27.11.1933
Efri deild: 20. fundur, 47. löggjafarþing.
Sjá dálk 601 í D-deild Alþingistíðinda. (1614)

55. mál, meðgjöf með fávitum

Jónas Jónsson:

Ég vildi biðja um nokkrar upplýsingar viðvíkjandi þessari till. Ég er sammála hv. flm. um það, að hér sé þörf fyrir fávitahæli, en ég er ekki viss um, að sú leið, sem hér á að fara, sé sú heppilegasta. Mér skilst á þessari till., að búið sé að byggja steinhús á Sólheimum fyrir fávita og að það sé skammt frá barnahælinu, sem hefir verið talað um hér á þinginu áður og styrkt af ríkisfé. En það sest ekki á þessari till., hvort landlæknir eða heilbrigðisstjórn hafa verið höfð í ráðum við byggingu þessa nýja húss, og heldur ekki, hvernig hugsað er, að þetta verði í framtíðinni, hvort það er meiningin að breyta þessu fávitahæli í barnahæli seinna, þegar landið væntanlega byggir yfir þessa menn.

Það er aldrei nema satt, að það er mikil þörf á því fyrir heimilin að losna við þetta fólk sem allra fyrst. Þessir aumingjar eru miklu fleiri en hægt er að koma fyrir á þessum stað, og því er þetta í raun og veru aðeins lítil byrjun og ekki víst, hvort það er rétt byrjun. Ég vildi þess vegna fá nákvæmari upplýsingar um, hvernig þetta Sólheimafyrirtæki er hugsað, hvort þar á að vera bæði barnahæli og fávitahæli, eða hvort þar á eingöngu að vera barnahæli í framtíðinni, og að þetta eigi þá aðeins að vera bráðabirgðaráðstöfun.

Ég verð að segja það, að mér finnst gert ráð fyrir nokkuð miklum kostnaði við þessa vesalinga, og getur vel verið, að það komi til af því, að dýr lán hafi verið tekin til byggingarinnar. Ég álít, að úr því verið er að tala um, að landið borgi stórfé þangað, þá sé eðlilegt að fá upplýsingar um, hverjir eiga með þetta fé og fyrirtæki að gera. Annars verð ég að segja það, að mér virðist þetta líkast því, þegar Elliheimilið var byggt. Þessi vandaða bygging, sem átti að gera svo mikið og gott gagn, en hefir því miður ekki gert það, vegna þess að hað er of dýrt að vera þar, nema fyrir efnað fólk. Slíkt hæli var vitanlega fjarstæða að reisa hér í Reykjavík, þar sem reksturinn er mjög dýr.

Ég hygg því, að töluvert réttara væri, að landið byggði sjálft, heldur fyrr en síðar, fávitahæli, þar sem bezt skilyrði eru til að starfrækja slíka stofnun, en það er á Reykjum í Ölfusi. Ég álít miklu meira vit í því heldur en að fara að borga einkafyrirtæki óeðlilega háa meðgjöf með því fólki, sem þar er ætlað að dvelja.

Það getur vel verið, að hv. flm. geti gefið þær upplýsingar í þessu máli, sem geri hað aðgengilegra.