinn er ráðinn með samningi, og má ég segja, að það þarf að segja honum upp fyrri hluta ars, svo að gilt sé. Annan samning um uppsagnarskilyrði hefi ég ekki gert. Að öðru leyti tel ég, að starfsmenn við stofnanir hafi a. m. k. þriggja mánaða rétt, þótt ekkert sé tekið fram í samningi eða enginn samningur gerður við þá.

Fleira þarf ég ekki að upplýsa. Þessir hv. þm. eiga sitt aðalerindi um fyrirspurnir og áskoranir til hæstv. dómsmrh. í nokkrum atriðum, og til hæstv. atvmrh. í nokkrum atriðum, og þangað vísa ég þeim héðan í frá.