24.11.1933
Efri deild: 18. fundur, 47. löggjafarþing.
Sjá dálk 160 í B-deild Alþingistíðinda. (166)

2. mál, kosningar til Alþingis

Jón Jónsson:

Ég bjóst satt að segja ekki við miklum kappræðum um þetta mál við þessa umr., heldur að menn mundu geyma sér það þangað til það kæmi úr n., en hv. 2. landsk. hefir nú verið svo heitt á kollinum, að hann hefir ekki getað stillt sig um að gjósa strax, en það verður þá kannske eitthvað farið að draga úr hitanum við 2. umr.

Hv. þm. (2. landsk.) var að minnast á fjendur stjskr., sem hefðu ráðið lögum og lofum um afgreiðslu kosningal. í Nd. Ég veit ekki vel, við hverja hann hefir átt, en af því að hann var að tala um einhverja tvo menn, sem hefðu greitt atkv. á móti stjskr., þá býst ég ef til vill við, að ég hafi átt eitthvað í því. (JBald: Það er ekki efamál). Mér þykir þetta ákaflega mikið „kompliment“, þó að það sé nokkuð óeðlilegt, að ég, þrátt fyrir það, að ég á sæti í Ed., hafi úrslitaúrskurð um, hvernig mál eru afgr. í Nd.

En hvað því viðvíkur, að við hv. þm. V.-Húnv. höfum sýnt stjskr.breyt. sérstakan fjandskap, þá má um það deila. Ég hefi áður fyrr í meðferð stjskr. hér á þinginu verið fús til takmarkaðra breyt. til að jafna nokkuð milli flokka, en það skal ég játa, að í síðustu meðferð þingsins í ísjárverð breyt. að mínum dómi, sem rýrði svo mikið vald sveitanna, að ég sá mér ekki fært að greiða frv. atkv. Ég skal þó játa, að þetta horfir öðruvísi við mér nú, ef kosningalögin verða afgr. í þeirri mynd, sem þau eru, því að ég get vel viðurkennt, að það er mikil réttarbót fyrir sveitirnar, sem komst inn í þau í Nd. En ég get hugsað, að hv. 2. landsk. sé ekki um þær breyt., af því hann er ekki að hugsa um vald fólksins úti um land, heldur fyrst og fremst fámennra klíkna hér í Rvík, og af því að það vald er rýrt með þeirri breyt., sem Nd. gerði, er honum heitt, en fólkið úti um land mun kunna að þakka og meta þá réttingu sinna mála, sem það hefir fengið með þessari breyt., þar sem það er nú ekki jafnháð fámennum klíkum hér í Rvík, því að nú er það sett að skilyrði, eins og ég hélt fram í vor, að til þess að einhver maður geti hlotið uppbótarsæti samkv. stjskr., verður hann að hafa sýnt, að hann hafi talsvert mikið traust úti um land. Með þessu er rétti sveitanna að miklu leyti bjargað, og vona ég, að Alþ. beri gæfu til að skila kosningalögunum þannig af sér, að úr þessu ólánsákvæði stjskr. verði svona vel bætt.

Ég tók það svo, að það væri þetta aðalatriði, sem hv. 2. landsk. sveið mest, og auðvitað skil ég það frá hans sjónarmiði, og sé þess vegna ekki beina ástæðu til þess að fara frekar út í það, en mér fannst, eins og hæstv. dómsmrh. tók fram, liggja nærri sú hugsun, að hann vildi helzt óska, að flokksstjórnirnar einar hefðu vald til þess að velja alla þm., og þá rekast hugsanir okkar mikið á, því að ég vil, að fólkið úti um land hafi sinn fulla og óskipta rétt til þess, en ekki fámennar klíkur hér í Rvík.