30.11.1933
Neðri deild: 23. fundur, 47. löggjafarþing.
Sjá dálk 238 í D-deild Alþingistíðinda. (1637)

48. mál, samvinnufélagið

Ólafur Thors:

Hv. þm. N.-Ísf. tókst að kenna sessunaut sínum eina setningu úr sögunni, en honum tókst ekki að kenna honum að breyta eftir henni. Þessi hv. hm. segir, að hann ætli sér ekki að fara að rökræða við þm. G.-K., af því að það tefji umr. og hér séu önnur mál síðar á dagskrá, sem ég vilji gjarnan tefja. Þetta var það, sem hv. þm. N.-Ísf. tókst að koma inn hjá hv. þm., en þegar hann fór að lifa eftir því, þá fór allt á annan veg. Hann varpar fram rakalausum staðhæfingum um mig og mitt félag, sem gefa mér tilefni til margra klukkutíma ræðu. Auk þess er það hlægilegt að halda því fram, að ég vilji beita málþófi í þessu máli til þess að tefja fyrir máli, sem kemur hér fyrir á eftir. Það er nú orðið lítið eftir af fundartíma og því hægurinn hjá að tefja það mál, þegar það verður tekið fyrir.

Í sambandi við þann óhróður, sem hv. þm. bar fram á mitt félag, þá vil ég segja, að honum og hans hyski, sem lifað hafa sem sníkjudýr á ríkissjóði og viljað fá allt lagt upp í hendurnar an þess að vera nokkurn skapaðan hlut, ferst ekki að tala um þá menn, sem borið hafa hita og þunga atvinnurekstrarins og alltaf staðið við sínar skuldbindingar. Og þó að ég vilji á engan hátt þakka mér sérstaklega rekstur þess félags, sem ég veiti forstöðu, því þar vinna einnig aðrir mér fremri menn, þá þori ég fyllilega að láta gera samanburð á mér og hv. þm. Ísaf. Mitt félag hefir alltaf greitt stórfé í ríkissjóð, m. a. til þess að borga til þessara sníkjudýra eins og hv. þm. og samvinnufélags Ísfirðinga. (FJ: Samvinnufélag Ísfirðinga hefir aldrei þegið einn eyri frá Kveldúlfi; það eru hrein ósannindi.) Jú, samvinnufél. Ísfirðinga hefir étið upp það, sem við skilamennirnir greiðum í ríkissjóðinn. Það er eftirtektarvert, þegar ég stend upp og legg fyrir hv. þm. þá spurningu, hvernig standi á því, að hann sé á móti þessari ábyrgðarheimild, þegar ég heimta, að hann hreinsi sig af því ámæli, sem ég bar á hann, að hann hugsaði bara um að skara eld að sinni köku, þá stendur hv. þm. upp og eys úr sér svívirðingum. Í stað þess að svara. Mér er það að vísu ljóst, að honum veitist erfitt að færa rök fyrir sinni afstöðu í þessu máli, og líklega verður bezt fyrir hann að fá einhvern sér meiri mann til þess að semja þá greinargerð. En svívirðingar hv. þm. gerðu ekki annað en að sverta þann blett, sem ég setti á hann. Ef hv. þm. hefði í stað þessu sagzt geyma sér frekari umr. um málið til 3. umr. — með það líka fyrir augum að láta sér færari menn semja ræðuna — þá hefði engum dottið í hug að alasa honum fyrir það, og sézt mér, sem veit, hv illa hann sjálfur er fær um það. Ég vil nú gefa honum enn tækifæri og skora á hann að hreinsa sig af þessu, og vænti þess, að hæstv. forseti leyfi honum nokkur orð. En ef hv. þm. hefir ekki í sér manndóm til að svara núna, þá ætti hann að geyma sér það til síðari umr. og fá t. d. sessunaut sinn til að semja ræðuna fyrir sig.