24.11.1933
Efri deild: 18. fundur, 47. löggjafarþing.
Sjá dálk 157 í B-deild Alþingistíðinda. (164)

2. mál, kosningar til Alþingis

Jón Baldvinsson:

Þetta mál hefir hlotið þann undirbúning áður en það kom fyrir þingið, að það hefði mátt ætla, að afgreiðsla þess hefði ekki orðið eins flókin eins og nú er útlit fyrir, að verði, þar sem flokkarnir allir höfðu tilnefnt menn til þess að undirbúa það fyrir þingið. Það frv. mun stj. nú samt sem áður ekki hafa borið fram óbreytt, heldur breytt því í ýmsum verulegum atriðum. Hún mun m. a. hafa breytt ákvæðinu um það, hvenær kjördagur skuli vera, og óhentugri tími valinn en gert var í frv. nefndarinnar.

Það skiptir miklu, hver not verða að þessari nýju stjskr., hvernig þessi kosningalög verða úr garði gerð. Í kosningalagafrv. sem fyrir liggur, er það mjög takmarkað, að þær umbætur, sem felast í nýju stjórnarskránni, komi að fullum notum. Í fyrsta lagi með því, hvenær kjördagur er ákveðinn, og í öðru lagi með því, hvernig ætlazt er til, að flokkar hljóti uppbótarsæti. Og að því er snertir síðara atriðið, landslistann, er auðséð, að þar hafa mestu ráðið tveir fjandmenn stjskr.

Þeir einu 2 menn á þinginu, sem eru á móti nýju stjskr., eiga að fá að ráða því, að kosningalögin spilli henni, ef ekki verða breytingar til bóta á kosningalagafrv. hér í efri deild. Þó að í fljótu bragði sýnist ekki hugsanarétt, að tveir menn af 42 geti ráðið, þá hefir þetta nú samt sýnt sig í þessu máli síðustu dagana. Og það er ákaflega óeðlilegt, að þeir menn, sem vilja láta stjskr. verða að sem minnstu gagni og láta hana verða óvinsæla meðal þjóðarinnar, geti ráðið því, að kosningalögin verði tóm endileysa. Takist þetta, þá mundi fyrst og fremst almennt verða bent á nýju stjskr. og henni kenndur sá glundroði, sem upp kæmi vegna vitlausra ákvæða kosningalaga, og myndi þá koma upp hjá allmörgum, að það væri betra að hverfa aftur að hinu fyrra fyrirkomulagi.

Það væri því ákaflega undarlegt, ef þeir einu tveir menn í þinginu, sem ekki vilja neina stjskr.breyt. og hafa greitt atkv. á móti henni, gætu ráðið því, að kosningalögin yrðu sú endileysa, að árangur sæist ekki af því, sem áður hefir verið gert.

Þetta verður að sjálfsögðu athugað í n., og á ég nú raunar sæti í henni, en af því, sem á undan er gengið, þykir mér mestar líkur til, að vitleysurnar fái að halda sér í kosningalögunum að meira eða minna leyti. Mér sýnist þær þannig fram bornar, að þær hafi það mikið fylgi a. m. k. í Nd., að allar líkur séu til, að kosningalögin verði afgr. svo vitlaus frá þinginu sem engum manni hefði dottið í hug, að hægt væri, eftir þeirri stjskr.breyt., sem nú er búið að samþ. Ég segi þetta aðeins af þeirri reynslu, sem orðin er, en auðvitað gæti þessi hv. d. lagfært það.

Það hefir við atkvgr. í Nd. komizt inn margskonar ósamræmi, sem hægt væri að laga. Því að þegar samþ. eru svo víðtækar till. sem gert var við 3. umr. í Nd., sem stríða á móti heilsteyptri hugsun frv., rugla saman óskyldum ákvæðum og setja mótstríðandi ákvæði, þá er hætt við, að það rugli alla löggjöfina.

Þessa formgalla mætti laga, en hitt væri þó mest um vert, að fjendur stjskr. gætu ekki hrósað happi, að þeir hefðu ruglað svo kosningalögin, að sú stjskr.-breyt., sem gerð var, reyndist í framkvæmdinni tóm endileysa.