09.12.1933
Neðri deild: 31. fundur, 47. löggjafarþing.
Sjá dálk 612 í D-deild Alþingistíðinda. (1651)

55. mál, meðgjöf með fávitum

Ingólfur Bjarnarson:

Ég get upplýst það, að fjvn. hefir ekki getað tekið afstöðu til þessa máls. Það má öllum vera ljóst, að ekki er þægilegt fyrir n. að starfa, þegar setið er á fundum nótt og dag. Hinsvegar hefi ég haft tal af fleiri en færri af hv. nm., og eftir það viðtal held ég mér sé óhætt að segja, að n. þyki þetta mál ekki nægilega ljóst og naumast reist á svo heppilegum grundvelli sem æskilegt væri. Á ég þar við það, að eftir till. er lagt til, að hjálpað verði þessum vesalingum á Sólheimum, eða aðstandendum þeirra, en sú hjálp kæmi vitanlega mjög misjafnt niður miðað við allt landið, og það tel ég varhugavert. Mér finnst málið svo mikilsvert, að ekki megi hrapa að því með óviturlegum ráðstöfunum, heldur hefði ég lagt til, að það væri betur rannsakað, enda sýnist svo, að það átti að geta beðið reglulegs þings. Ég get sagt fyrir mitt leyti, að ég teldi mjög ákjósanlegt, ef hægt væri að hjálpa þessu ógæfusama fólki, en sú hjálp ætti engu síður að ná til þeirra, sem fjær búa fávitahælinu, heldur en hinna, er eiga heima í grennd við það. Þess vegna álít ég, að málinu sé bezt borgið með því að vísa því til hæstv. stj. til undirbúnings fyrir næsta reglulegt Alþingi.