30.11.1933
Neðri deild: 23. fundur, 47. löggjafarþing.
Sjá dálk 222 í D-deild Alþingistíðinda. (1619)

48. mál, samvinnufélagið

Jakob Möller:

Ég er ekki svo hissa á því, þó hv. þm. Vestm. skildi ekki þá hugsun, sem liggur á bak við afstöðu mína til þessa máls. Ég er miklu meira hissa á, að hv. þm. Mýr. skuli ekki geta fundið aðra skýringu á henni en þá, að ég sé illa að mér í landafræði. Ég hélt, að engum gæti dulizt það, að það, sem á bak við liggur hjá mér, er andstaðan gegn því, að beinlínis sé verið að seilast til þess að breyta landbúnaðarhéruðum í sjávarútvegspláss. Þetta finnst mér, að hv. þm. Mýr., sem telur sig fulltrúa bænda, ætti að geta komið auga á. Ég talaði um uppruna þessarar byggðar, hvernig fólkið hefir lifað þar til þessa dags. Og ég taldi æskilegt, að það gæti haldið áfram að lifa á sama hátt, en óheppilegt, að atvinnulífinu væri beint inn á nýjar brautir og byggðin gerð að fiskiplássi. Hitt vissi ég vel áður og þurfti því ekki hina nákvæmu skýringu hv. þm. Vestm. á því, að hægt er að gera þá, sem stundað hafa landúnað, að sjómönnum. Ég tel það bara ekki æskilegt. Ég tel æskilegra vegna heildarinnar, að stuðlað sé að því að halda þeim mönnum við landbúnaðinn, sem hann hafa stundað og þannig eru settir, að eðlilegast er, að þeir haldi því áfram. Þetta er ekki í fyrsta sinn, sem ég verð að verja þessa afstöðu gagnvart „bændaflokks“þm., og ég mun gera það framvegis eins og hingað til, þegar ástæða er til.

Í þessu máli hefi ég heyrt mikið lagt upp úr því, hvað skipið, sem gert er ráð fyrir að kaupa, sé mikið fyrirtaks skip. Ég efast ekki um, að það sé rétt. En ég vil vekja athygli hv. sjútvn. á því, að það er á engan hátt tryggt, að þetta skip verði keypt, en ekki eitthvert annað. Nú, við því mætti náttúrlega gera. En felst nú ekki nokkur vísbending í því, að þetta ágæta skip skuli vera til sölu og helzt lítur út fyrir, að ekki sé hægt að selja það nema til þessa nýja útgerðarpláss? Er það ekki einmitt bending um, hvað þessi atvinnuvegur á erfitt uppdráttar nú og hvað óeðlilegt er því að beina nýjum mönnum inn á þá braut að hverfa frá sinni fyrri atvinnu og fara að stunda fiskiveiðar? hratt fyrir ágæti þessa skips virðist ekki muni vera orðið hægt að láta útgerð þess borga sig frá þeim útgerðarstöðvum, sem miklu betri skilyrði hafa til þess að bera uppi útgerð heldur en Borgarnes.

Það voru náttúrlega öfgar, þegar ég tók Biskupstungur til samanburðar. En ég vildi með því beina athygli að því atriði, að tilgangurinn með þessu frv. er að breyta landbúnaðarsveit í fiskipláss. Nú hefir hæstv. forseti bent mér á, að e. t. v. séu möguleikar á að komast vatnaleiðina upp í Biskupstungur með því að fara Hvítá, og svo sé þar fyrirtaks höfn, þegar komið er á leiðarenda. Leiðin inn á þessa ágætu höfn í Borgarnesi er einnig vandkvæðum bundin, eins og hv. þm. Mýr. viðurkenndi.

Hv. þm. Mýr. lagði mikið upp úr því, að atvinnuleysið væri stöðugt að aukast í Borgarnesi. Þetta þarf engum að koma á óvart, því yfir atvinnuvegina ganga nú þeir tímar, að meiri og meiri aðþrengingar eru alstaðar. Og þegar þannig er ástatt, ekki síður að því er snertir útgerðina heldur en aðra atvinnuvegi, þá er það vissulega að bæta gat með gati að vísa atvinnuleysinu í Borgarnesi á það að fara að stunda sjávarútveg.

Ég vakti athygli á því áðan, að réttara væri af Alþ., áður en það tekur ákvörðun um að veita ríkisábyrgð til þess að stofna til útgerðar á stað eins og Borgarnesi, þar sem engin útgerð hefir áður verið, að athuga, út á hvaða braut er verið að leggja með því að veita þessar ábyrgðir samvinnufélögum víðar og víðar á landinu. Benti ég í því sambandi á tvö samvinnufyrirtæki, þar sem ég vissi ekki betur en reynslan hefði orðið allt annað en góð. Hv. þm. Mýr. vildi ekki eyða orðum að þessu, en ég tel mér það til inntekta, að hv. hm. Ísaf. virðist hafa beyg af því að samþ. þessa till. Ég geri ráð fyrir, að hans beygur byggist á reynslu hans sem framkvæmdarstjóra samvinnuútgerðarfélags á þeim stað, sem frá fornu fari hefir verið viðurkennt útgerðarpláss og þar sem frá því fyrst sögur fara að hafa alltaf verið stundaðar fiskiveiðar. Ég veit, að hann þekkir vel þá örðugleika, sem útgerðin á nú við að stríða. Ég hefði hiklaust greitt atkv. með því, þegar ríkisábyrgðin var veitt samvinnufélaginu á Ísafirði, eins og þá stóðu sakir. En það, sem hér er um að róða, tel ég alls ekki sambærilegt. Á Ísafirði var útgerðin fallin í kaldakol og það virtist a. m. k. óumflýjanlegt að gera eitthvað til að rétta hana við. Þeir menn, sem félagið mynduðu, höfðu engin skilyrði til annars atvinnurekstrar. Afkoma þeirra hefir frá upphafi byggzt á útgerð og þeir höfðu ekki aðstöðu til að sjá sér farborða á annan hátt. þessu er, eins og menn vita, allt öðruvísi háttað í Borgarnesi. Hinsvegar hefir samvinnufélagið á Ísafirði átt við mjög mikla örðugleika að stríða og fjárhagsafkoma þess hefir verið mjög erfið. Hv. þm. vita, að það hefir orðið að leita aðstoðar ríkissjóðs, a. m. k. í bili, til þess að geta haldið starfrækslu sinni áfram, vita, að Það er í miklum skuldum og framtíð þess töluvert óviss. Það mun hafa átt mjög erfitt með að standa við skuldbindingar sínar gagnvart bæjarfélaginu, að því er snertir gjöld af eignum, sem það hefir til afnota og þessháttar.

Um samvinnufélagið á Akureyri, sem ég gat um í ræðu minni áðan, er það að segja, að „það var stofnað með því skipulagi, sem þroskuðustu samvinnufélögin hafa“, eftir upplýsingum þess manns, sem flutti till. um ríkisábyrgð því til handa. Og hvernig fór? Eftir að félagið hafði gert út þrjú skip í hálft annað ár, að ég hygg, varð það gjaldþrota. Skuldir þess höfðu farið sívavxandi, og eftir því sem mér er sagt voru þær orðnar 170 þús. kr. umfram eignir eftir þennan stutta rekstur. Þannig er nú ástatt um afkomumöguleika útgerðarinnar; þannig er reynslan af þeim ábyrgðum, sem ríkið hefir tekið á sig fyrir útgerðarsamvinnufélög.

Menn verða að gá að því, að ef veita á ríkisábyrgð þessu félagi í Borgarnesi, þá tekur Alþ. um leið á sig þá skyldu að veita öllum samvinnufélögum, sem stofnuð kunna að verða til útgerðar, samskonar stuðning, hvar sem þau eru á landinu. hvað ólíklegt sem plássið er til sjávarútvegs, og jafnvel þar, sem aldrei hefir verið rekin útgerð áður. Ég tel alveg óforsvaranlegt af Alþ. að halda áfram þessari braut, meðan ekki er séð að fullu, hvernig þeim fyrirtækjum reiðir af, sem búið er að koma af stað.

Ef Borgnesingar eru í vandræðum með atvinnu, þá tel ég eðlilegra og sjálfsagðara að veita þeim á einhvern hátt styrk til að auka þann atvinnurekstur, sem þeir hafa stundað og sem stendur allur í sambandi við landbúnaðinn, heldur en að leiða þá út á þá braut að fara að stunda sjávarútgerð. Slík hjálp getur orðið þeim hreinasta hefndargjöf, vegna þess hvað staðurinn er óhentugur til útgerðar og vegna hinna almennu örðugleika, sem útgerðin á við að stríða.