27.11.1933
Efri deild: 20. fundur, 47. löggjafarþing.
Sjá dálk 604 í D-deild Alþingistíðinda. (1618)

55. mál, meðgjöf með fávitum

Jónas Jónsson:

Mér skildist á ræðu hv. flm., að fyrir forstöðukonunni á Sólheimum vaki að hafa á sama stað fávitahæli og barnahæli. Ég tek undir það með hv. flm., að mér finnst undarlegt að ætla að hafa þau hvort hjá öðru, og ég sannfærðist ekki af þeim rökum, sem færð voru fyrir því, að það gæti gengið vel.

Það er nokkuð líkt með þetta mál eins og þegar hressingarhælið í Kópavogi var reist, sem einstakir menn söfnuðu fé til og lögðu mikið á sig til að koma upp. Þegar búið var að reisa það og farið að starfrækja, þá lenti allur kostnaðurinn á ríkissjóði, og þá kom jafnframt í ljós, að hressingarhælið var að mörgu leyti byggt með of lítilli fyrirhyggju og að ýmislegt var þar vanhugsað. Húsið var þannig útbúið, að það var mjög óhaganlegt fyrir sjúklingana, og ekkert hafði verið hugsað fyrir vinnustofu fyrir þá. Í stuttu máli, húsið var óhentugt, af því að það var reist af fyrirhyggjuleysi af einstökum mönnum, og svo verður ríkissjóður að bera kostnaðinn ar eftir ár. En ríkisstj. hefði aldrei byggt hæli þarna, ef hún hefði ráðið. Ég veit ekki nema það geti farið eins með fávitahælið á Sólheimum, að þó að það sé byrjað sem einkafyrirtæki, þá lendi það á ríkissjóði. Ég er á móti því, að stofnuð séu svona fyrirtæki án eftirlits og framsýni um það, hvað landinu hentar bezt, og svo sé komið til ríkissjóðs og hann beðinn um meðgjöf með þeim, sem þar eiga að dvelja.

Ég hygg, að það sé ekki rétt hjá hv. flm. að ætla að vísa þessu máli til fjhn., þar sem hér er um nýja fjárv. að ræða, en ekki endurveitingu, eins og var um till., sem ég fór fram á, að vísað yrði til fjhn. Ég álít, að till. eigi heima í fjvn., ef hað er á annað borð rétt að styrkja þetta nú á þessu þingi, en láta það ekki bíða reglulegs fjárlagaþings, og sjá um leið, hvort þetta fyrirtæki, sem er byrjað sem einkafyrirtæki, getur ekki starfað áfram sem einkafyrirtæki.