24.11.1933
Efri deild: 18. fundur, 47. löggjafarþing.
Sjá dálk 162 í B-deild Alþingistíðinda. (168)

2. mál, kosningar til Alþingis

Jón Baldvinsson:

Út af ummælum hv. 5. landsk., að ekki sé viðeigandi að láta kosningar fara fram á sunnudegi, þá vil ég geta þess, að þetta getur verið tilfinningamál fyrir einstaka menn, en við höfum fordæmi í þessu efni, þar sem tekin er upp þessi regla í flestum nágrannalöndunum. Við verðum að taka tillit til þess, hversu miklu er auðveldara fyrir almenning að sækja kosninguna á sunnudegi, og þess vegna eru þessi ákvæði sett inn í frumv.

Hæstv. dómsmrh. vildi forsvara frv. á alla lund. Hæstv. ráðh. vildi halda því fram, að hann bæri ábyrgð á frv. eins og það kom frá stj., en ég sé ekki annað en að flokksfulltrúarnir í nefndinni hefðu haft sinn rétt til þess að láta frv. koma fyrir þingið eins og nefndin gekk frá því. Það er a. m. k. ekki óalgengt, að stjórnir flytji frv., sem þær eru ekki í öllum atriðum samþykkar, sérstaklega þegar málin eru undirbúin af nefnd, skipaðri af þingflokkunum, eins og hér átti sér

stað. Ég geri því ekkert úr þessari ábyrgð hæstv. ráðh.

Hæstv. ráðh. vildi láta líta svo út, að með fyrirkomulaginu á landslistanum væri tryggt, að þeir, sem kæmust að á landslista, hefðu mikið fylgi úti um land. En þetta er með öllu rangt, því í litlum kjördæmum þarf ekki mikið fylgi, mörg atkvæði til þess að hljóta þingsæti á landslista, ef flokkur frambjóðanda á annars rétt til þess.

Það er kunnugt um hv. 3. landsk., að hann reis upp á afturfæturna í fyrra, þegar samkomulag hafði náðst um stjskrbreyt., sem var byggt á því, að á landslista væri annarhver maður frambjóðandi í kjördæmi utan Rvíkur. Og nú á þegar í kosningalögunum, fyrir tilstilli hans, að rjúfa þetta samkomulag, þar sem í frv. eiga allir fyrstu 10 mennirnir að vera frambjóðendur í kjördæmum. Og þó að lögkrókamenn segi, að þetta geti staðizt, þá hefir með þessu grundvellinum undir samkomulaginu verið raskað. Þetta er virkilega brot á móti anda stjskrbreyt.

Hv. 3. landsk. er stöðugt með derring um það, að hann vilji í hvívetna hlynna að sveitafólkinu. En í þessu efni er hann ekki að hlynna að sveitafólkinu, heldur sjálfum sér. Hugsanagangur hans er á þessa leið: Ég er kominn í svo mikla ónáð hjá mínum flokki fyrir svik mín við hann, að ekki er sýnt, að hann vilji veita mér stuðning við næstu kosningar. Þess vegna verð ég nú umfram alla muni að tryggja það, að flokkurinn hafi engin áhrif á framboð mitt og að ég geti notið atkvæða flokksins hversu ótrúr sem ég er málum hans. Til þess að koma þessu fram, skirrist hann ekki við að svipta sveitafólkið rétti sínum. Þetta er nú umhyggja hans fyrir þessu fólki, sem hann þykist bera svo mjög fyrir brjósti. Eftir hans hugsun gætu 200 menn ráðið því, að frambjóðandi komist að á landslista, sem aftur gæti hindrað það, að maður, sem hefir dregið flokki sínum mörg þúsund atkvæði, komist að á landslista. Þetta kallar hv. þm. að hugsa um fólkið úti um land. Sannleikurinn er sá, að hið eina, sem hann hugsar um, er að bjarga sínu auma skinni í deildinni við sinn eigin flokk.

Eins og frv. nú liggur fyrir, geta ýmsar stjórnmálaskækjur troðið sér inn á flokkana án vilja þeirra. Menn geta boðið sig fram t. d. fyrir Sjálfstfl. án þess að tilheyra þeim flokki, eða fyrir Alþfl. og komizt að, til þess svo að svíkja þá þegar eftir kosninguna.

Þetta ástand hefir vakað fyrir hv. 3. landsk., hann hefir hugsað sér að ná í Austur-Húnavatnssýslu á þennan hátt. En Jón Pálmason, náfrændi hans og kunningi, hefir nú náð kjördæminu, og er því ekki víst, að þetta takist. Hv. 3. landsk. hefir ætlað sér að bjóða sig fram sem framsóknarmaður, þrátt fyrir það, þó að flokkurinn afneiti honum, og fljóta þannig inn á þing. Þetta væri alveg óhæfilegt og argasta hneisa, ef þingið gengi þannig frá kosningalögunum.

Þar sem hv. þm. er með ásakanir til mín um það, að ég hugsi aðeins um kaupstaðina, þegar ég vil hafa kjördag að haustinu, þá er það ekki nema eðlilegt, að hugsað sé einnig um hinar vinnandi stéttir við sjávarsíðuna, sem skipta tugum þúsunda. Ég sé heldur ekki, að bændum sé gert ómögulegt að sækja kjörfund, þó að kosningadagur væri ákveðinn að haustinu til. Og þó að ég geti fallizt á, að bændum sé ofurlítið auðveldara að sækja kjörfund síðari hluta júní eða fyrst í júlí, þá er og hægt að finna tíma að haustinu, er teljast megi hentugur. Hinsvegar er verkamönnum og sjómönnum gert afarerfitt fyrir um kjörsókn á miðju sumri. Þeir flykkjast burt til vinnu frá heimilum sínum um þennan tíma, og þess vegna er það réttmæt krafa þeirra að hafa kosningar að haustinu.