30.11.1933
Neðri deild: 23. fundur, 47. löggjafarþing.
Sjá dálk 230 í D-deild Alþingistíðinda. (1631)

48. mál, samvinnufélagið

Jakob Möller:

Við hv. þm. Ísaf. erum það mikið sammála um þetta mál, að það er í raun og veru óþarfi að vera að deila. En það var dálítið skrítið, að hann fann það út úr mínum orðum, að ég mundi álíta, að engin útgerð bæri sig illa nema samvinnuútgerð. Ég er hræddur um, að hv. þm. Mýr. hafi komizt að allt annari niðurstöðu, sbr. það, sem hann sagði: „Að bæta gat með gati“. Enda er sannleikurinn sá, að, það er fullkomlega viðurkennt af mér, að útgerðin yfirleitt hefir gengið ákaflega erfitt undanfarin ár. En um samvinnuútgerðina er það sérstaklega að segja, að eins og til hennar hefir verið stofnað hér, þá er aðalhættan fólgin í því, að hún verði rekin meir með tilliti til atvinnu heldur en með tilliti til þess, hvaða möguleikar eru til þess að útgerðin beri sig. Og það er rangt hjá hv. þm. Ísaf., að það hafi orðið samvinnufélagi Akureyrar að falli, að það keypti gömul skip, því að þau öfluðu í sjálfu sér vel, en það var reksturinn á útgerðinni, sem leiddi til þess, hvernig fór, sem sest m. a. á því, að þegar svo var komið fyrir félaginu, að það var alveg augljóst, að það mundi verða gjaldþrota og ekki geta fullnægt sínum skuldbindingum, þá samþykktu félagsmenn á fundi að halda útgerðinni áfram. Það, sem vitanlega hefir vakað fyrir þeim, hefir ekki verið annað en atvinna líðandi tíma. Þeir gerðu út eitt skip mánuðum saman til ísfisksútflutnings, þrátt fyrir það, að hver veiðiferð skilaði stórtapi. Það var þetta, sem aðallega fór með félagið, og það er þessi hætta, sem er alvarlegust í sambandi við svona útgerð, sem hér um ræðir. Sú ályktun, sem hv. þm. Ísaf. vildi draga af mínum orðum, að ef ríkið tapaði á ábyrgðum fyrir hlutafélög, þá ætti niðurstaðan að verða sú, að það ætti ekki að reka hlutafélög, er alveg röng. En ályktunin er rétt, ef hún er sú, að ríkissjóður eigi ekki að takast á hendur ábyrgð fyrir hlutafélög. Um annað hefi ég ekki talað. Ég hefi ekki heldur neitað því að það mætti reka samvinnuútgerð, en ég hefi haldið því fram, að það væri varasamt fyrir ríkissjóð að ganga í ábyrgð fyrir slíka útgerð. Það er bezt, að ábyrgðin hvíli sem mest á þeim mönnum, sem reka fyrirtækið.

En við, hv. þm. Ísaf. og ég, fáum sennilega betra tækifæri til þess að ræða um þetta mál í sambandi við annað frv., sem er á ferðinni, og á ég þar við ábyrgð fyrir Reykjavík.