24.11.1933
Efri deild: 18. fundur, 47. löggjafarþing.
Sjá dálk 159 í B-deild Alþingistíðinda. (165)

2. mál, kosningar til Alþingis

Dómsmrh. (Magnús Guðmundsson):

Mér þótti hv. 2. landsk. taka nokkuð upp í sig, þegar hann var að tala hvað eftir annað um endileysu og vitleysu og margendurtekur þetta. Hann vill gera allt frv. að einni endileysu, vitleysu og dellu bara út af einu atriði, sem komst inn í frv. í Nd. Hann talaði einnig um, að það væri komið svo mikið ósamræmi í frv., að það væri illnothæft. Ég veit ekki til, að þetta sé rétt. Ég veit aðeins af einu atriði, sem viðkunnanlegra væri að leiðrétta. En það er ekkert undarlegt, þar sem frv. er 158 gr. og komið með 60 til 70 brtt. við það, að það geti farið svo, að eitthvert ósamræmi komist inn. En mér finnst, að þetta ætti að geta sýnt hv. 2. landsk., að það getur verið nógu gott að hafa 2 deildir í þinginu.

Út af því ákvæði, sem hann úthúðaði mest, vil ég benda honum á, að þar er ekki um annað að ræða en það, sem stjskr. gefur skýlausa heimild til þess að gera, og þessi endileysa og vitleysa, svo ég noti orð hv. þm., er ekki önnur en sú, að það er ákveðið, að þeir mennirnir geti komið til greina í uppbótarsæti, sem hafi sýnt það úti um land, að þeir hafi þar eitthvert fylgi. Það er m. ö o. lýðræðishugsjón, sem liggur á bak við þetta ákvæði. En það, sem hv. 2. landsk. er svo ákaflega illa við, er, að heimildin til þess að ákveða þetta sjálfir, er felld burt. Ég verð að segja, að ég get ekki fundið, að það sé eðlilegra, að flokkarnir eða miðstjórnir þeirra geti ráðið nokkrum þm. heldur en kjósendurnir úti um land. En kannske hv. 2. landsk. vilji hafa það svoleiðis, að miðstjórnir flokkanna tilnefni alla þm. Nei, það er ekki hægt að segja, að þetta nýja ákvæði sé á neinn hátt óeðlilegt, og ég get ekki séð, að það brjóti í bág við stjskr., sem nú er búið að samþ.

Það er gömul deila hér í þinginu um kjördaginn, og sú deila er um það, hvort eigi að taka meira tillit til fólksins í kaupstöðunum, sem venjulega á mjög létt um kjörsókn, eða fólksins úti um land, sem á erfitt um kjörsókn; og ekki einungis fólksins, sem á að sækja kjörfund, heldur þeirra, sem eiga að halda kjörfund.

Það er svo þegar illa vorar hér, að erfitt er um ferðalög fyrr en seint í júnímánuði, og við það er kjördagurinn miðaður. Það er ekki nema sjálfsagt í þessu landi að velja þann tíma ársins til kosninga, þegar bjart er allan daginn, í staðinn fyrir, að hv. 2. landsk. og hans flokksmenn vilja paufast við þetta í myrkrinu á haustin.

Þá talaði hv. þm. um, að frv. hefði verið breytt frá því, sem gengið var frá því í n. Ég var í n. og ég kalla það ekki að ganga frá því í n. fyrr en ég var búinn að samþ. það, og ég hefi ekki samþ. annað en það, sem stóð í frv. þegar það kom fram, og þar sem ég átti að bera frv. fram, gat ég ekki annað en haft það þannig, að ég gæti nokkurnveginn gengið inn á það, en auðvitað slakaði ég víða á til samkomulags, og samkomulagið var yfirleitt gott.