27.11.1933
Efri deild: 20. fundur, 47. löggjafarþing.
Sjá dálk 248 í D-deild Alþingistíðinda. (1677)

69. mál, landhelgisgæsla

Flm. (Ingvar Pálmason) [óyfirl.]:

Eitt af því, sem mjög grípur inn í afkomumöguleika þeirra manna, sem stunda útgerð í smærri stíl, er landhelgisgæzlan. Það er nú svo ástatt, að meiri hluti sjómannanna hér á landi sækir sjóinn á smábátum, árabátum og svo nefndum trillum; svo er þetta a. m. k. á Austfjörðum og að ég held einnig á Vestfjörðum. Það liggur því í augum uppi, að ef misbrestir koma á landhelgisgæzluna, þá hljóta afleiðingarnar aðallega að koma niður á smábataútgerðinni, sem aðallega notar grunnmiðin. Er því ekki nema eðlilegt, að þá þyki þeim, sem gengið sé á hag sinn. Landhelgisgæzlan er svo þýðingarmikil fyrir bátaútgerðina, að það má vissulega líkja henni við varnir þær, sem á landi eru notaðar gegn því, að stórgripastóð gangi óhindrað um tún manna og engjar. Varnir þessar eru nú víðast hvar orðnar harla fullkomnar á landi og tryggja mjög lífsbjargarmöguleikana þar. Nú orðið mundi það talið óviðunandi, ef slíkar varnir fellu niður og skepnurnar gengju hindrunarlaust um slægjulöndin, en það er alveg hliðstætt því, er stórskip koma í hópum og skafa grunnmið smábátanna. Eins og kunnugt er, er á sjónum haldið uppi vörnum gegn stórskipunum með allálitlegum skipastól, auk smærri fleytna, sem einnig hafa verið notaðar til uppbótar, en ég skal láta ósagt um, hvernig reynzt hafa; má vera, að þær séu heppilegar. En hvað sem þeim líður, þá er það víst, að meðfram öllu Austurlandi og austurhluta Norðurlands hafa miklir misbrestir verið á landhelgisgæzlunni á síðastl. sumri. Það er almæli meðal sjómanna á Austurlandi, að aflamöguleikar smábáta þar hafi algerlega verið eyðilagðir síðari hluta ágústmánaðar í sumar vegna slælegrar landhelgisgæzlu. Ég veit, að oft hafa fyrr heyrzt kvartanir um ónóga landhelgisgæzlu, og oft hefir þá verið sagt, að slíkar kvartanir hefðu við lítil rök að styðjast. En að því er snertir ágengni togara á grunnmiðin á Austfjörðum á síðastl. sumri, þá eru svo glöggar sannanir fyrir því, hve gífurlega hún hefir aukizt, að því verður ekki móti mælt, að gæzlan hefir þar af einhverjum ástæðum mistekizt hrapallega. Til sönnunar þessu skal ég nefna nokkur dæmi, sem ekki verða hrakin:

1. júlí síðastl. hitti vélskipið Drífa togara að veiðum út af Sandvík. Þetta var tilkynnt lögreglustjóranum á Norðfirði, sem kallaði fyrir rétt bæði skipverja og farpega á Drífu og fékk það staðfest, að togarinn hefði verið að veiðum í landhelgi. Ég hygg, að dómsmrn. hafi verið send aðvörun um málið. — Þá var það í september, að vélbáturinn Fylkir frá Norðfirði hitti togara í landhelgi úti fyrir Dalvík. Togarinn var að veiðum og hafði breitt fyrir nafn og númer og dimmt var af nótt. Það sannaðist við próf í málinu, að togarinn hafði verið í landhelgi.

Þá hefir verið prentuð opinberlega umsögn frá ábúendunum í Sandvík um aðferðir og yfirgang togaranna þar í víkinni, og þeir hafa boðizt til að standa við þau orð, ef þess yrði krafizt. Ég þarf ekki að endurtaka það vottorð, en vil aðeins benda á það, að það er staðhæft, að nótt eftir nótt hafi fleiri togarar verið að toga í landhelgi, og það einmitt á þeim tíma, sem búizt var við, að varðskipið væri fyrir Austurlandi. Ennfremur vil ég benda á skýrslu, sem fulltrúi Fiskifélags Íslands á Austfjörðum hefir gefið Fiskifélaginu og prentuð er í Ægi. Ég geri ráð fyrir, að margir hv. þm. hafi seð þessa skýrslu. Ég skal geta þess, að þessi maður er mjög glöggur og gætinn og ekki kunnur að því að fara með annað en það, sem hann getur fyllilega staðið við. Auk þess tel ég rétt að taka það fram til áréttingar, vegna misskilnings á þessari skýrslu, að þessi maður er alkunnur stuðningsmaður Sjálfstfl., og getur því ekki verið hér um pólitíska áras að ræða.

Þá vil ég enn taka það fram, að á síðastl. hausti hefir það komið fyrir, sem ég veit ekki til, að hægt hafi verið að staðfesta nokkurntíma áður viðvíkjandi yfirgangi togaranna, að þeir hafa leyft sér að toga um hábjartan daginn úti og inni á firðinum, frá legu og út til hafs.

Þetta er gengið svo langt, að það má segja, að það sé þjóðarhneisa, ef ekkert er að gert. Þessu til sönnunar skal ég geta þess, að sunnudaginn 17. sept. nú í haust var ég ásamt fleirum staddur á bátabryggjunni á Norðfirði. Togari lá á legunni. Þeir koma venjulega inn, þegar þeir koma af hafi og lagfæra veiðarfæri sín inni á höfn. Hvort þessi togari var í þeim erindum eða hefir komið með rifna botnvörpu veit ég ekki, en hann kom inn um nóttina og lá á höfninni fyrri part dagsins. Rétt fyrir hádegi léttir hann og fer út fjörðinn. Þegar hann kemur í stefnu á Barðsnes, þá snýr hann út fjörðinn og kastar botnvörpunni stjórnborðsmegin. Ég horfði á þetta með 3 mönnum, sem ég veit, að eru fúsir til þess að staðfesta þetta.

Ennfremur get ég sagt frá atviki, sem gerðist í haust. Vélbátur frá Norðfirði var að koma af sjó. Þegar hann kemur fyrir Horn, sér hann, að togari er að halda inn fjörðinn. Það var orðið skuggsýnt og togarinn því upplýstur, þegar stefnur þeirra skárust, er mótorbáturinn rétt fyrir aftan togarann. Þó það sé orðið skuggsýnt, tekur maður, sem er uppi á mótorbátnum, eftir því, að togarinn er með vörpuna aftan í. Vélbáturinn ætlar þá að sigla upp að togaranum, en þegar hann verður þess var, herðir hann á ferðinni. Það dró því sundur með þeim og togarinn varð fljótari inn á leguna en vélbáturinn. En inni á legunni voru fleiri togarar fyrir, svo vélbáturinn var ekki viss um, þegar hann kom inn, hvaða togari þetta hafði verið, og gat því ekki tekið nafnið á honum. En formaðurinn, sem var við stjórn á vélbátnum, er fús til að staðfesta, að togarinn var með vörpuna aftan í, þegar hann hélt inn fjörðinn. Það hafa gengið sögur um þetta fyrr í sumar. Íbúarnir á Barðsnesi hafa oft sagt, að þeir hefðu grun um, að togararnir köstuðu vörpunni og toguðu, þegar þeir færu út fjörðinn og sneru við.

Bæði þessi tilfelli, sem ég hefi nú nefnt, hafa verið framin undir þeim kringumstæðum, að ekki hefir verið hægt að staðfesta þau. En ég veit, að það muni vera hægt að fá staðfestingu formannsins á vélbátnum, sem sá togarann toga inn fjörðinn.

Þá vil ég enn benda á atriði, sem ég tel hafa nokkra þýðingu í þessu máli, þó það sé nokkuð veikara en þau dæmi, sem ég hefi nefnt hér.

Einhvern daginn snemma í september var það, að Sandvíkingar álitu, að togari væri að toga í vikinni, en veittu honum ekki frekari eftirtekt en venjulega. Þó sáu þeir eftir nokkurn tíma, að togarinn var lagztur suður undir Gerpi, eða a. m. k. lá þar hreyfingarlaus, og þeir gátu ekki annað formerkt en að hann væri að toga. En rétt á eftir kemur Ægir að togaranum og stanzar við hjá honum langan tíma, en fer síðan norður fyrir Horn og hverfur úr augsýn. En þegar Ægir er horfinn, léttir togarinn og hverfur.

Nú hefir mér verið sagt af sjómanni fyrir austan, sem segist hafa haft tal af einum stýrimanni á Ægi, að þetta sé rétt að því leyti, að Ægir hafi hitt togarann undir Gerpi, en hann hafi legið þar við vír og ekkert hafi verið við hann að athuga og þess vegna hafi varðskipið ekkert skipt sér af honum meir. Nú staðhæfa Sandvíkingar, að ef togarinn hafi legið þarna, þá hafi hann ekki legið við annað en vörpu. Ég skal ekki segja, hvað mikið má á þessu byggja. En mér þótti rétt að hreyfa þessu, af því að þetta mál liggur þannig við, að það má ganga úr skugga um, hvort nokkuð er til í þessu, því það hlýtur að sjást í bókum varðskipsins, hvort það hefir hitt togarann. — Þetta er eftirtektarvert, ef það er rétt, að varðskipið hafi hitt togarann. Þá eru miklar líkur til þess, að Sandvíkingar hafi rétt fyrir sér, að togarinn hafi verið að toga, en orðið var við varðskipið og lagzt við vír.

Ég ætla ekki að gera mikið úr þessu atriði, þess þarf ekki með. En ef það bætist ofan á annað, sem þegar er hægt að staðfesta, þá vil ég segja, að landhelgisgæzlan sé farin að verða slæm, ef ekki er betra eftirlit á sjálfu varðskipinu en það, að togarar þurfi ekki annað en að bregða vírum fram á stefni togarans á meðan varðskipið fer hjá. Ég skal ekki gera mikið úr þessu fyrr en Ægir hefir staðfest, að varðskipið hafi hitt togarann, en þá geri ég mikið úr því.

Ég held, að ég hafi þá með nokkrum rökum sýnt fram á, að það er ekki ofmælt, sem sagt er í grg. fyrir till., að ágangur togara í landhelgi við Austfirði hafi aukizt svo mjög á síðasta missiri, að ekki sé við það unandi. Í sumar höfðu trillubátar frá Norðfirði sæmilegan reytingsfisk í Sandvík og fyrir sunnan Horn allan júlí og fram í ágústmánuð, en eftir að kom fram í miðjan ágúst og togararnir toguðu þarna 10–11 á hverri nóttu, þá tók fyrir allan afla. frá Norðfirði gengu 40 árabátar og trillubátar í sumar. Það er því skiljanlegt, að þessum mönnum sárni, þegar brauðið er svo að segja tekið frá munni þeirra.

Ég vildi því vænta þess, að d. taki vel í þessa þáltill. og samþ. hana og að ríkisstj., hver sem hún verður, láti ekki undir höfuð leggjast að bæta úr landhelgisgæzlunni á þessu svæði, a. m. k. á tímabilinu frá ágústmánuði til jóla.

Ég ætla ekki að fara frekar út í landhelgismálin að þessu sinni. Ég ber þetta mál fram sem nauðsynjamál án ýfinga. Þó að ég sjálfur telji, að misráðnar hafi verið ýmsar raðstafanir, sem gerðar hafa verið á landhelgisgæzlunni. Ég ætla að meta það meira að reyna að fá viðurkennt, að landhelgisgæzlan hafi verið ófullnægjandi og úr því þurfi að bæta.

Ég skal geta þess, að dómsmálaráðuneytið gerði ráðstafanir til þess að leigja bát til landhelgisgæzlu á Austfjörðum í haust. Án þess að ég vilji leggja dóm á það, hvort það er rétt aðferð eða ekki, þá skal ég viðurkenna, að þetta var þó viðleitni til þess að bæta úr því, sem þarna fór aflaga, en stærsti gallinn á því var, að þetta kom of seint, en ég geri ráð fyrir að það hafi stafað af ókunnugleika frekar en af trassaskap.

Þó að ég hafi aðeins dregið fram dæmi á þessu litla svæði, þá vil ég geta þess, að — að svo miklu leyti sem mér er kunnugt — þá er ástandið mjög líkt um allt Norðausturland. En ég tók dæmi af þessu svæði af því, að mér var það kunnugast.

Ég ætla að láta lokið hér máli mínu í ætta sinn og heyra, hverjar undirtektir till. fær hjá hæstv. dómsmrh. og hv. d.